„Hún er alveg últra gæðingur“

  • 3. maí 2024
  • Fréttir

Ólafur Brynjar Ásgeirsson með Glóinn frá Halakoti en hann stefnir með hann í úrtöku í B flokki fyrir Landsmótið í sumar. Mynd: MB

Viðtal við Ólaf Brynjar Ásgeirsson, bústjóra í Sumarliðabæ.

Það er farið að vora, kynbótasýningar fara hefjast og úti mótin eru nú þegar byrjuð. Blaðamaður renndi við í Sumarliðabæ og tók stöðuna hjá þeim Ólafi Brynjari Ásgeirssyni, Þorgeiri Ólafssyni og Birgittu Bjarnadóttur. Þorgeir og Birgitta voru reyndar vant við látin á fæðingardeildinni en þau voru nýbúin að eignast son og óskum við þeim innilega til hamingju með nýjasta fjölskyldumeðlimin.

Spennandi tímar framundan

Veturinn var góður hjá þeim í Sumarliðabæ en margt var um að vera. Sumarliðabær var með lið í Meistaradeildinni ásamt Þjóðólfshaga og var Þorgeir í liðinu. Þorgeir tók einnig þátt í Uppsveitadeildinni og endaði þar efstur í einstaklingskeppninni og lið Sumarliðabæjar vann liðakeppnina. Ólafur tók þátt í Suðurlandsdeildinni í vetur og náði ágætis árangri, vann m.a. töltið á Fengsæl frá Jórvík.

“Það eru spennandi tímar framundan. Kynbótasýningar að byrja og mótin að fara af stað. Það verður mjög gaman að sjá hvernig hestarnir koma undan vetri þegar allt fer að fara af stað. Við stefnum með eitthvað um 12 – 14 hross í kynbótadóm og eitthvað fer í keppni. Við Þorgeir erum með skráð á Íþróttamótið á Selfossi núna í byrjun maí. Þorgeir fer með skeiðhryssurnar og Auðlindi frá Þjórsárbakka og ég mæti með Fengsæl í tölt og fjórgang,” segir Ólafur en stefnan verður líka sett á úrtökumót fyrir Landsmót.

Blómleg ræktun

Sumarliðabær var eitt af tilnefndu búum til ræktunarverðlauna ársins hjá Bændasamtökum Íslands. Ræktunin er að stækka en í vetur voru tamin sex fjögurra vetra hross og eiga þau von á fjórtán folöldum í sumar.

“Við stefnum á að sýna kannski fjórar 4 vetra hryssur en þá á svo sem eftir að koma í ljós þegar nær dregur. Nóta frá Sumarliðabæ verður sýnd aftur í vor en hún hefur þróast mjög vel. Það er gaman að fylgjast með henni en hún er undan hryssu sem ég var með, Flautu frá Einhamri, og stóðhesti sem ég var líka með, Spuna frá Vesturkoti. Hún er alveg últra gæðingur þessi hryssa,” segir Ólafur en Nóta var önnur hæst dæmda fjögurra vetra hryssan í fyrra með 8,37 í aðaleinkunn.

“Við höfum verið að leggja mikinn metnað í ræktunina og það er gaman að fá að fylgjast með afkvæmum undan hryssum sem maður hefur sjálfur verið með. Það er gaman að sjá hverju þær skila.”

Sterkt Landsmót framundan

Eins og margur hestamaðurinn hlakkar Ólafur til Landsmótsins en hann telur mótið eigi eftir að vera mjög sterkt og mikil breidd í kynbótahrossunum.

“Það mun allt þurfa að ganga upp til þess að vera í slagnum þar. Ég hlakka líka til að sjá Daníel Jónsson, vin minn, á kynbótabrautinni í sumar. Hann er í miklu átaki segir hann mér. Hann sendi mér þegar ég vann töltið að ég hefði verið með come-back svo ég verð illa svikin ef Daníel sýnir ekki yfir 9,0 fyrir hæfileika í ár – ef hann ætlar að koma með come-back líka,” bætir Ólafur við að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar