Hylur frá Flagbjarnarholti – Hæsti sköpulagsdómur frá upphafi

  • 18. júní 2020
  • Fréttir

Hylur frá Flagbjarnarholti var sýndur í dag á Sörlastöðum í Hafnarfirði og hlaut hann hæsta sköpulagsdóm sem nokkur hestur hefur hlotið frá upphafi dóma. Hann hlaut fyrir sköpulag hvorki meira né minna en 9,09, fyrir hæfileika hlaut hann 7,98 skeiðlaus og í aðaleinkunn 8,37. Fyrir hæfileika án skeiðs hlaut hann 8,53.

Hylur er undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Landsmótssigurvegararnum í tölti frá því árið 2002, Rás frá Ragnheiðarstöðum. Hann er fæddur árið 2013 og er því sjö vetra gamall. Sýnandi Hyls er Guðmar Þór Pétursson en blaðamaður Eiðfaxa sló á þráðinn til Guðmars og spurði út í það hvernig hann lýsir þessum glæsihesti.

,,Þetta er óvenjulegur hestur að mörgu leyti og á fáa sína líka hvað sköpulagið varðar, ákaflega tignarlegur, tinnusvartur og glæsilegur. Þá er þetta einnig snilldarhestur á gangi sem á ennþá mikið inni að mínu mati. En auk þess að vera 153 cm á hæstan punkt á herðum að þá var hann aðeins óheppinn með meiðsli. Hann hefur því fengið að byggja upp vöðva í rólegheitum og var tilbúinn núna. Þetta er skemmtilegur karakter ákaflega mjúkgengur á tölti og þá eru gangskilinn í honum frábær eins og sést á lýsingum á reiðhestkostum hans þar sem yfirleitt er tekið fram hversu takthreinn hann er og allar gangtegundir eru jafnar og góðar. Þá held ég einnig að ef vel tekst til á yfirliti á morgun að þá geti hann hækkað.“

Hylur ásamt öllum þeim hrossum sem mæta á yfirlit á morgun má fylgjast með í beinni útsendingu á Eiðfaxa.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar