Íslandsmót fullorðinna og ungmenna á Rangárbökkum

  • 11. janúar 2020
  • Fréttir
Hestamannafélagið Geysir heldur Íslandsmót fullorðinna og ungmenna í hestaíþróttum

LH hefur tilkynnt um það hvar Íslandsmót fullorðinna verður haldið en það er á Rangárbökkum við Hellu dagana 12. Til 16. ágúst.

Tvær umsóknir bárust um að halda Íslandsmótið en auk Geysis sóttu hestamannafélögin Sprettur, Fákur og Sörli um að halda mótið í sameiningu.

Í samtali við Eiðfaxa segir Ólafur Þórisson, formaður Geysis, ástæðuna fyrir þessari dagsetningu Íslandsmótsins vera tvíræða. Landsmóti hestamanna hefur verið seinkað um viku og er dagana 6. til 12.júlí. Þá hefur Norðurlandamótinu verið flýtt um viku og er núna dagana 25.júlí til 2.ágúst í Norrköping í Svíþjóð. Þannig hafi verið erfitt að finna Íslandsmótinu hentuga dagsetningu í júlí. Þá er erfitt að halda það í júní þar sem ekki sé gott að vera með það samhliða eða ofan í úrtökum og kynbótasýningum í aðdraganda Landsmótsins.

Þá segir Ólafur einnig. „Eins og alþjóð veit að þá fer Landsmót hestamanna fram að þessu sinni á Rangárbökkum við Hellu. Mótssvæðið allt ætti því að vera í góðu ásigkomulagi og keppnisvellir eins og best verður á kosið. Hestamannafélagið Geysir mun því leggja sig fram um að gera Íslandsmótið sem glæsilegast eins og okkur tókst síðast þegar við héldum mótið árið 2017.“

Þá hefur Keppnisnefnd LH hefur gefið út lágmörk inn á Íslandsmót og vakin er athygli á því að þau hafa verið hækkuð um 0,4 frá því sem verið hefur undanfarin ár í tölti T1, fjórgangi og fimmgangi og um 0,2 í gæðingaskeiði.

Það er parið, hesturinn og knapinn sem þurfa að ná eftirfarandi lágmörkum og mega einkunnir parsins mega vera allt að tveggja ára gamlar. Einkunnir sem nást í T1, T2, V1, F1, PP1, ásamt einkunum sem nást í T3, V2, F2, T4 duga til þátttöku á Íslandsmóti. Engin lágmörk eru í ungmennaflokki.

Lágmörk fyrir Íslandsmót 2020 eru sem hér segir:

Tölt T1 6,9

Fjórgangur V1 6,6

Fimmgangur F1 6,4

Tölt T2 6,2

Gæðingaskeið PP1 6,7

250 m skeið 26 sekúndur

150 m skeið 17 sekúndur

100 m skeið 9 sekúndur

 

Ljósmynd sem fylgir fréttinni er af Guðmundi Björgvinssyni og Glúm frá Þóroddsstöðum á Íslandsmóti 2017 þar sem þeir sigruðu keppni í 100 metra skeiði og settu á sama tíma Íslandsmet í greininni.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<