Horses of Iceland – Eitt árangursríkasta markaðsverkefni Íslandsstofu og grunnstoð í kynningu íslenska hestsins
Á síðustu tíu árum hefur markaðsverkefnið Horses of Iceland skapað sér stöðu sem eitt af öflugum verkefnum innan Íslandsstofu. Með markvissri, faglegri og samstilltri markaðssetningu hefur verkefnið fært íslenska hestinum aukinn sýnileika, sterkari ímynd og víðtæka verðmætasköpun sem nær langt út fyrir hestamennskuna sjálfa. Þar sem þjónustusamningur verkefnisins við atvinnuvegaráðuneytið rennur út um áramótin er brýnt að ráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, tryggi áframhaldandi fjármögnun og þannig framhald af þeim ótrúlega árangri sem verkefnið hefur skilað, sérstaklega á samfélagsmiðlum þar sem árangurinn hefur verið einstakur miðað við fjárfestingu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra þekkir verkefnið vel og hefur meðal annars fylgt því eftir á viðburðum erlendis svo sem Equitana og HM.
Sterk heildarmynd og sameiginleg markaðssetning skila margföldum ávinningi
Horses of Iceland var stofnað með það að markmiði að sameina krafta hestamennskunnar og stjórnvalda og byggja upp alþjóðlegt vörumerki í kringum íslenska hestinn. Um er að ræða vítt samstarf sem spannar: atvinnuvegaráðuneytið, hrossabændur, tamningamenn, hestamannafélög, ferðaþjónustuna, útflutningsfyrirtæki og hagsmunaaðila víða um heim. Með samræmdum skilaboðum og sterkri vörumerkjastefnu hefur verkefnið byggt upp viðurkennda ímynd sem skilar sér í aukinni sölu, jákvæðri umfjöllun og vaxandi áhuga á íslenska hestinum.
Íslenski hesturinn hefur í raun fengið hlutverk sendiherra Íslands, eins og forseti Íslands tók sérstaklega fram nýverið. Samhliða því hafa framfarir í ræktun, aukin fagmennska í tamningum og öflug kynning á sérstöðu hans gert hestinn að lykilþætti í tvíþættum grunni íslensks atvinnulífs — ferðaþjónustu og landbúnaði.
Árangur á samfélagsmiðlum – ótrúleg áhrif fyrir lága fjárfestingu
Einn mikilvægasti og sýnilegasti ávinningur Horses of Iceland er gríðarlegur árangur á samfélagsmiðlum. Með faglegum stafrænum herferðum hefur verkefnið náð að skapa víðtæka alþjóðlega athygli og byggt upp öflugan hóp fylgjenda víða um heim. Það hefur skilað sér í:
- aukningu á jákvæðri umfjöllun um íslenska hestinn,
- aukinnar sölu á hestum og hestatengdri þjónustu
- auknum áhuga ferðamanna á hestatengdri afþreyingu,
- og almennri vitundarvakningu sem enginn annar aðili innan hestamennsku hefur burði til að mynda einn og sér.
Árangurinn er sérstaklega eftirtektarverður vegna þess að fjárfestingin í verkefninu hefur verið tiltölulega lítil miðað við umfang og áhrif. Þessi háa skilvirkni gerir Horses of Iceland að einu besta dæmi um hvernig opinber stuðningur við einkaframtak getur skilað margföldum ávinningi fyrir þjóðina.
Aukin verðmætasköpun – áhrif í gegnum alla virðiskeðjuna
Styrking ímyndar íslenska hestsins skilar sér beint og óbeint til fjölda atvinnugreina. Með aukinni eftirspurn á erlendum mörkuðum verður til jákvæð keðjuverkun:
- Ræktendur sjá aukna verðmætasköpun og hvata til enn frekari framfara.
- Tamningafólk og reiðkennarar fá stöðugri verkefni og vaxandi tækifæri.
- Ferðaþjónustan nýtur góðs af aukinni þátttöku í hestatengdri afþreyingu.
- Framleiðendur reiðtygja og búnaðar njóta aukinnar sölu.
- Flutningsfyrirtæki og stoðgreinar fá meiri verkefni þegar útflutningur vex.
