Íslandsmeistara ræktun

Fornusandar undir Eyjafjöllum er tómstundabú en jörðin er 240 ha. að stærð. Þar stunda hrossarækt bræðurnir Finnbogi og Tryggvi Geirssynir og Margrét Erna Þorgeirsdóttir, ásamt fjölskyldum sínum.
Eiðfaxi heyrði í Finnboga og fékk að kynnast örlítið ræktuninni. Ábúendur á jörðinni eru þau Birta Guðmundsdóttir og Tor Holmgren frá Skálakoti en þau sjá um gjafir og eftirlit á búinu.
Hin eiginlega ræktun á Fornusöndum hófst þegar þeir keyptu jörðina 1994. Ræktunin byggist nær eingöngu á fyrstu verðlauna hryssum og stóðhestum. “Við erum að fá um sex til átta folöld á ári. Ræktunarhryssurnar eru þær Drottning, Villimey, Rönd, Svarta-Nótt, Gerpla og Katla, allar frá Fornusöndum, og þær Árdís frá Litlalandi og Svarta Perla frá Ytri-Skógum,” segir Finnbogi en hryssurnar fóru undir þá Glað frá Hemlu, Ský frá Skálakoti, Seðil frá Árbæ og Sólon frá Skáney í sumar.
“Við höfum mikið notað Ský frá Skálakoti og erum með nokkur álitleg hross undan honum á járnum. Eins og er erum við með sjö hross í þjálfun og tökum inn fleiri í janúar. Efnilegustu trippin okkar er undan Svörtu-Nótt og Ský og Drottningu og Ský,” segir Finnbogi en Svarta-Nótt var sjötta á Landsmóti 2006 í flokki fimm vetra hryssna.
“Landsmótið í ár var mjög gott í alla staði, góðir hestar og toppaði það að Fjalladís frá Fornusöndum varð Landsmótsmeistari í gæðingaskeiði en knapi á henni er Elvar Þormarsson,” segir Finnbogi inntur eftir hápunkti ársins. “Hápunktur ársins hjá okkur eru líka Íslandsmeistararnir okkar. Fjalladís og Elvar urðu Íslandsmeistarar í gæðingaskeiði í meistaraflokki annað árið í röð og Tign frá Fornusöndum var Íslandsmeistari í gæðingaskeiði unglinga en knapi á henni var Matthías Sigurðsson,” bætir hann við.
Í sumar bætust við tvær fyrstu verðlauna hryssur í hópinn á Fornusöndum en þær Þrá og Freyja voru báðar sýndar á vorsýningum af Elvari Þormarssyni. Þrá er sex vetra og hlaut í aðaleinkunn 8,22 og Freyja sem er fimm vetra hlaut í aðaleinkunn 8,06.

Séð heim að Fornusöndum, Eyjafjöllin í baksýn.