Hryssurnar lækka en stóðhestarnir standa við sitt

Sörli frá Lyngási og Agnar Þór Magnússon. Ljósmynd: Henk & Patty
Heimsmeistaramót íslenska hestsins hófst í dag á forsýningu kynbótahrossa bæði hryssna og stóðhesta, yfirlit fer svo fram á fimmtudag og föstudag þar sem knöpum gefst tækifæri til að sýna hross sín að nýju. Hrossin eru sýnd í þremur aldursflokkum fimm, sex og sjö vetra og eldri.
Hitinn hefur sitt að segja fyrir íslensku hrossinn
Íslensku hryssunar lækka allar aðaleinkunn sína frá hæsta dómi heima á Íslandi í vor. Aðstæður fyrir hrossinn eru frábrugðnar því sem þekkist á kynbótasýningum heima á Íslandi þar sem mikil nálægð er við áhorfendur á Heimsmeistaramóti sem gæti haft sitt að segja. Ekki má gleyma því að yfirlit er eftir þar sem hrossin geta bætt einkunn sína. Þá hafa íslensku knaparnir haft á orði að hinn mikli hiti sem er í Sviss reynist íslensku hrossunum erfiður og það taki tíma fyrir þau að venjast honum.
Í yngsta flokki hryssna er fulltrúi Íslands Óskastund frá Steinnesi sýnd af Árna Birni Pálssyni, hún stendur efst í sínum flokki með 8,41 í aðaleinkunn. Í flokki sex vetra gamalla hryssna er það Ólga frá Lækjamóti sýnd af Benjamíni Sandi Ingólfssyni sem er fulltrúi Íslands, hún er önnur í sínum flokki á eftir hinni þýskfæddu Flóku vom Sonnenhof. Í elsta flokki hryssna er Eind frá Grafarkoti fulltrúi Íslands sýnd af Bjarna Jónassyni hún er þriðja í sínum flokki með 8,41 í aðaleinkunn. í þeim flokki vöktu mikla athygi hryssurnar Pála og Náttdís vom Kronshof sem eru fulltrúar Þýskalands en báðar hlutu þær yfir níu fyrir hæfileika.

Óskastund og Árni Björn. Ljósmynd: Henk & Patty
Stóðhestarnir stóðu vel við sitt
Í yngsta flokki stóðhesta munar litlu á tveimur efstu hestum. Hinn íslenski Sörli frá Lyngási er annar sem stendur með einkunnina 8,38 en efstur er fulltrúi Svíþjóðar, Stáli från Skáneyland með 8,40. Sörli er sýndur af Agnari Þór Magnússyni og hann er að hækka einkunn sína frá því í vor. Í flokki sex vetra stóðhesta stendur Drangur frá Ketilsstöðum vel að vígi með forskot á aðra hesta með 8,53 í aðaleinkunn. Í elsta flokki stóðhesta er það Hljómur frá Auðsholtshjáleigu sem er fulltrúi Íslands og stendur hann efstur í flokknum með aðaleinkunn upp á 8,77 sem er það sama og hann hlaut á vorsýningu á Íslandi.
Það verður spennandi að sjá hvernig lokastaðan verður í kynbótadómum en líkt og áður segir fer yfirlit fram á fimmtudag og föstudag.

Drangur og Viðar Ingólfsson. Ljósmynd: Henk & Patty

Árni Björn og Hljómur. Ljósmynd: Henk & Patty