Þetta eru ekki einungis tölur á blaði — þetta eru raunveruleg störf, auknar tekjur og sterkari stoðir fyrir landsbyggðina. Þessi ávinningur gagnast hestamönnum um allt land sem njóta góðs af aukinni hestatengdri þjónustu og vöruframboði hérlendis.
Áhyggjuefni: Samdráttur í útflutningi og færri ferðamenn nýta hestatengda ferðaþjónustu
Þrátt fyrir árangurinn á árunum 2015 til 2021, hafa ytri aðstæður á okkar helstu mörkuðum sett tímabundið strik í reikningin. Okkar helstu útflutningslönd eru að glíma við óvissu tengda stríði og verðbólgu. Því er staðan í dag viðkvæm, en síðustu 3 ár hefur:
- Fjöldi útfluttra hesta dregist saman.
- Hlutfall ferðamanna sem nýta hestatengda afþreyingu lækkað.
Í þessu samhengi er mikilvægi Horses of Iceland tvöfalt:
- Að viðhalda og endurheimta eftirspurn á erlendum mörkuðum.
- Að styrkja ímynd íslenska hestsins sem hluta af upplifun Íslands.
Án sterkrar, samræmdrar markaðssetningar gæti íslenski hesturinn misst það forskot sem hefur verið byggt upp í áratugi.
Óstöðug fjármögnun ógnar framtíð verkefnisins
Fjármögnun Horses of Iceland hefur frá upphafi verið byggð á „krónu á móti krónu“ fyrirkomulagi, þar sem ríkið leggur til mest 25 milljónir króna á ári. Þetta hefur skapað mikla óvissu og flækjustig í starfseminni, þar sem fjárhagslegan stöðugleika hefur skort.
Í ljósi þess að verkefnið hefur sannað árangur sinn og að fjárfestingin er lítil í samanburði við ávinning, er ljóst að tími er kominn til að færa verkefnið í fasta árlega fjármögnun.
Ákall til atvinnuvegaráðherra: Tryggið framtíð Horses of Iceland
Í ljósi þeirra staðreynda sem hér hafa verið raktar er eindregið lagt til að atvinnuvegaráðherra tryggi áframhaldandi stuðning og fjármögnun Horses of Iceland með:
- föstu 25 milljóna framlagi á ári,
- samningi til lengri tíma,
- og þeirri stefnumótun og framtíðarsýn sem hestamennska og hestatengd ferðaþjónusta þurfa á að halda.
Horses of Iceland er ekki aðeins kynningarverkefni — það er grunnstoð í kynningu íslenska hestsins, ímynd landsins og margþættri verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag. Með áframhaldandi stuðningi getur verkefnið haldið áfram að lyfta íslenska hestinum á heimsvísu og tryggja að hann verði áfram einn mikilvægasti sendiherra Íslands.
Nokkrar lykil tölur um árangur Horses of Iceland verkefnisins:
- Yfir 157.000 fylgjendur á samfélagsmiðlum (Instagram, Facebook, TikTok, YouTube)
- Efni frá Horses of Iceland fær u.þ.b. 230.000-300.000 áhorf á mánuði á Instagram og Facebook
- Nýjasta samfélagsmiðlaverkefni HOI hefur þegar fengið yfir 5.000.000 áhorf
- Á TikTok hefur efni frá HOI fengið u.þ.b. 65.000 áhorf síðasta árið
- Yfir 2.000.000 sýningagesta hafa heimsótt viðburði þar sem HOI hefur verið með bás eða kynningar
- Yfir 1.800.000 spilanir á HOI myndböndum á YouTube
- 73 fyrirtæki og samtök hafa gengið til liðs við verkefnið í 7 löndum (Ísland, Þýskaland, Svíþjóð, Noregur, Bandaríkin, Nýja-Sjáland og Sviss)
Höfundur: Rúnar Þór Guðbrandsson, fulltrúi í verkefnastjórn Horses of Iceland
„Okkur líður vel í Svíþjóð og höfum komið okkur vel fyrir“
„Við skuldum Íslandsmóti að gera þessa tilraun“