Hrossin komin í leitirnar
Hrossin fimm sem saknað hefur verið á fjöllum síðan þann 13.júlí eru fundin. Þetta kemur fram á facebooksíðu eiganda þeirra Guðrúnar Jónsdóttur á Sandbakka í Flóa.
Samkvæmt færslunni sáust hrossin úr flugvél og voru þau staðsett við Hrossadalsbrún sem er fyrir ofan Hrossadal innan af Laugarvatnsfjalli fyrir ofan Laugarvatn. Samkvæmt heimildum er sagt að þar hafi áður verið grösugt og stóðhross og jafnvel naut hafi verið höfð þar til beitar. Það er því óhætt að segja að Hrossadalsbrún beri því að nýju nafn með rentu.
Eiðfaxi sagði frá því fyrir tæpum mánuði síðan þegar þau töpuðust úr hestaferð frá Gatfelli á Uxahryggjaleið en gleðilegt er að þau hafi nú fundist. Eftir á að ná hrossunum niður af hálendinu, þegar þetta er ritað.