Hver verður handhafi tölthornsins í ár?

Jóhanna Margrét Snorradóttir og Bárður frá Melabergi eru ríkjandi heimsmeistarar í tölti. Ljósmynd: Henk Peterse
Í dag eru tvær vikur í það að heimsmeistaramót íslenska hestsins hefjist í Birmerstorf í Sviss og landslið þátttökuþjóða hafa verið tilkynnt. Hér á Eiðfaxa ætlum við að spá í spilin fyrir hverja grein og nefna nokkur af líklegustu pörunum til að blanda sér í toppbaráttuna.
Að hampa hinu goðsagnakennda tölthorni og verða með því heimsmeistari í tölti er draumur margra knapa. Þegar rennt er yfir keppendalistann í þessari grein í ár má fyrirfram ætla að einvígið um tölthornið verði á milli þeirra Árna Björns Pálssonar og Jóhanns Rúnars Skúlasonar. Það er þó ekki á vísan að róa því sagan hefur kennt okkur að allt getur gerst og sigurinn er ekki í höfn fyrr en síðasta einkunn í A-úrslitum hefur verið staðfest.
Hér í þessari grein ætlum við að kynna okkur betur þá knapa og hesta sem líklegir eru til að gera atlögu að sigri í tölti byggt á stöðulista ársins og árangri þeirra á meistaramótum í sínu heimalandi í ár.
Anna-Lisa Zingsheim og Glaður frá Kálfhóli 2 eru keppendur í Austurríska landsliðinu, þau hafa verið að ná eftirtektarverðum árangri og hljóta háar einkunnir bæði í forkeppni og A-úrslitum. Glaður er 12.vetra gamall geldingur úr ræktun Gests Þórðarsonar á Kálfhóli á skeiðum undan Arði frá Brautarholti og Þulu frá Kálfholi 2. Glaður er alhliðahestur sýndur í kynbótadómi með m.a. 8,5 fyrir skeið. Anna-Lisa og Glaður hafa tvisvar í ár riðið yfir 8,00 í töltkeppni og á Austurríska meistaramótinu sigruðu þau A-úrslit með einkunnina 8,89.
Árni Björn Pálsson og Kastanía frá Kvistum keppa fyrir hönd Íslands. Þau eru afar sigursæl og urðu m.a. Íslandsmeistarar árið 2024 með einkunnina 9,11 í úrslitum, sjálfur hefur Árni Björn alls átta sinnum orðið Íslandsmeistari í þessari grein oftast allra í sögunni. Kastanía er 10.vetra gömul undan Ómi frá Kvistum og Kötlu frá Skíðbakka III ræktandi hennar og eigandi er Kvistir ehf. Í kynbótadómi hlaut hún háa einkunn m.a. 8,92 fyrir hæfileika og þar af 9,5 fyrir tölt, hægt tölt og samstarfsvilja og 9,0 fyrir skeið. Í ár hafa þau mætt tvisvar til leiks í tölti og í bæði skiptin hlotið yfir 8,80 í forkeppni. Á Íslandsmótinu hrepptu þau annað sætið með 8,94 í einkunn.
Þá er ekki hægt að horfa framhjá ríkjandi heimsmeistara í tölti, Jóhönnu Margréti Snorradóttur, sem vann svo eftirminnilega á heimsmeistaramótinu árið 2023 á Bárði frá Melabergi. Nú mætir hún til leiks á Össu frá Miðhúsum, þrælreyndri og farsælli keppnishryssu sem Gústaf Ásgeir Hinriksson hefur undanfarinn ár gert garðinn frægan á. Assa er 11. vetra gömul ræktuð af þeim Páli Andrési Alfreðssyni og Guðrúnu G. Thoroddsen en í eigu Fluguhesta ehf. Hún er undan Ramma frá Búlandi og Gyðju frá Hólshúsum. Assa ásamt Gústafi hafa verið í A-úrslitum í tölti á flestum sterkustu mótum síðustu tvö keppnistímabil og hæst farið í 8,43 í forkeppni og 8,72 í úrslitum. Ef Jóhanna Margrét toppar á réttum tíma í ágúst þá gæti hún verið til alls líkleg, reynslunni ríkari frá síðasta móti.
Jóhann Rúnar Skúlason og Evert frá Slippen keppa fyrir hönd Danmerkur en Jóhann hefur hvorki meira né minna en sjö sinnum orðið heimsmeistari í tölti og veit því manna best hvað þarf til að vinna. Evert er ræktaður af knapa sínum og er undan Hnokka frá Fellskoti og Líf frá Slippen. Hann er nú 10.vetra gamall og hlaut í sínum hæsta kynbótadómi 8,60 í aðaleinkunn og þar af 10 fyrir tölt og 9,5 fyrir hægt tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið. Undanfarin ár hafa þeir Jóhann og Evert náð frábærum árangri í tölti og oft hlotið háar einkunnir, í ár hafa þeir hæst hlotið 8,70 í forkeppni á móti á Kronshof í júní. Á danska meistaramótinu hlutu þeir 8,27 í einkunn í forkeppni og 8,11 í úrslitum og hrepptu annað sætið á eftir Lauru Midtgård og Gimstein frá Íbishóli.
Laura Midtgård og Gimsteinn frá Íbishóli verða að fá að fylgja með í þessari upptalningu þá ekki síst byggt á því að þau stóðu efst í tölti á danska meistaramótinu og hver veit nema þau geti haldið áfram að koma á óvart. Gimsteinn er þrettán vetra gamall stóðhestur ræktaður af Högna Fróðasyni en í dag í eigu knapa síns og Henrik Hansen. Hann er sýndur í kynbótadómi með hæfileikaeinkunn upp á 8,31 og þar af 9,5 fyrir hægt tölt og vilja og 9,0 fyrir tölt, fegurð í reið og fet. Hann er undan Óskasteini frá Íbishóli og Ljósbrá frá Hólabaki. Laura og Gimsteinn hafa mjög verið að sækja í sig veðrið í ár og hlutu m.a. 8,30 í forkeppni á móti í danmörku í vor og urðu svo danskir meistarar í tölti með einkunnina 8,22.
Lisa Schrüger og Kjalar frá Strandarhjáleigu eru reynslumikið par sem keppa fyrir hönd Þýskalands. Kjalar er nú nítján vetra gamall og voru þau á meðal þeirra sem riðu til A-úrslita í þessari grein á síðasta HM árið 2023 þar sem þau enduðu í þriðja sæti og tóku því brons.
Kjalar er úr ræktun Þormars Andréssonar og er undan Borgari frá Strandarhjáleigu og Lukku frá Hvolsvelli. Á Þýska meistaramótinu í sumar lönduðu þau sigri með 8,44 í úrslitum en í forkeppni hlutu þau 8,27.
Nils Christan Larsen og Baltasar frá Sunnuholti eru norskir meistarar í tölti en í úrslitum þar hlutu þeir 8,22 í einkunn og í forkeppni 8,07. Baltasar er 9.vetra gamall undan Konserti frá Hofi og Birtu frá Sauðadalsá. Hann hlaut í kynbótadómi 1.verðlaun og þar af 9,0 fyrir samstarfsvilja og fegurð í reið og 8,5 fyrir bæði tölt og hægt tölt. Baltasar er ennþá tiltölulega ungur af keppnishesti að vera og eru þeir Nils einungis á sínu öðru keppnisári saman. Nils er einn af reyndustu keppnisknöpunum í Íslandshestaheiminum og ætlar sér pottþétt að blanda sér í toppbaráttuna á HM.
Hvort það verði þau pör sem nefnd eru hér að ofan sem skipta með sér efstu sætunum í tölti, eða hvort einhverjir aðrir komi á óvart, mun koma í ljós þegar forkeppni og úrslit í tölti fara fram í Sviss og það er alveg á hreinu að hart verður barist um tölthornið fræga.