„Höfum bætt við einum viðburði á næsta ári“

  • 18. september 2021
  • Fréttir

Arnar Heimir Lárusson á Flosa frá Búlandi. Mynd: Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir

Viðtal við nýjan formann Áhugamannadeildarinnar, Arnar Heimi Lárusson.

Nýr formaður áhugamannadeildarinnar. Hvernig kemur það til og hvernig leggst það í þig?

Það kom nú þannig til að fráfarandi formaður, Linda Gunnlaugsdóttir, hringdi í mig nú í sumar og spurði hvort ég hefði áhuga á því að vera í stjórn áhugamannadeildarinnar í ár. Ég var til í það og eftir fyrsta fund var ég orðinn formaður.

Starfið leggst mjög vel í mig og það verður gaman að taka þátt í að halda mótin næsta vetur! Við búum svo vel að flestir í nefndinni eru búnir að vera lengi viðloðandi deildina svo við gætum ekki verið í betri stöðu hvað það varðar.

Finni þið fyrir miklum áhuga fyrir deildinni ? Eru margir búnir að sækja um ?

Já það er auðvitað mikil spenna fyrir deildinni eins og hvert ár. Það eru flestir sem hafa rétt til búnir að staðfesta áframhaldandi þátttöku fyrir næsta ár. Þá hafa ný lið líka sótt um þátttöku svo við munum sjá ný andlit á næsta ári.

Hverjar eru áherslubreytingar þessa árs ? Ef það er einhverjar?

Mótahald síðasta árs litaðist auðvitað mikið af því sem Covid leiddi af sér svo fyrsta áherslan er að við getum haft opið fyrir áhorfendur án takmarkana. Þó verður auðvitað tekið tillit til sóttvarnarráðstafana hverju sinni, en við erum mjög bjartsýn.

Hvað varðar keppnina sjálfa verður mótið með sambærilegu sniði og undanfarin ár. Það verður keppt í fjórgangi, fimmgangi, tölti og slaktaumatölti inni í Samskipahöllinni en við höfum einnig bætt við einum viðburði sem er keppni í gæðingaskeiði og verður hún haldin úti á velli. Þá verður liðum heimilt að tefla fram öllum knöpum í þremur greinum, þ.e. í tölti, slaktaumatölti og gæðingaskeiði, þar sem þrjár efstu einkunnir gilda. Þannig gefst hverjum knapa möguleikinn á að keppa oftar.

Hverjir eru með þér í stjórn deildarinnar?

Við erum sex í stjórninni. Það eru reynsluboltarnir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, Erla Magnúsdóttir, Katla Gísladóttir og Þórir Örn Grétarsson. Svo komum við nýir inn, ég og bróðir minn Lárus Sindri.

Hverjar eru dagsetningar ?

Í ár verða fimm viðburðir í Áhugamannadeildinni árið 2022 og eru allar greinar á fimmtudögum að undanskilinni keppni í gæðingaskeiði, sem haldin er á laugardegi. Dagsetningarnar eru:

Fjórgangur – 3. febrúar
Fimmgangur – 17. febrúar
Slaktaumatölt – 3. mars
Gæðingaskeið – 12. mars
Tölt (lokamótið) – 17. mars

Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?

Við hvetjum alla til að sækja um þátttöku með ný lið í deildinni fyrir 30. september nk. og ég vona til að sjá sem flesta þann 3. febrúar á næsta ári!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<