Jafnvíg og samspora í söguafbökunar-, ritstuldar- og gæðingalist

  • 4. apríl 2024
  • Aðsend grein

Örn Karlsson á Golu frá Gerðum í úrslitum í tölti á Landsmóti 1990 á Vindheimamelum. Mynd: Aðsend

Andsvar við grein um gæðingalist „Gólfið er þitt…“ eftir Mette Moe Mannseth yfirkennara við Háskólann á Hólum, stjórnarmann Félags tamningamanna (FT) og formann menntanefndar LH, sem birtist á vef LH og í 50 ára afmælisriti FT.

Það hefur augljóslega alltaf verið viðkvæmt hjá elítunni, þeirri elítu sem tengist hestamálum Hólaskóla og skúffufélagi hans FT, að gæðingafimin hafi sprottið fram úr penna undirritaðs á skrifborði Íslenska reiðskólans. Þessi tiltekna elíta, með fulltingi FT, Hólaskóla og landbúnaðarráðuneytis, sem hélt um skólamál landbúnaðar, gerði allt sem í hennar valdi stóð innan og utan lagarammans til að knésetja Íslenska reiðskólann á Ingólfshvoli upp úr síðustu aldamótum. Ætlunarverkið tókst hins vegar ekki tæknilega, því á endanum fékk Íslenski reiðskólinn öll leyfi til að reka reiðskóla á framhaldsskólastigi og útskrifa tamningamenn og þjálfara, þökk sé Birni Bjarnasyni sem þá gegndi embætti menntamálaráðherra. Leið Íslenska reiðskólans að viðurkenningu var hins vegar svo löng, hlykkjótt og ströng vegna girðinga og aðgerða fyrrgreindra aðila að krafta þraut.

Ef ekki væri fyrir undarlega tilraun til sögufölsunar af hálfu yfirkennara við Háskólann á Hólum í 50 ára afmælisriti FT væri stutt saga Íslenska reiðskólands ekki dregin fram hér. (Þessa forsögu má að rekja í smáatriðum ef það er eftirspurn eftir henni)

Þarna inni í þessum mykjuhaugi átaka, tel ég, að leita megi skýringa á gremjunni innan Hólaskóla og viðhangandi elítu, sem birtist í hinni aflmiklu viðleitni til að afmá merki uppruna gæðingafiminnar. Þetta fólk getur bersýnilega ekki á heilu sér tekið að gæðingafimin, ein hinna magnaðri framfaragreina íslenskrar reiðmennsku hafi sprottið úr stuttu starfi Íslenska reiðskólans. Þjáningin blasir við þegar sést hvað fólk er tilbúið að leggja á sig. Á vegferðinni til kæfingar er rétt eins og áður ólmast innan og utan ramma laga. Kostulegt ferðalag að tarna, kostað úr ríkissjóði Íslands að hluta, án þess að hann hafi verið spurður. Gríp ég nú í nokkrar slitrur þeirrar ferðasögu, en ekki endilega í tímaröð:

Ritstuldarkafli I – Yfirtaka gæðingafiminnar, hálmstráið þegar allt annað þraut

Þegar gæðingafimin hafði runnið þróttmikið skeið til 11 ára í Meistaradeild í hestaíþróttum með tilheyrandi sjónvarpsútsendingum og netútsendingum sem náðu um allan Íslandshestaheiminn ákvað Félag tamningamanna í tilefni 40 ára afmælis síns árið 2011 að blása til sóknar og útfæra nýja keppnisgrein í fimi sem skyldi taka mið af gæðingafiminni en vera með mismunandi erfiðleikastigum. Til verksins var fenginn úrvalshópur hestamanna, Eyjólfur Ísólfsson yfirreiðkennari Háskólans á Hólum, sem stýrði verkefninu, Benedikt Líndal, Sigurbjörn Bárðarson, Reynir Aðalsteinsson, Þórarinn Eymundsson, Atli Guðmundsson, Trausti Þór Guðmundsson og Sigrún Ólafsdóttir, formaður FT.

Þetta var mikið framtak, og vert að benda á að samkvæmt frétt um málið var ekki verið að taka gæðingafimina traustataki og breyta henni heldur átti að búa til nýja keppnisgrein. Tvö afbrigði fæddust, „hestamennska FT“ og „reiðmennska FT“. Líklega fór fram ein tilraunakeppni fyrir hvort afbrigði áður en þetta góða fólk gafst upp á verkefninu.

Reglur þessara keppnisgreina voru gegnsýrðar af orðinu „skal“ og áríðandi samkvæmt þeim að sýna fjölbreyttar æfingar sem nýtast við þjálfun íslenska hestsins. „Taumur gefinn“ var skylduæfing. Hámarkstími í braut var hafður um 8 mínútur. Ljóst er að yfirbragð þessara keppnisgreina líkist meira námskeiði heldur en keppni. Reglurnar lýstu enn fremur ákveðinni feimni við hinn gæðingafima íslenska hest sem á grundvelli réttrar þjálfunar er bær um að sýna snerpu, kraft og mýkt í senn. Við Íslendingar eigum til að mynda eina fallegustu fimiæfingu sem til er, hraðabreytingu á tölti, sem fór fyrir ofan garð og neðan í þessum keppnisreglum. Á hæsta stigi er hraðabreyting á tölti samspil snerpu, krafts, mýktar og söfnunar. Safnaðri orku er sleppt í upphröðun og niðurhæging framkvæmd með uppsöfnun orku.

Sama ár og þessar tilraunir FT fóru fram, þ.e. árið 2011, tók Mette Moe Mannseth við stöðu yfirreiðkennara við Háskólann á Hólum af Eyjólfi Ísólfssyni. Mette Moe hafði starfað sem reiðkennari frá árinu 2000 við Hólaskóla og þannig verið að störfum við skólann þegar Íslenski reiðskólinn knúði dyra. Eftir að Mette Moe hafði tekið við stöðu yfirreiðkennara við Háskólann á Hólum fór fljótlega að hitna undir gæðingafiminni. Mette Moe tókst á við það verkefni í nafni Háskólans á Hólum þar sem fyrrgreind nefnd FT skildi við. Sá var þó munur að Mette Moe nýtti sér alþjóðlegar vinsældir gæðingafiminnar og setti kinnroðalaust og blákalt hinar nýju stigskiptu keppnisgreinar FT fram í nafni gæðingafiminnar og undir höfundarnafni Háskólans á Hólum. Hún nýtti svo stöðu sína innan Háskólans á Hólum og fór að dreifa frá árinu 2016 keppnisreglum þessum sem hún sagði vera gæðingafimi til erlendra nemenda Háskólans á Hólum. Einnig hélt hún fyrirlestra erlendis sem miðuðu að útbreiðslu þessarar keppnisgreinar. Mette Moe gróf þannig markvisst undan gæðingafiminni alþjóðlega með þessum starfa sínum. Hún braut höfundalög með framgöngu sinni, nánar tiltekið braut hún sæmdarrétt höfundar en hann er m.a. réttur höfundar til að verki sé ekki breytt eða sett í þannig samhengi að það skaði höfundarheiður hans.

Misskilningur Mette Moe og menntaelítunnar í íslenskri hestamennsku er sá að til þess að gera íslenska fimikeppni alþjóðlega, þ.e. mögulega til notkunar í öllum hestaheimi íslenskra hesta verði að stigskipta henni eins og t.d. hin erlenda Freestyle dressur keppni er. Þetta er grundvallarmisskilningur sem skýrður verður betur síðar. Sömuleiðis er viðleitnin til að þvinga fram fágaða reiðmennsku með sértækum keppnisreglum mestan part skot yfir markið, því það er dómenda að dæma gæði framkvæmdar keppanda frekar en að gæði framkvæmdarinnar ákvarðist af regluverki keppnisgreinar. Vandamál menntaelítunnar virðist á að giska hafa verið hugmyndafræðilegt getuleysi til að koma hugðarefni sínu á koppinn. Þrautalendingin var því sú að taka gæðingafimina traustataki af því að hún var komin á stall, murka hana og umbreyta í Freestyle uppsuðu.

Rétt er að taka fram á þessu stigi að höfundur gerir engar athugasemdir og hefur aldrei gert við stigskiptingu innan skólahalds og námskeiða í nafni gæðingafimi. Gæðingafimi sem keppnisgrein er hins vegar óstigskiptur frjáls spuni.

Árið 2019 birtist grein um keppnisgreinina gæðingafimi í danska fjölmiðlinum Islandskhest (islandskhest.com). Grein þessi er að mestu byggð á netfyrirlestri Mette Moe eftir því sem greinarhöfundur segir. Þjálfunarpíramíti Hólaskóla er þarna á sínum stað.

Þar koma m.a. þessi atriði fram:

  1.  “Disciplinen gæðingafimi blev oprindelig udtænket af Eyjólfur ísólfsson pa Holar…”
  2. “Der er nemlig flere forskellige sværhedsgrader af gæðingafimi og dermed ogsa forskellige krav tilprogrammerne – alt efter hvilke regler man vælger til at ride efter… I efterarsligaen rider man efter Holars 2. trin. I alt er der tre trin, hver med forskellige sværhedsgrade, som folger den klassiske uddannelsesskala. I Meistaradeild rider rytterne efter nogle andre kriterier… “
  3. “En international ensretning af reglerne for gæðingafimi er man lige nu ved at kigge pa I Island”
  4. Gæðingafimi “Har sin oprindelse pa universitetet Hólar I det nordlige Island”
  5. “Der finds forskellige sværhedsgrader af disciplinen”

Ýmislegt áhugavert um hina afbökuðu gæðingafimi Hólaskóla birtist þarna. Annað stig hinnar nýju keppni sem þó ber nafn gæðingafiminnar heitir einfaldlega „Holars 2. trin“ í greininni. Viðurkennt er að „Hóluð gæðingafimi“ sé ekki sú keppnisgrein sem keppt er í í Meistaradeild í hestaíþróttum. Gæðingafimin er sögð upprunnin á Hólum og höfundur hennar sé Eyjólfur Ísólfsson. ´

Það má eiginlega furðu sæta að yfirkennari við æðri menntastofnun sé jafn lítið að sér um höfundarétt eins og Mette Moe virðist vera. Enginn sem gengur í gegnum háskólanám ætti að komast hjá því að rekast á höfundarréttarreglur, því þær eru grunnforsenda vísindalegrar nálgunar við æðri menntastofnanir og ritgerðarsmíð. Spyrja má hvort Mette Moe hafi komist til metorða innan æðri menntastofnunar á grundvelli þess hvað hún er yfirburða flink í umgengni við hesta, algerlega óháð öllu öðru sem gætu verið forsendur fyrir slíkri stöðu?

Ritstuldarkafli II – Það mega allir hanna keppnisgreinina gæðingafimi

Mette Moe staðfestir sjálf í raun allt það sem hér að ofan er sett fram þegar hún hélt kynningarfyrirlestur fyrir hönd LH um störf reglunefndar LH um innleiðingu gæðingafiminnar í regluverk LH, þann 10. febrúar 2021 á Youtube rásinni. Sjá vefslóð: https://www.youtube.com/watch?v=wZEtrO6bD7M

Þegar 2:50 mínútur eru liðnar þá lýsir hún því yfir að undirritaður, Örn Karlsson, hafi hannað keppnisgreinina gæðingafimi ásamt Meistaradeild í hestaíþróttum árið 1999. Þegar 3:20 mínútur eru liðnar segir hún að Háskólinn á Hólum hafi hannað keppnisgreinina gæðingafimi árið 2011. Restin af kynningunni er útlistun á hönnun reglunefndar LH á keppnisgreininni gæðingafimi á tímabilinu 2019 fram að kynningardegi.

Hér er það staðfest af LH, yfirkennara við Háskólann á Hólum og stjórnarmanni FT að undirritaður er höfundur að keppnisgreininni gæðingafimi. Sömuleiðis staðfestir kynningin að höfundaréttur, a.m.k. sæmdarréttur höfundalaga er þverbrotinn. Augljóst er að talsverða vanþekkingu þarf á lögum um höfundarrétt til að setja hlutina fram með þeim hætti sem háskólakennarinn gerir. Að eftir að einhver hefur hannað sértækt hugverk og nefnt það nýyrði í íslenskri tungu, þá geti annar aðili hannað annað hugverk og nefnt sama nafni og haldið fram að um sama hugverk sé að ræða og þriðji aðili eftir það hannað þriðja hugverkið og nefnt sama nafni og að afurðin sé eitt og sama hugverkið og hið upphaflega! Og takið eftir að bæði opinber háskólastofnun og félagasamtök megi bara haga sér með þessum hætti eins og þetta sé, tja, barasta hið eðlilegasta mál.

Háskólakennarinn gerir þó örlitla tilraun til að réttlæta framsetningu sína með því að ýja að því að gæðingafimin hafi eiginlega verið hönnuð árið 1993 þegar keppnisgreinin gæðingaíþróttir leit dagsins ljós, eitt augnablik. En það hjálpar ekki málinu þótt keppnisgreinin gæðingaíþróttir hafi verið hönnuð 1993. Keppnisgreinin gæðingaíþróttir er hulinn þoku hvað regluverk varðar, þó er vitað að forkeppnin fór fram á hringvelli í hefðbundinni snúrubraut og getur því á engan hátt kallast á við gæðingafimi. Keppt var í gæðingaíþróttum í tilraunaskyni einu sinni á fjórðungsmóti og svo aldrei meir, mér vitandi. Keppnisgreinin gæðingaíþróttir er eitt dæmið í hrakfallasögu LH þegar kemur að keppni í fimi.

Rétt er þó að taka fram að þessi tilraun Ingimars Ingimarssonar og Eyjólfs Ísólfssonar með keppnisgreinina gæðingaíþróttir í umboði LH var mikilvæg fyrir hestamennskuna. Allavega gaf hún undirrituðum innblástur við hönnun gæðingafiminnar 7 árum síðar.

Ritstuldarkafli III – Það er bara eitt lag spilað á píanó

Jæja þá er komið að grein Mette Moe um gæðingalist í 50 ára afmælisriti FT, sem dreift var frítt til hestamanna nýverið og birt í kjölfarið á vef LH.

Þegar hér er komið sögu hafði undirritaður höfundur að keppnisgreininni gæðingafimi kvartað til Háskólans á Hólum undan framgöngu skólans eins og henni var lýst í ofangreindri Youtube kynningu yfirkennarans. Hólaskóli fór auðvitað í vörn því þar innandyra eru klárlega einhverjir sem þekkja til höfundalaga. Háskólinn á Hólum vísaði því kvörtuninni frá á þeim grundvelli að málefnið félli ekki undir starfsemi skólans. Þar með hefur Hólaskóli lýst því yfir að hann hafi ekki hannað keppnisgreinina gæðingafimi eins og Mette Moe hefur þó haldið fram alþjóðlega í mörg ár.

Mette Moe bregður þá á nýtt ráð í þessari nýlegu umfjöllun sinni í afmælisriti FT. Hún skákar því skjólinu að allar tilraunir með keppnisgreinar á opnum velli séu í raun ein og sama „greinin“. Þannig kemst hún að því að undirritaður hafi ekki hannað keppnisgreinina gæðingafimi því „greinin“ hafi verið til ef ekki frá 1980 undir nafni „frjálsra æfinga“, þá frá 1993 undir nafninu „gæðingaíþróttir“. Orðrétt segir Mette Moe:

„Gæðingalist er grein sem í núverandi mynd er ung af nálinni en á sér áratuga sögu með margar mismunandi útfærslur.“

Mette Moe vonar sennilega að hún hafi þarna fundið leiðina út úr vandræðum sínum. Til útlistunar segir hún svo:

„Tilraunir sem Félag Tamningamanna stóðu meðal annars fyrir og sú fyrsta sem getur kannski talist keppni var haldin árið 1980 og hét „frjálsar æfingar“. Árið 1993 varð síðan til „Gæðingaíþróttir“ sem Einar Öder Magnússon sigraði eftirminnilega á fjórðungsmóti norðlenskra hestamanna á Vindheimamelum. Gæðingafimi þróaðist svo í hestaíþróttadeildum frá 1999 sem og sem ýmis reiðpróf Félags Tamningamanna og Hólaskóla frá 2003. Að greinin lifði af má líklega þakka að hún hélst inni í deildum, varð meðal annars ein af keppnisgreinum Meistaradeildar, þar sem bestu reiðmenn landsins kepptu og urðu að undirbúa sig.“

Svo mörg voru þau orð! Gæðingafimin í munni Mette Moe núna, er sem sagt „grein“ sem varð til 1980 eða í síðasta lagi 1993 sem þróaðist svo í hestaíþróttadeildum frá 1999.

Þannig reynir Mette Moe að réttlæta fyrir sjálfri sér og öðrum að undirritaður sé ekki höfundur að keppnisgreininni gæðingafimi því hún sé grein sem hafi verið hönnuð fyrir löngu. Og þess vegna hafi hún Mette Moe eða hver sem er ef því er að skipta, mátt taka gæðingafimina traustataki og umbylta henni eða eyðileggja ef sýndist!

Þetta gæti hafa virst fullkomin lausn í erfiðri stöðu, svona fljótt á litið ef hún stangaðist ekki augljóslega á við það sem hún (Mette Moe) sagði í fyrrgreindri Youtube kynningu. En burtséð frá því, spyr maður sig; Hversu vonlaus getur einn málatilbúnaður verið? Af hverju er ekki bara beðist afsökunar og bakkað í réttan farveg?

Ef Mette Moe ætlar að halda málatilbúnaði sínum til streitu, ætli megi þá ekki segja á sama hátt að allt sem spilað er á píanó sé eitt lag af því að það er allt spilað á píanó? Allt saman eitt lag, aðeins mismunandi útfærslur!

Og, ætli megi þá ekki einnig segja á sama hátt að slaktaumatölt, töltkeppni og fjórgangur sé ein og sama keppnisgreinin af því að þær fara allar fram í snúrubraut á hringvelli? Sjáum til, sama „greinin“ en bara mismunandi útfærslur!

Hvern varðar um sögulegar staðreyndir, höfundalög og siðareglur? Með birtingu þessarar greinar Mette Moe sést að Félag tamningamanna á enn talsvert í land til sjálfstæðis.

Gæðingafimi

Þegar undirritaður var að hanna Meistaradeild í hestíþróttum árið 2000 vantaði keppnisgrein sem reyndi á reiðmennsku utan snúrubrautarinnar. Keppnisgrein sem sýndi og reyndi á reiðmennsku og þjálfunarstig. Hvar keppendur gætu sýnt frumkvæði, lipurð og snerpu. Vissulega var höfundur innblásinn af því sem blasti við í úrslitum keppnisgreinar Ingimars Ingimarssonar og Eyjólfs Ísólfssonar, gæðingaíþrótta frá 1993. Sérstaklega var framganga Einars Öders Magnússonar eftirminnileg. En gæðingaíþróttir náðu aldrei flugi og undirritaður taldi sig geta gert betur. Taldi sig geta gert óbundnari og frjálsari keppnisgrein, algerlega utan snúrubrautarinnar. Horfði höfundur þá til þeirra fjölmörgu topp sýninga bestu reiðmanna Íslands á reiðhallarsýningum. Í viðtali við DV 12. febrúar 2001 skömmu fyrir fyrstu keppni í fyrstu deildarkeppni Íslands, Meistaradeild í hestaíþróttum lýsir höfundur hvernig hann vill að sér líði þegar hann horfir á nýju keppnisgreinina gæðingafimi. Orðrétt segir:

„Á fimmta mótinu verður gæðingafimi. Við ætluðum í hlýðnikeppni en hún er deyjandi grein innan hestaíþrótta. Við höfum séð frábærar sýningar í reiðhöllum hjá fremstu knöpum Íslands og teljum að hægt sé að búa til skemmtilega keppni þar sem gæðingar spinna sig upp í fimi og snerpu og hrífa fólk.“

Með heppni datt höfundur niður á einfalt form og magnað nafn, nýyrði í íslenskri tungu, „gæðingafimi“. Í sinni einföldustu mynd er gæðingafimi frjáls spuni innan tímamarka á opnum velli, hvar fimiæfingar og gangtegundir eru sýndar með tónlist að vali keppanda. Dómar einstakra atriða fara eftir áratugaþróuðum kvörðum íþróttakeppninnar. Til viðbótar koma til tvö ný dómsatriði, sem með kvörðum íþróttakeppninnar mynda skapalón sem leggja má á hvaða sýningu sem er, á hvaða getustigi sem er. Nýju dómsatriðin eru annars vegar flæði og hins vegar fjölhæfni.

Þegar gæðingafimin varð til höfðu félagasamtök og stofnanir hestamennskunnar reynt í 30 ár að búa til keppnisgrein sem byggði á fimi að einhverju leyti. Nefna má hlýðnikeppni B, frjálsar æfingar, gæðingaíþróttir og keppni í hestamennsku (hestamennska FT). Allar tilraunir höfðu þó mistekist og ekkert var í gangi sem benti til upplyftingar hestaíþróttinni. Þessu til staðfestingar er bent á grein úr Morgunblaðinu, frá 5. febrúar 2002, „Fimin blásin út af borðinu

Í þessari blaðagrein eru viðtöl við marga fremstu hestamenn Íslands þess tíma. Rétt er þó að draga út og undirstrika orð Eyjólfs Ísólfssonar, yfirreiðkennara við Hólaskóla. Jafnframt því sem hann lýsir vonbrigðum með stöðu fimikeppninnar, lýsir hann jákvæðu viðhorfi til hinnar nýju keppnisgreinar gæðingafimi. Hann segir:

„Ég hefði kosið að sjá menn þrjóskast við og finna fimikeppninni vænlegri farveg, færa hana til dæmis nær því sem kallað hefur verið gæðingafimi þar sem höfðað er meira til aðals íslenska hestsins.“

Þarna viðurkennir Eyjólfur gæðingafimina sem sérstaka keppni og greinilega keppni sem hann sjálfur hefur ekki með höndum. Hann bendir ekki á „gæðingaíþróttir“ til eftirbreytni eða „frjálsar æfingar“, hann bendir á keppnisgreina gæðingafimi sem tekur tillit til aðals íslenska hestsins. Hann bendir á að skoða þurfi leiðina sem gæðingafimin fetar til að rétta hlut fiminnar.

Þegar gæðingafimin var kynnt til leiks, var hún kynnt sem hátíðargrein Meistaradeildar í hestaíþróttum þannig:

„Gæðingafimi er frjáls fjöllistagrein sem kallar á alla kosti íslenska gæðingsins til hámarks einkunnar. Engin keppnisgrein hefur jafn óbundið form né gefur meiri tækifæri til glæstra samskipta manns og hests. Það er hátíð þegar við fáum notið sýninga sem byggðar eru upp af frábærum knöpum, þar sem knapinn hefur frjálst val um sýningarþætti og eina markmiðið er að sýningin heilli dómara og áhorfendur með samspili snerpu, lipurðar og frumleika.“

Í byrjun apríl 2001 er gæðingafiminni lýst svo í Morgunblaðinu á mbl.is sjá HÉR:

Þar segir:

„Eins og áður segir verður keppt í gæðingafimi 25. apríl í mótaröð Meistaradeildar 847. Samkvæmt upplýsingum frá mótshöldurum er gæðingafimi ný keppnisgrein í hestaíþróttum án viðurkenningar LH. Knapar sýna hest sinn á opnum velli og sýna gæðingskosti og fimiæfingar í bland. Sýningin er frjáls innan tímamarka sem eru 3 til 5 mínútur og getur knapi styrkt sýninguna með tónlist að eigin vali. Dómari gefur að lokinni keppni þrjár einkunnir, sem allar hafa sama vægi, fyrir æfingar, flæði og fjölhæfni.“

Gæðingafimin er frumsamið hugverk með einkvæmu nafni sem aldrei hafði áður sést í íslensku máli. Bundin gæðingafiminni eru tvö ný matshugtök, flæði og fjölhæfni. Gæðingafimin spratt upp úr ófrjóum jarðvegi, hvar ekkert fimitengt þreifst frá upphafi íþróttaforms hestamennskunnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mætustu manna. Gæðingafimin átti svið hestamennskunnar ótrufluð í hartnær 20 ár, var mærð af knöpum og átti sinn dygga stuðningshóp og áhorfendur vítt og breitt um hinn íslenska hestaheim.

Sæmdarréttur höfundar er tengdur keppnisforminu, nafninu, hinum nýju matsatriðum, „flæði“ og „fjölhæfni“ og regluverkinu. Sæmdarrétturinn nær ekki yfir einstakar fimiæfingar. Keppnisformið eða regluverk keppninnar er ákaflega mikilvægur þáttur heildarmyndar, sem sést af því að fremstu reiðmenn, stofnanir hestamennskunnar og félagasamtök höfðu ekki fundið regluverk sem meðbyr fékk fyrstu 50 árin sem þessir aðilar reyndu. Má af því merkja að keppnisformið sé ekki síður slungið hugverk en margt annað sem enginn styr stendur um að falli undir ákvæði höfundalaga.

Þá varð fjandinn laus

Landsþing LH samþykkti að innleiða gæðingafimina í regluverk sitt árið 2018 og ákvað að nefnd fulltrúa helstu stofnana og félagasamtaka hestamennskunnar skyldi ganga í málið. En þá varð auðvitað fjandinn laus, elítan títtnefnda fékk nú kjörið tækifæri til að ná taki á gæðingafiminni og gera það sem henni sýndist í skjóli veikrar stjórnar LH. Sóðalegur kafli tók við, hvar engu var hlíft og engu eirt er varðar gæðingafimina, kjarna hennar, siðareglur og landslög. Vegurinn var beinn og breiður, kokka skyldi stigskipta Freestyle dressur uppsuðu undir nafni gæðingafiminnar. Allt auðvitað gert og réttlætt í þeim upphafna tilgangi að gera „greinina“ alþjóðlega. Rétt er að benda á hið augljósa, að þarna voru samankomnir fulltrúar allra stofnanna og félagasamtaka sem hafði mistekist í hálfa öld að koma fimi á koppinn í íslenskri hestamennsku. Aðsópsmestu reglunefndarmennirnir og gæðingafiminni mest til tjóns, voru Mette Moe Mannseth fyrir Háskólann á Hólum, Hulda Gústafsdóttir fyrir LH og Sigurður Ævarsson fyrir dómarafélagið.

Nýr formaður LH tók við á ársþingi þess árið 2020, Guðni Halldórsson. Þegar höfundi varð ljóst að ekki átti að innleiða gæðingafimina heldur ritstuld Hólaskóla og Mette Moe maldaði hann í móinn. Guðni nýtti þá sitt verkstjórnarvald og tók að sér það hlutverk að halda höfundi gæðingafiminnar algerlega frá vinnu reglunefndarinnar. Vernda hana við brot sín. Guðni braut þar með á þeim lögvarða sæmdarrétti höfundar að mega hafa hönd í bagga með búningi hugverks síns og framsetningu þess til almennings. Guðni braut augljóslega í leiðinni siðareglur LH með framgöngu sinni, því þótt landsþing LH ákvæði skipun reglunefndar sem höfundur hafði ekki setu í trompaði það ekki lögvarinn sæmdarrétt höfundar. Ennþá er Alþingi æðra landsþingi LH.

Reglunefnd LH var þar með laus við höfundinn að gæðingafiminni. Við tók fjögurra ára ferli sem leiddi af sér regluverk um gæðingafimi sem var ekki gæðingafimi heldur Freestyle dressur uppsuða Mette Moe, kennd við Hólaskóla, með einhverjum afbrigðum og viðaukum.

Í pistli á miðlinum Hestum og Mönnum á Facebook „Er gæðingalist trú íslenskri reiðmenningu“ frá því í mars 2023 ritaði höfundur þetta meðal annars um árangur nefndarinnar:

„Útkoman er kostuleg. Eftir fjögurra ára stíf fundahöld nefndarinnar var frelsið auðvitað það fyrsta sem fór í ruslið. Líklega voru það Hulda Gústafs og Mette Mansett, fulltrúi Hólaskóla, sem vildu alls ekki að krakkar, ungmenni og minna reyndir fengju að ríða yfirferð og því var stigskiptingu og þjálfunarpíramída skellt inn til að girða algerlega fyrir svoleiðis dellu í höfundi gæðingafiminnar. Og af því að Sigga Ævars fulltrúa dómarastéttarinnar finnst svo erfitt að dæma æfingu nema einhver sé fyrst búinn að segja honum hvað hún heitir þá bara strokaði hann yfir það rugl að byggja keppnisgreinina á frjálsum spuna. Þetta er rétt byrjunin. Nefndin brenglaði og bjagaði næst alla matskvarða og sniðgekk þannig reiðmenningu íþróttakeppninnar, fann síðan sniðugt kerfi í útlöndum, svokallað freestyle dressur system og sósaði öllu saman. A.m.k. 15 keppnisflokkar litu dagsins ljós!

Nefndin eyddi svo mörgum mánuðum í að reyna að sannfæra alla um að þarna væri gæðingafimin komin, einmitt sú sem Landsþing LH hafi beðið um. Allt þar til að höfundur gæðingafiminnar hótaði að kæra Hólaskóla og LH til Menntamálaráðuneytis fyrir brot á sæmdarrétti höfundarréttarlaga.

Þá loksins, þá loksins var staldrað við og ákvörðun tekin um að gefa afurð nefndarinnar nýtt nafn. Gæðingalist varð til, fjórum árum eftir að Landsþing LH ákvað að innleiða gæðingafimi! Já Eins og Íslendingar þekkja þá eru vegir nefndarstarfa órannsakanlegir. Og enn hefur gæðingafimin ekki verið innleidd.“

Einn knapi skráði sig til keppni í gæðingalist á síðasta Íslandsmóti. Keppnisgreinin var því felld niður á Íslandsmótinu.

Og það er strax byrjað að molna undan stigskiptingunni enda stendur hún gegn íslenskri reiðmenningu, þeirri að leyfa krökkum og minna reyndum að teygja gæðinga sína á yfirferð.

Nú mega keppendur á neðri stigum sýna yfirferð og hinar erfiðari æfingar ef sótt er um það. Komið er til skjalanna nýtt umsóknarbákn og niðurstaðan háð geðþótta einhvers. Þetta leggst ofan á kvöðina um æfingaáætlanir.

Grein Mette Moe Manseth verður að segjast slöpp réttlæting fyrir því að ritstolnu efni var smyglað inn í regluverk LH í stað gæðingafimi. Villt var um fyrir landsþingi LH til að koma því í kring. Meðal annars var haldið að landsþingi að stigskipting væri nauðsyn til að knapar á öllum getustigum gætu keppt í gæðingafimi. En hvað? Nú geta allir sem vilja fengið undanþágur frá þröskuldum stigskiptingarinnar ef ekki á að mismuna. Það þýðir að loksins er viðurkennt að hugmyndafræði höfundar að gæðingafiminni gengur upp, að stigskipting er óþörf. Og takið eftir, það einfaldar allt keppnishald.

Mette Moe segir enn fremur í grein sinni:

„Fulltrúar helstu stofnana og hagsmunahópa reiðmennskunnar leiddu saman hesta sína og bjuggu til grein sem endurspeglar samspil manns og hests, þjálfun hestsins og gæði.“

Þetta er auðvitað hreinn uppspuni, nema hestarnir séu af Troju kyni. Hið rétta er að Landsþing LH 2018 samþykkti að innleiða gæðingafimi í regluverk sitt. Háskólinn á Hólum hefur nú svarað ítrekuðum athugasemdum höfundar og gefið út að skólinn beri enga ábyrgð á störfum yfirkennara síns í reglunefnd LH við innleiðingu gæðingafiminnar. Þetta eru skiljanleg viðbrögð skólans því hví skildi æðri menntastofnun vera að pönkast á nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi borgara? Það færi gegn háskólagildunum slíkt háttalag.

Ólíkt þessum misgóðu vafningum og viðhengjum sem tengist gæðingalistinni er gæðingafimin einföld keppnisgrein, frjáls spuni sem virðir jafnframt íslenska reiðmenningu og reiðlist. Gæðingafimin gerir ekki kröfur til keppenda. Það eru keppendurnir sem gera kröfur til sjálfs sín, að því marki og getu sem skilar bestum árangri í gæðingafimi, eftir því hvernig vindar blása í settum dómsviðmiðum. Það geta því allir tekið þátt í gæðingafimi, óvanir sem vanir. Flokkakerfi LH sér svo til þess að jafningjar í aldri og getu takast á.

Innleiðum gæðingafimina, íslenska original keppnisgrein, eins og landsþing LH samþykkti og leyfum knöpum og hestum að dansa eins og þeir kunna best í öllu flokkakerfi LH án þess að knapar þurfi að betla sérstakar heimildir eða leggja fram æfingaáætlanir áður.

Höfuðverkir mótshaldara sem skapast af ógrynni keppnisflokka vegna stigskiptingar, undanþágubákni vegna þröskulda stigskiptingar og töflugerð vegna æfingaáætlana hverfa eins og dögg fyrir sólu ef gæðingafimi stendur þeim til boða.

Fyrir stjórn LH liggur erindi mitt um þetta, um að virða skuli vilja landsþingsins um innleiðingu gæðingafiminnar. Jafnframt liggur fyrir krafa um að þrír stjórnarmenn víki sæti við afgreiðslu erindisins vegna vanhæfis. Guðni Halldórsson formaður stjórnar m.a. af áður tilgreindum ástæðum og Sóley Margeirsdóttir og Hákon Hákonarson sem bæði tóku þátt í að girða fyrir lögvarinn sæmdarrétt höfundalaga við innleiðingu gæðingafiminnar. Rétt er að taka fram að ekki felst í erindi mínu ósk um að gæðingalistin verði brott felld heldur fái gæðingafimin að standa í regluverkinu með öðrum keppnisgreinum. Áhugi mótshaldara, áhorfenda og knapa ræður í framhaldinu þróun mála.

Mál að linni

Mál er að linni góssentíð þeirra offars kappa innan hestamennskunnar sem telja öll meðul boðleg, þar með talið misneytingu og lögbrot í baráttu sinni til halda völdum og áhrifum innan hreyfingarinnar. Undirritaður bíður þess tíma með tilhlökkun þegar hestadeild Háskólans á Hólum verður rekin í samræmi við siðareglur hennar og almenn gildi æðri menntastofnunar. Þegar FT verður fagfélag óháð og sterkt og þegar LH mannast til framfara og fer til þess að virða siðareglur sínar, samþykktir landsþings síns og landslög. Þá mun skapast betri jarðvegur fyrir frumkvæði og nýsköpun í hestamennskunni. Það er lykilatriði að við hestamenn náum að vinna eftir markmiðum laga og siðareglna. Þannig leysast úr læðing kraftar, gleði og frelsi til upplyftingar hestamennskunni.

Höfundur er Örn Karlsson, stofnandi Meistaradeildar í hestaíþróttum og höfundur að keppnisgreininni gæðingafimi. 3. apríl 2024.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar