Heimsmeistaramót Hverjir brillera í gæðingaskeiði á HM 2025?

  • 23. júlí 2025
  • Fréttir

Elvar Þormarsson og Fjalladís eru ríkjandi heimsmeistarar í gæðingaskeiði. Hún mætir nú til leiks ásamt Sigurði Óla Kristinssyni. Ljósmynd: Bert Collet

Við kynnum þau pör sem líklegust eru til afreka í einni mest krefjandi keppnisgrein íslenska hestsins

Oft hefur það verið haft á orði að gæðingaskeið sé sú keppnisgrein sem er hvað mest krefjandi af þeim sem keppt er í á íslenskum hestum. Þar má lítið sem ekkert útaf bregða svo vel til takist og stutt er á milli þess að ná frábærum árangri eða að hreinlega allt klikki. Byggir þetta á því að framkvæmd sé frábær niðurtaka af stökki inn í skeið á afmörkuðu svæði, svokallaðri rennu. Þá þarf hesturinn að búa yfir fallegu skeiðsniði samfara miklum flýti á skeiði til þess að hljóta hæstu einkunnir fyrir þá þætti og að lokum þarf að framkvæma fallega niðurhægingu í góðu jafnvægi.

Það er því erfitt að spá fyrir um það hvaða pör berjist um sigur í þessari grein á heimsmeistaramótinu í ár, það ætlum við hér á Eiðfaxa þó að reyna.

Guðmundur Einarsson hefur um árabil verið einn af allra færustu skeiðknöpum heimsins og varð til að mynda heimsmeistari í þessari grein árið 2009 á Sprota frá Sjávarborg, hann keppir fyrir hönd Svíþjóðar. Hestur hans er Draumur fra Tängmark 11. vetra gamall stóðhestur undan Döggva frá Ytra-Bægisá og Viðju från Tavelsjö. Ræktandi hans er Tängmark Irene en eigandi er Guðmundur Einarsson. Þeir félagar eru á sínu fimmta keppnistímabili og hafa hæst hlotið einkunnina 8,50 í þessari grein og eru ríkjandi sænskir meistarar í ár með einkunnina 7,71.

Hinrik Bragason er gífurlega reynslumikill knapi og ákaflega sigursæll. Hann mætir nú til leiks á HM með hryssu úr eigin ræktun, Trú frá Árbakka. Hún er undan Örvari frá Gljúfri og Toppu frá Ármóti eigandi hennar er Anja-Egger Meier. Trú er frekar ung af keppnishrossi í skeiði að vera einungis 8. vetra gömul. Það hefur þó ekki þvælst fyrir henni því strax sex vetra gömul hlaut hún 8,58 í þessari grein og í fyrra urðu þau Hinrik landsmótssiguvegarar í gæðingaskeiði með 8,75 í einkunn. Á Íslandsmótinu í ár hrepptu þau annað sætið með einkunnina 8,67 og þar af 9,00 í fyrri spretti.

Ladina Sigurbjörnsson-Foppa og Styrla fra Skarstad eru á meðal allra reyndustu para sem mæta til leiks á HM og hafa keppt saman í þessari grein í átta ár, þær keppa fyrir Sviss. Styrla er 17. vetra gömul undan Þjarki frá Kjarri og Siríus frá Kílhrauni ræktuð af Mariu Kolnes en í eigu Sigurðar Sigurbjörnssonar og Ladinu. Þær hafa reglulega hlotið yfir 8,00 í einkunn og virðast vera í bætingu því hæsta einkunn þeirra frá upphafi kom í ár á móti í Þýskalandi þar sem þær hlutu 8,79. Ladina er Svissneskur meistar í ár með 8,00 í einkunn.

Laura Enderes og Fannar Von Der Elschenau keppa fyrir hönd Þýskalands. Þær eru ríkjandi þýskir meistarar í greininni með himinháa einkunn upp á 9,08 og hafa verið á mikilli siglingu í ár þar sem þær hlutu 9,00 í einkunn á móti á Kronshof í ár. Fannar er ræktaður af Reginu og Peter Hillesheim en eigandi er Laura sjálf. Hann er undan Hrit vom Schlossberg og Flugu frá Hvolsvelli og er fimmtán vetra gamall.

Lara Balz er líkt og Ladina í landsliði heimamanna í Sviss og keppir á hinni 19. vetra gömlu Trú fra Sundäng. Reynslumikið par sem hefur keppt saman frá árinu 2012 og vaxið mikið að undanförnu og síðastliðin tvö ár farið nokkrum sinnum vel yfir 8,00 í einkunn í gæðingaskeiði. Trú er undan Metingi frá Vestri-Leirárgörðum og Heklu från Lappdal. Ræktandi er Carin Lipe en eigandi er Lara Balz.

Sigurður Óli Kristinsson og Fjalladís frá Fornusöndum standa efst á stöðulista FEIF og skyldi engan undra að þau þykji sigurstranglegust fyrir mótið. Fjalladís er 11.vetra gömul undan Spuna frá Vesturkoti og Svörtu-Nótt frá Fornusöndum ræktandi hennar er Tryggvi Einar Geirsson en eigandi er Von Blinkenberg. Elvar Þormarsson varð eftirminnilega heimsmeistari í gæðingaskeiði á Fjalladís á síðasta heimsmeistaramóti og síðan þá hafa hún og Sigurður Óli vaxið saman og hlutu þau meðal annars hæstu einkunn sem gefin hefur verið í greininni á WR móti í ár, 9,21. Sigurður er danskur meistari á Fjalladís með einkunnina 8,63 og keppir fyrir hönd Dana.

Þetta eru þau pör sem líklegust telja til afreka í gæðingaskeiði en eins og segir í upphafi greinar má ekkert útaf bregða hjá þeim til að aðrir knapar blandi sér í baráttuna um sigur.


Nýjasta tölublað

Tengdar greinar