Hverjir voru hápunktar ársins?

  • 29. desember 2024
  • Fréttir

Flestir hápunktar hestamanna tengjast Landsmótinu í Reykjavík

Flestir tengja hápunkta við Landsmótið í sumar

Árið sem nú er að renna sitt skeið var hestamönnum gott þar sem margir glæsilegir viðburðir voru haldnir bæði innan- og utanhúss. Stærsti viðburður ársins var þó án vafa Landsmótið í Reykjavík þar sem veðrið lék við mótsgesti og glæstir gæðingar tóku þátt í hinum ýmsu keppnisgreinum og kynbótasýningum.

Eiðfaxi hafði samband við nokkra hestamenn og spurði þá hvað væri í þeirra hugum hápunktar ársins.

Hér fyrir neðan má sjá svör þeirra.

Jón Elvar Hjörleifsson 

„Hápunktur ársins er tvímælalaust þegar meistari Jón Árnason á Skipaskaga mætti á Skaganum frá Skipaskaga aftur á LM eftir áratuga fjarveru og negldi þetta. Persónulega að þá stóð upp úr þegar Miðill frá Hrafnagili fór í 8,35 í aðaleinkunn sýndur af Daníel Jónssyni. Einstakur hestur, viljugur og geðgóður.“

Hekla Katharina Kristinsdóttir

Ég ætla að skipta þessu í tvo parta. Sem U-21 árs landsliðsþjálfari þá var algjörlega einstakt að sjá íslenska landsliðsknapa verma þrjú efstu sætin í fimmgangi ungmenna á Norðurlandamóti. Sem almennur hestamaður er það að sjálfsögðu stórglæsilegt Landsmót þar sem voru frábærir gæðinga í öllum flokkum keppninnar sem og á kynbótabrautinni. Fyrir mér var samt 4. vetra flokkur hryssna algjörlega framúrskarandi í gæðum og þar sé ég fyrir mér margar glæsilegar ættmæður framtíðarinnar.

Unnur Rún Sigurpálsdóttir 

„Hápunktur ársins fyrir mér var klárlega að fylgjast með krökkunum í barnaflokki á Landsmótinu í sumar og fá að fylgja Skagfirðingsbörnunum eftir. Ótrúlegar sýningar hjá þessum frábæru ungu knöpum! Mörg þeirra að keppa á sínu fyrsta Landsmóti og mikið búið að leggja á sig við undirbúning. Einnig eru vorsýningar alltaf skemmtilegur partur af árinu, sjá ný hross og velta fyrir sér kynbótastarfinu.“

Hjörvar Ágústsson 

„Að mínu mati var það barnaflokkurinn á glæsilegu Landsmóti í sumar. Þá sérstaklega stökksýningar Viktoríu Huldar og Þins frá Enni. Krafturinn, áræðnin, samheldnin og gleðin. Fæ ennþá gæsahúð við tilhugsunina.“

Einar Ásgeirsson

„Fyrir mitt leyti var það að sjá stelpurnar mínar keppa á Landsmóti í fyrsta skipti. En einnig var vorsýningin á Arney frá Ytra-Álandi fyrir norðan mjög eftirminnileg.“

Fríða Hansen 

„Landsmótið var alveg frábært og heldur betur vert að minnast á það, enda veðrið æðislegt og skipulagið algjörlega til fyrirmyndar. Mest gaman þótti mér að fylgjast með úrslitum í barnaflokki og þá sérstaklega með parinu Viktoríu Huld og Þin frá Enni. Hvílíkt traust sem ríkti þeirra í milli, trú á verkefninu og gleði sem allir hestamenn eiga að taka sér til fyrirmyndar.“

Guðbjörn Tryggvason 

„Hestakosturinn á Landsmóti í sumar var magnaður, ótrúleg gæði í öllum flokkum keppnisgreina og kynbótasýninga. Fyrir mér stóðu þar uppúr afkvæmi Kveiks frá Stangarlæk einstaklega flink, samstarfsfús og af þeim skinu reiðhestskostir. Sem kynbótadómari var ógleymanlegt að upplifa sýninguna á Arneyju frá Ytra-Álandi á Hólum.“

Einar Ben Þorsteinsson 

„Mér dettur helst í hug tölt og A-flokkur á Landsmótinu í Reykjavík. Þéttsetnar brekkur, algjörir gæðingar og gott veður á sömu stundu og það í Reykjavík. Ekki víst að þessar aðstæður skapist aftur á þessari öld í höfuðborginni.“

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar