Hobbíhestaæðið hefur náð til Íslands

Hobbíhestaæðið hefur náð til Íslands en hobbíhestar hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum undanfarin ár og eru vinsældir þeirra alltaf að aukast og eru íslensk börn þar ekki undanskilin.
Það sem heillar við hobbíhestana, eða prikhestana, er að allir geta verið með. Í keppni fara þátttakendur í gegnum ýmsar hindranir og þrautir á hobbíhesti en til eru alþjóðlegar keppnisreglur um framkvæmd mótanna.
Mæðgurnar Guðný María Waage og Arnheiður María Hermannsdóttir Waage stóðu fyrir fyrsta viðburðinum með hobbíhesta á Íslandi á Húsavík í mars á þessu ári. Keppt var á hobbíhestum á Landsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina og á föstudaginn, 17. október, mun hestamannafélagið Fákur bjóða upp á þrautabraut þar sem áhugasamir geta leikið listir sínar.
„Fjörið hefst kl.17:00 og þá hjálpast allir við að setja upp þrautabraut. Áætlum að þessu sé lokið kl.19:00. ATH – þátttakendur koma með sinn eigin gæðing til að þeysast á um höllina. Hægt er að fá hest í Líflandi, einnig leynast stundum hestar í góða hirðinum, en svo er líka hægt að koma með heimagerðan hest.“ segir í tilkynningu frá Fáki.
Á facebook er síða sem heitir “Hobby horse á íslandi” sem áhugasamir geta gengið í.