„Höfum gaman af þessu“

  • 7. maí 2024
  • Fréttir
Heimsókn á hrossaræktarbúið Fet

Blaðamaður Eiðfaxa var á ferðinni í Rangárvallasýslu í síðustu viku og leit hann m.a. við á Hrossaræktarbúinu Feti og spjallaði við bústjóranna þar á bæ, þau Bylgju Gauksdóttur og Ólaf Andra Guðmundsson. „Við segjum hörku gott, fyrstu merar fara að kasta og vorið farið að láta á sér kræla. Maður er farinn að huga að því að fara úr síðu nærbuxunum“

Á hverju ári er 20-25 hryssum haldið undir stóðhesta og eru folöld væntanleg undan hinum ýmsu stóðhestum. „Það er ekki alltaf auðvelt að muna svona akkurat á stað og stund hvað við notuðum síðasta sumar en þeir stóðhestar sem voru notaður eru t.d. Dagur frá Hjarðartúni, Hringur frá Gunnarsstöðum, Trymbill frá Stóra-Ási, Gangster frá Árgerði, Þráinn frá Flagbjarnarholti, Veigar frá Skipaskaga og Hulinn frá Breiðstöðum.“

Síðastliðinn ár hefur Fet búið fengið til sín stóðhest í girðinu en í ár segjast þau Bylgja og Ólafur Andri ekki ætla að gera það heldur keyra sínar hryssur undir hesta. „Þessi hestar sem við ætlum að nota í ár eru flestir bara hér í nágrenninu. Við erum ekki endanlega búinn að ákveða hvað við notum og ýmislegt getur breyst í vor en þeir sem eru á blaði eru. Stáli frá Kjarri, Skýr frá Skálakoti, Hulinn frá Breiðstöðum, Veigar frá Skipaskaga, Gandi frá Rauðalæk og Roði fra Lyngholti.“

Verður nóg um að vera í sumar

Ólafur Andri var þátttakandi í Meistaradeildinni í vetur í liði Austurkots/Pulu. „Ég var að koma aftur inn í Meistaradeildina eftir hlé. Þetta var mjög skemmtilegur vetur með góðum liðsfélögum, þetta gerir mann að betri knapa og heldur manni á tánum. Elsa Mandal Hreggviðsdóttir hefur starfað hjá okkur í vetur og tók hún þátt í Suðurlandsdeildinni á hrossum frá okkur og stóð sig mjög vel. Varð t.d. í þriðja sæti í einstaklingskeppninni. Bylgja var svo í afleggjaradeildinni, en það er langskemtilegasta deildin, láta fara fallega hér á afleggjaranum.“

Kynbótaasýningar eru á næsta leyti og skráning á þær hófst með hvelli í gær. „Við ætlum okkur mest að vera á Hellu. Við höfum engar áhyggjur af því að allir dómarar eru að fara að gera sitt besta. Við erum að stefna að því að mæta með 8-10 hross í dóm, flest þeirra eru mjög ung og því verður að koma í ljós hvernig þau þróast fram að sýningu. Við vonum auðvitað að einhver hross frá okkur komist á Landsmót en við reynum samt bara að taka eitt skref í einu og byrja á því að undirbúa þau fyrir kynbótadóm og sjáum hverju það skilar okkur.“

Draumur frá Feti og Ólafur Andri

„Við stefnum einnig að því að taka þátt í keppni í sumar. Ólafur Andri verður með Sölku frá Feti í töltkeppni, Elsa Mandal verður áfram með Dröfn og svo erum við einnig með Draum frá Feti sem verður líklegast stillt upp í slaktaumatölt. Þá er Bylgja með hest úr fjölskyldu ræktun sinni, Goða frá Garðabæ, sem fer í keppni fjórgang, tölt og kannski B-flokk. Svo er hér hryssa sem heitir Móeiður sem á eftir að taka endanlega ákvörðun með hvar verður stillt upp en líklega í íþrótta- og gæðingakeppni. Landsmótið í sumar verður hápunktur og við erum vel stemmd fyrir því, maður spyr sig samt stundum hvort það sé of stutt á milli móta því okkur líður eins og LM 2022 hafi bara lokið í gær.“

Eiðfaxi þakkar þeim Ólafi Andra og Bylgju fyrir samtalið. „Skilaboð okkar að lokum er að við skulum anda með nefinu í vor og hafa gaman af þessu þar með talin við sjálf.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar