Íslendingar sópuðu að sér verðlaunum
Haustfundur og uppskeruhátíð hestamanna í Svíþjóð fór fram nú um helgina í Stokkhólmi.
Íslendingar búsettir i Svíþjóð voru áberandi þegar það kom að verðlauna afhendingum bæði fyrir frammistöðu sem ræktendur, knapar kynbótahrossa og auk þess í keppnisgreinum.
Daníel Ingi Smárason var útnefndur knapi ársins í Svíþjóð en stærsti titill hans á árinu var þegar hann varð Norðurlandameistari í 250 metra skeiði á Hrafni frá Hestasýn.
Guðmundur Einarsson hlaut titilinn íþróttaknapi ársins og var einnnig útnefndur reiðkennari ársins í Svíþjóð. Guðmundur og Dramur frá Tängmark hlutu þrjú gull á sænska meistaramótinu og þess til viðbótar þrjár medalíur á Norðurlandamóti.
Þá var Erlingur Erlingsson útnefndur kynbótaknapi ársins í Svíþjóð en þess til viðbótar var hann ásamt Antoniu Hardwick útnefndur ræktandi ársins fyrir ræktun þeirra að Segersgård.
Þá er vert að minnast á það að Ia Lindholm og Denni Bergmann Hauksson komust í fámennan hóp heiðursræktenda í Svíþjóð. Til þess að hljóta þann heiðurstitill þarf að hafa ræktað a.m.k 15 hross sem hljóta 1.verðlaun í kynbótadómi. Ræktun þeirra er ekki stór en skv worldfeng hafa þeim fæðst 48 hross og þar af 19 þeirra mætt til kynbótadóms og er meðaltals einkunn þeirra 8,14.
Íþróttaknapi ársins í unglingaflokki: Sara Gardarsdottir Hesselmann
Íþróttaknapi ársins í ungmennaflokki: Tekla Petersson
Gæðingaknapi ársins í unglingaflokki: Hilma Petersson
Gæðingaknapi ársins í ungmennaflokki: Elsa Johannesen
Gæðingaknapi ársins í fullorðinsflokki: Jenny Göransson