Hnokki er líklega “once in a life time hestur”

  • 27. desember 2021
  • Fréttir

Fréttir bárust af því í dag að einn hæst dæmdi klárhestur landsins hafi skipt um eigendur, þegar hjónin Gitte og Flemming Fast festu kaup á Hnokka frá Eylandi.

Hnokki er átta vetra gamall, undan heiðursverðlaunahestinum Álfi frá Selfossi og fyrstu verðlauna hryssunni Hnátu frá Hábæ. Hnokki hefur hlotið 8,52 í aðaleinkunn. Hann hlaut m.a. 9,5 fyrir tölt, brokk, stökk og samstarfsvilja, 9,0 fyrir hægt tölt, hægt stökk og fegurð í reið, sýndur af Helgu Unu Björnsdóttur.

Eiðfaxi setti sig í samband við ræktendur Hnokka þau Davíð Matthíasson og Rut Skúladóttir og spurði þau útí söluna.

”Það er komið að vissum kaflaskiptum fyrir okkur þar sem Flemming og Gitte Fast hafa fest kaup á Hnokka.  Við erum mjög ánægð með að klárinn lendi í metnaðarfullum höndum og enn glaðari með að Helga Una fái að halda áfram sinni vegferð með Hnokka en þau hafa staðið sig frábærlega saman.

Hnokki hefur veitt okkur ómælda ánægju síðustu ár, staðið sig frábærlega bæði á kynbótabrautinni og keppnisvellinum.  Hnokki er með einstakt geðslag og hreyfieðli ásamt gæðum á öllum gangtegunum. Fyrir okkur er Hnokki líklega “once in a life time hestur”. Þeir eru ekki margir stóðhestarnir sem hafa farið í topp kynbótadóm með heila 9.26 fyrir hæfileika sem klárhestur þar af fjórar 9.5ur.  Ásamt því að standa afar vel á keppnisbrautinni strax kornungur. Helga Una og Hnokki urðu önnur í T2 með 8.56 og þriðju í fjórgang með 7.70 á Íslandsmóti í hestaíþróttum á Hólum í sumar.

Planið er að halda áfram vegferð þeirra Hnokka og Helgu Unu á keppnisbrautinni enda Hnokki aðeins 8 vetra gamall og rétt að byrja á þeim vettvangi. Íslenskum ræktendum bíðst að nota Hnokka næstu tvö sumur en síðan er stefnan tekin á Heimsmeistaramót 2023 og eftir það fá evrópskir ræktendur að nota hann i gegnum sæðingastöð þeirra Gitte og Flemming – Lindholm Høje í Danmörku.
Við erum full tilhlökkunar að fylgjast með Hnokka næstu misseri og óskum nýjum eigendum farsældar” segja þau Davíð og Rut að lokum.
Eiðfaxi óskar nýjum eigendum innilega til hamingju með Hnokka.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar