“Hrossin að öllu jöfnu fallegri, með betri gangskil og geðslag”

  • 30. desember 2022
  • Fréttir
Viðtal við ræktendur á Skíðbakka III

Á Skíðbakka III í Landeyjunum búa þau Erlendur Árnason og Sara Pesenacker ásamt syni sínum, Heimi Árna Erlendssyni.

“Skíðbakki eru um það bil 300 ha. grasland og 400 ha. sandur. Við erum með um 23 hross á húsi og rúmlega 100 hross á útigangi. Þetta eru bæði hross í okkar eigu og einnig hross frá öðrum sem eru í þjálfun og hagagöngu hjá okkur. Við erum bæði með graðhestauppeldi og eitthvað af hryssum fyrir erlenda ræktendur sem rækta hér á landi,” segir Sara.

Ræktunin hófst að einhverri alvöru hjá þeim árið 2004 en þá fluttu þau aftur til Íslands eftir að hafa búið í Þýskalandi. Í dag eru þau að fá um átta til tólf folöld á ári.
“Ræktunin hjá okkur er alltaf að þróast og eflast. Í dag erum við með tvær dætur Álfadísar frá Skíðbakka III (8,02) í ræktun hjá okkur, þær Suðurey (8,23) og Elliðaey (8,07), báðar hátt dæmdar klárhryssur undan Kjerúlfi frá Kollaleiru og Arion frá Eystra-Fróðholti. Önnur hryssa sem hefur sett stór spor í okkar ræktun er Móna frá Skíðbakka III en hún hefur gefið okkur sjö fyrstu verðlauna afkæmi,” segir Sara en tvær af dætrum hennar Mónu, Dagsbrún (8,23) og Teikning (7,75) hafa bæst í hópinn. Dagsbrún er undan Álfarni frá Syðri-Gegnishólum og Teikning er undan Klæng frá Skálakoti. “Ein hryssa kom óvænt sterk inn í okkar ræktun er hún Spes frá Skíðbakka (7,87), jarpvindótt litförótt hryssa. Hún hefur gefið okkur tvær fyrstu verðlauna hryssur sem eru hér í ræktun, Úlfhildi (8,20) og Einstök (8,01), sem eru báðar undan Kjerúlfi,” bætir Sara við en Úlfhildur er hæst dæmda litförótta hryssan í heiminum en hún hlaut 8,43 fyrir hæfileika og Einstök er eina móvindótta litförótta hrossið sem hefur komist í fyrstu verðlaun.

Þau Sara og Erlendur fengu þrjú folöld í sumar undan Glampa frá Kjarrhólum og eitt undan Ganda frá Rauðalæk. Úlfhildur eignaðist brúnlitföróttan hest undan Draupni frá Stuðlum og Teikning átti sigurfolald folaldasýningar Austur-Landeyja, undan Frosta frá Fornastekk.

“Í sumar héldum við undir þá Sólfaxa frá Herríðarhóli, Adrían frá Garðshorni á Þelamörk, Sólon frá Þúfum, Dagfara frá Álfhólum, Seið frá Hólum, Hilmi frá Árbæjarhjáleigu, Nemó frá Efra-Hvoli og Vökul frá Efri-Brú,” segir Sara.
Innt eftir því hvað sé spennandi á járnum hjá þeim segjast þau vera með spennandi fjögurra vetra trippi undan Adrían, Sigri frá Stóra-Vatnsskarði og Kiljani frá Steinnesi. “Við erum líka með mjög efnilega fimmgangs hryssu undan Mónitor frá Miðfelli. Á fimmta vetur erum við með gæðingshryssu undan Dagfara frá Álfhólum, Yrju frá Skíðbakka III, sem fór í góðan dóm í sumar og tvö afkvæmi Apollo frá Haukholtum sem lofa góðu.”

Erlend þekkja margir á suðurlandsundirlendinu en hann hefur getið sér gott orð sem járningamaður. Erlendur er einnig gæðingadómari og hefur dæmt undanfarin átta Landsmót. “Fyrir mér er gæðingakeppnin algjör sigurvegari Landsmótsins í heildina litið. Sérstaklega miðað við íþróttakeppnina sem ekki var mikið aðdráttarafl fyrir áhorfendur og kynbótasýningarnar þar sem u.þ.b. 80% hrossanna lækkaði,” segir Erlendur inntur eftir því hvernig þeim fannst Landsmótið í sumar.

Erlendur og Sara eru sammála því að ræktunarstarfið í heild sinni sé á réttri leið. Margt jákvætt hafi gerst undanfarin 20-30 ára þegar kemur að útliti, hæfileikum og geðslagi.
“Hrossin eru að öllu jöfnu fallegri, með betri gangskil og hreyfigetu fyrir utan að vera mikið meðfærilegri og auðveldari í geðslagi. Auðvitað er hluti af því betri nálgun á tamningar og þjálfun hestanna en ræktunin hefur þróast á jákvæðan hátt að okkar mati,” segja þau.

Nú nálgast áramótin en ábúendur á Skíðbakkabæjunum halda að venju stóra áramótabrennu á gamlársdag. “Það er fjölmenni við brennuna og oftast er svo partý eftir miðnætti á einhverjum bænum,” segja þau að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar