Hesturinn er spegilmynd knapans

  • 23. mars 2024
  • Aðsend grein

Bjarni Sveinsson og Sturla frá Bræðratungi Ljósmynd: Inga Þórey Ingólfsdóttir

Aðsend grein eftir Bjarna Sveinsson

Árið 2009 keppti ég á móti sem gekk ekki sem skildi. Ég fór til dómarans eftir mótið og spurði hvað mætti betur fara. Fátt var um svör en dómarinn sagði þetta við mig í frekar hrokafullum tóni: „Hesturinn er spegilmynd knapans.“ Í dag skil ég hvað dómarinn átti við en á þessum tíma fór þetta öfugt ofan í mig. En þarna var sáð fræi sem varð einhverju fallegu seinna meir. Það er nefnilega þannig að alla hesta er hægt að temja, það tekur bara mislangan tíma. Sem reiðmaður er ég verkfærið. Hægt er að stilla mig eins og gítar til þess að við hesturinn náum saman. Einfalda lausnin er að skella ábyrgðinni á hestinn með fórnarlambstón og segja: “Hann er of þetta eða hitt, ræktum bara betri hross“. Mín skoðun er sú að tamningamenn og ræktendur þurfi naflaskoðun. Við þurfum ekki að rækta betri hross heldur þurfum við að vinna betur úr því sem við höfum.

Árin liðu og ég drep aftur niður árið 2016. Það ár gekk vel hjá mér, náði árangri í starfi og persónulega lífinu. Ég hafði alla tíð verið mjög markmiðadrifinn og má segja að ég hafi farið fram úr mínum björtustu vonum. Tómleikinn sem ég upplifði haustið 2016, þá 26 ára gamall, varð seinna meir að drifkrafti. Mér hafði tekist að uppfylla alla mína drauma.

Ég fór að spyrja mig spurninga eins og „af hverju getur þessi riðið klárgengum hestum en ekki hinn? Afhverju gerir þessi knapi allt rólegt meðan aðrir gera alla hesta hálf vitlausa?“.

Mín lausn er: Þjálfaðu sjálfan þig! Fyrst um sinn gerði ég meira ógagn heldur en gagn. Ég fann leið inn í yoga og hugleiðslur. Fór að sækja mér þekkingu á betri stöðum og geta fylgt því eftir betur sjálfur.

Niðurstaðan er einföld en erfið í framkvæmd: Stjórnaðu eigin andadrætti, hann er lykillinn.

Minn stærsti kennari í lífinu er Sturla frá Bræðratungu. Enginn hefur haft eins mikil áhrif á mig. Ég hef oft gefist upp á leiðinni en alltaf staðið upp aftur. Fimm ár hef ég þjálfað hann með það markmið að keppa á honum.

Saga okkar verður umfjöllunarefni í greinaröð sem birtist hér í Eiðfaxa.

Höfundur: Bjarni Sveinsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar