Hvað kostar fyrstu verðlauna hross?

  • 3. ágúst 2020
  • Fréttir

Mjallhvít frá Þverholtum var fulltrúi Íslands í flokki fimm vetra hryssa á HM2019 knapi er Þórður Þorgeirsson. Mynd: Sofia Lahtinen Carlsson/Toltaren

Í síðasta tölublaði Eiðfaxa, Eiðfaxa Vor, birtist þessi grein eftir Valdimar Kristinsson sem fjallar um það hvað það getur kostað að eignast fyrstu verðlauna hross.

Hvað kostar fyrstu verðlauna hross?

Mjög áhugaverð spurning og svarið ekki síður. Vissulega getur svarið verið margbreytilegt því þar spilar vissulega inn í gæði hrossanna og þá ekki síður hið óræða og ófyrirséða markaðslögmál sem breytir verðmiðanum stöðugt, togar og teygir til allra átta. En til að einfalda hlutina má kannski endurorða spurninguna og velta fyrir sér hvað kostar að koma sér upp 1. verðlaunhryssu og þá eins að taka stóðhesta einnig með í reikninginn.

Til að byrja með má taka eitt staðreyndadæmi sem er ekki alveg nýtt af nálinni en upphæðir uppfærðar þar sem við á. Um er ræða hryssu sem hlaut rétt ríflega 8,20 í einkunn sem náðist í fjórðu tilraun. Inn í dæmið er tekinn folatollur, kostnaður vegna móður sem er 1. verðlauna hryssa, örmerking, uppeldi, tamning og þjálfun, sýningarþjálfun, flutningskostnaður vegna sýninga og þjálfunar.

En svona lítur dæmið út:

Folatollur                                                                             350.000

Fóður og hirðing móður, eitt og hálft ár                        150.000

Örmerking                                                                            3.500

Uppeldi fimm ár                                                                  400.000

Tamning og þjálfun 10 mánuðir                                       500.000

Sýningarþjálfun í tvö skipti samtals 3 mánuðir             240.000

Sýningarþjálfun í eina viku og sýning                              100.000

Akstur eiganda vegna þjálfunar og sýninga 1000 km.   116.000

Sýningargjöld (á núvirði fyrir hækkanir árið 2020) 3 sýningar      78.000

 

Samtals                                                                                1.937.500

 

Vissulega má toga og teygja þær upphæðir sem hér eru settar inn í dæmið. Þá er kannski hér eitt og annað sem þarfnast skýringa eins og til dæmis aksturinn. Þarna er tekið inn í flutningur á hryssunni í þjálfun í þrígang og ferðir til að horfa á sýningar. Tvær ferðir á dómsdegi í þrígang svo dæmið sé tekið. Samantekið má segja að 1000 kílómetrar sé mjög varlega reiknað og sömuleiðis má segja að 100 krónur á ekinn kílómetra sé of lág upphæð.

Folatollurinn er að sjálfsögðu í hærri kantinum en eigi að síður fyrirliggjandi staðreynd.

Sjálfsagt er mögulegt að gera þetta á ódýrari hátt og spilar það vissulega inn í hversu fljót hrossin eru til. Hægt væri að setja upp dæmi fyrir fjögurra vetra hryssu sem er tamin í fimm mánuði og fer strax í fyrstu verðlaun, segjum einkunn upp á 8,10 til 8,30. En slík dæmi eru mjög lítill hluti af heildarfjölda taminna fjögra vetra hryssna.

Það er vissulega hagstæðara að rækta hross sem eru fljót að skila afköstum og gæðum eins og flestir hrossaræktendur þekkja. Svo er annar parturinn í þessu hvað eigandi/ræktandi getur gert sjálfur í til dæmis járningum, tamningum og svo sýningin sjálf. En að sjálfsögðu er ekki annað hægt en að reikna kostnað á hrossið þótt maður geri þetta meira og minna sjálfur.

Heimatilbúið dæmi um kostnað við 1. verðlauna stóðhest gæti litið út á þessa leið og þá gert ráð fyrir hér sé á ferðinni efnisfoli sem fer í 1. verðlaun strax fjögra vetra og í fyrstu atrennu auk þess að kaupa þurfi alla liði s.s. uppeldi, tamningu, járningar o.fl.:

 

Folatollur                                                                          180.000

Fóður og hirðing móður, eitt og hálft ár                     150.000

Örmerking                                                                         3.500

Tamning og þjálfun 5 mán. + kostn. v/sýningar       500.000

Járningar og skeifur                                                          40.000

Uppeldi þrjú ár                                                                  450.000

Sýningagjöld (á núvirði fyrir hækkanir) 1 sýning        26.000

Kostnaður v/DNA                                                         12.000

Samtals                                                                              1.323.500

 

Við getum gefið okkur að til frádráttar gætu komið 6 folatollar þ.e. að hægt hafi verið að selja aðgang fyrir 6 hryssur til hestsins og þar komi inn 600.000 krónur.

Við bætist svo hjá sama hesti á næsta ári eftirfarandi:

Vetrarþjálfun fyrir sýningu að vori 5 mán. + kostn., v/sýningar      500.000

Sýningagjöld (á núvirði fyrir hækkanir) 1 sýning                             26.000

Hagaganga á haustdögum                                                                   30.000

 

Ætla má að ekki sé hægt að eignast fyrstu verðlauna hryssu eða stóðhest undir einni milljón en vel mögulegt fyrir tvær milljónir ef með fylgir eins og eitt „dash“ af heppni.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar