Íslandsmeistara ræktun

  • 8. janúar 2023
  • Fréttir
Viðtal við Finnboga Geirsson, ræktanda á Fornusöndum.

Fornusandar undir Eyjafjöllum er tómstundabú en jörðin er 240 ha. að stærð. Þar stunda hrossarækt bræðurnir Finnbogi og Tryggvi Geirssynir og Margrét Erna Þorgeirsdóttir, ásamt fjölskyldum sínum.

Eiðfaxi heyrði í Finnboga og fékk að kynnast örlítið ræktuninni. Ábúendur á jörðinni eru þau Birta Guðmundsdóttir og Tor Holmgren frá Skálakoti en þau sjá um gjafir og eftirlit á búinu.

Hin eiginlega ræktun á Fornusöndum hófst þegar þeir keyptu jörðina 1994. Ræktunin byggist nær eingöngu á fyrstu verðlauna hryssum og stóðhestum. “Við erum að fá um sex til átta folöld á ári. Ræktunarhryssurnar eru þær Drottning, Villimey, Rönd, Svarta-Nótt, Gerpla og Katla, allar frá Fornusöndum, og þær Árdís frá Litlalandi og Svarta Perla frá Ytri-Skógum,” segir Finnbogi en hryssurnar fóru undir þá Glað frá Hemlu, Ský frá Skálakoti, Seðil frá Árbæ og Sólon frá Skáney í sumar.
“Við höfum mikið notað Ský frá Skálakoti og erum með nokkur álitleg hross undan honum á járnum. Eins og er erum við með sjö hross í þjálfun og tökum inn fleiri í janúar. Efnilegustu trippin okkar er undan Svörtu-Nótt og Ský og Drottningu og Ský,” segir Finnbogi en Svarta-Nótt var sjötta á Landsmóti 2006 í flokki fimm vetra hryssna.

“Landsmótið í ár var mjög gott í alla staði, góðir hestar og toppaði það að Fjalladís frá Fornusöndum varð Landsmótsmeistari í gæðingaskeiði en knapi á henni er Elvar Þormarsson,” segir Finnbogi inntur eftir hápunkti ársins. “Hápunktur ársins hjá okkur eru líka Íslandsmeistararnir okkar. Fjalladís og Elvar urðu Íslandsmeistarar í gæðingaskeiði í meistaraflokki annað árið í röð og Tign frá Fornusöndum var Íslandsmeistari í gæðingaskeiði unglinga en knapi á henni var Matthías Sigurðsson,” bætir hann við.

Í sumar bætust við tvær fyrstu verðlauna hryssur í hópinn á Fornusöndum en þær Þrá og Freyja voru báðar sýndar á vorsýningum af Elvari Þormarssyni. Þrá er sex vetra og hlaut í aðaleinkunn 8,22 og Freyja sem er fimm vetra hlaut í aðaleinkunn 8,06.

Séð heim að Fornusöndum, Eyjafjöllin í baksýn.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar