HorseDay með nýja uppfærslu og virkni

  • 2. desember 2022
  • Sjónvarp Fréttir
HorseDay kynnti á dögunum nýja uppfærslu og virkni í forritinu

Smáforritið HorseDay kynnti á miðvikudaginn nýja uppfærslu og virkni í forritinu sem gerir hestafólki kleift að halda utan um nær allt það sem viðkemur hestamennsku. Notendur geta á auðveldan hátt mælt þjálfunarstundir, haldið utan um umhirðu hrossanna og fylgst með öðrum notendum. Með því að búa til teymi í kringum sinn hest geta meðlimir teymisins fylgst með framþróun hestsins.

Þeir nýju eiginleikar sem hafa nú bæst við eru spjallvefur við aðra notendur, teymi í kringum hvern hest og í fyrsta skipti er gangtegundagreining allra fimm gangtegunda íslenska hestsins möguleg. Sú tækni var unnin í samstarfi við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands og Hafstein Einarsson og í vinnslu er vísindagrein um hvernig skynjarar símans greina allar fimm gangtegundirnar.

Bylting fyrir hestamenn að greina fimm gangtegundir íslenska hestsins

Á kynningunni fór Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay, yfir tæknilýsingu á smáforritinu og á sama tíma fylgdust gestir með reiðtúr hjá knapa í rauntíma þar sem gangtegundagreiningin var notuð. Að reiðtúrnum loknum fjallaði Arnar Bjarki Sigurðarson, reiðkennari og tamningamaður frá Háskólanum á Hólum, um áhrif HorseDay á hestamennsku hans.

„Ég held að þetta app hafi gríðarlega breiða virkni og nýtist því breiðum hópi, bæði atvinnuknöpum og hobbýreiðmönnum. Við munum klárlega sjá keppnisknapa nýta sér þetta í undirbúningi fyrir stórmót og annað, bæði sem utanumhald og eins fyrir gagnasöfnun í þjálfuninni. Eins og við vitum í dag þá byggjast íþróttir mikið á gagnasöfnun og það þýðir ekkert að verða eftir á í því held ég fyrir okkur hestamenn.“

Hafsteinn Einarsson, lektor við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands og meðhöfundur á vísindagreininni sagði einnig nokkur orð um mikilvægi rannsóknarinnar.

„Það er mikið búið að vinna að því að greina gangtegundir í hestum og heilt fræðasvið til um það en hins vegar hefur það ekki verið skoðað hvernig þetta er greint þegar neminn, eða síminn, er á knapanum sjálfum. Við fáum stuttan bút úr símanum og notum hann til að meta hvaða gangtegund er um að ræða og við getum mælt rétt í 94% tilfella hvaða gangtegund er um að ræða en þetta er mjög góð niðurstaða. Sem dæmi má nefna að með því að setja nema á fætur hestsins er hægt að mæla með 99% vissu þannig að það er gríðarlega góður árangur að ná þessu með símtækinu einu saman. Það hefur þurft mikinn búnað til að rannsaka þetta fram að þessu,“ segir Hafsteinn.

Forritið HorseDay hefur þegar verið samþykkt í App Store og Google Play og er aðgengilegt fyrir unnendur íslenska hestsins um allan heim en markhópurinn telur um 300 þúsund manns.

Við hittum Odd Ólafsson framkvæmdastjóra eftir kynninguna.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar