Hrossum smalað á þyrlu
Um helgina var verið að smala hrossum í afrétti í Eyjafjarðarsveit. Nokkur hross tóku sig úr hópnum og fóru upp Uppsalafjall. Ekki tókst að koma þeim niður á tveimur né fjórum jafnfljótum og var því brugðið á það ráð að fá þyrlu til að fara með fólk upp á fjallið til að ná hrossunum niður. Fólkið fór þó aldrei úr þyrlunni en flugmaðurinn náði að reka hrossinn niður.
Ingólfur Jóhannsson bóndi í Uppsölum var á staðnum en aldrei á hans 40 ára smalaferli hefur þyrla verið áður notuð við smölun á hrossum. “Þetta er gamall afréttur sem við hrossaræktendur í Eyjafirði höfum notað í mörg ár og er okkur afar mikilvægur. Hann er í eigu nokkurra sveitabæja í firðinum og síðan er fólk frá Akureyri sem sækist í að fá að hafa trippin sín hér á sumrin. Þarna hef ég rölt í 40 ár. Í þessu tilfelli fór gangnafólkið fyrir hrossahóp sem ákveður að fara upp fjallið. Það var lítið við því að gera,” segir Ingólfur en um kvöldið áður hafði snjóað mikið til fjalla og var um 40 cm. jafnfallinn snjór á fjallinu.
“Þetta var erfitt yfirferðar og var eytt drjúgum tíma í að reyna koma þeim til baka. Fólk varð örmagna við að reyna koma þeim niður sem ekki tókst. Þá var ákveðið að setja plan í gang og voru björgunarsveitirnar fengnar á staðinn með hóp af fólki. Þau nálgast þau en þá halda hrossin áfram upp á hálendið eða upp á Uppsalafjallið. Skepnur eru vanalega ekkert að fara fjallið að ganni sínu. Þá varð að gera eitthvað. Okkar viðbragð var að fara með fólk upp á fjalið til að reka hrossin niður. Við vorum alveg pínu smeyk enda ekki auðvelt verk. Fengin var þyrla og okkar besta göngufólk til að fara með þyrlunni. Það sem kom okkur síðan mest á óvart var að þyrluflugmaðurinn endaði á að smala hrossunum niður,” segir hann en ekki var vænlegt að fara sömu leið til baka enda leiðin snarbrött og hengiflug. “Það þurfti að tryggja öryggi fyrir mönnum og hrossum og fundin var ný slóð sem búið var að skoða áður. Flugmaðurinn náði að reka þau fram og inná slóð þar sem reiðmenn tóku síðan við hrossunum. Sem betur fer gekk þetta 100% upp, sem er ekkert sjálfgefið í rauninni. Reiknuðum alls ekki með þessu og heilmikil bónus að þetta skyldi takast. Flugmaðurinn var snjall með hestafólk með sér í þyrlunni honum til leiðsagnar.”
Eins og ber að skilja eru allir fengnir að hrossin séu komin til síns heima enda fjallstoppur enginn staður fyrir hross.
“Dagana á eftir var hér sudda rigning og að ætla eiga við hross í sjálfheldu upp á fjalli væri mjög erfitt verkefni. Við erum glöð með hvernig þetta rættist og þakklát fyrir aðstoðina sem við fengum,” segir Ingólfur að lokum og bætir við það að smala hrossum er mikil vinna og því ómetanlegt að fá fólk hvaðan af úr heiminum til aðstoðar. “Það er ekkert sjálfgefið að einhver smali hrossunum þínum fyrir þig. Þetta er mikil vinna og er lagt til talsvert af fólki. Það þarf að smala þeim og vera í fyrirstöðu á mörgum stöðum. Það væri erfitt fyrir okkur að sinna þessu ef við hefðum ekki þessa miklu aðstoð, í raun frá hestaheiminum í öllum Eyjafirðinum. Með okkur í ár voru t.d. 10 þýskar stelpur og 2 þýskir strákar sem komu í þessa göngu bara til að njóta íslenska hestsins. Það skiptir okkur gömlu bændurnar miklu máli og er alls ekki sjálfgefið.”