Jákvætt lyfjapróf á HM og árangur felldur úr gildi

Anna Lisa Zingsheim og Glaður frá Kálfhóli 2. Ljósmynd: Henk & Patty
Á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í sumar voru framkvæmdar handahófskenndar lyfjaprófanir í samræmi við reglur FEI um lyfjanotkun í hrossum. Rannsóknarstofa FEI, greindi Cannabidiolicsýru (CBDA) í blóðsýni úr hestinum Glað frá Kálfhóli 2 eftir A-úrslit í tölti þann 10. ágúst.
Eins og flestum er í minni var það Anna Lisa Zingsheim sem sýndi Glað og voru þau í 2.sæti eftir forkeppni í tölti með einkunnina 8,23 og héldu því sæti í A-úrslitum með einkunnina 8,39 en sá árangur hefur nú verið felldur úr gildi.
Í frétt á heimasíðu FEIF um málið kemur fram að þar sem þetta var fyrsta brot og aðeins um er að ræða eitt lyf úr flokki þeirra sem ekki eru talin árangursaukandi (e. Controlled Medication Substance), valdi knapinn Anna Lisa Zingsheim að taka málið ekki lengra samkvæmt grein 8.3.1 í reglum EAD. Það hefur í för með sér að allur árangur af viðkomandi móti er felldur niður en ekkert keppnisbann fylgir.
Leitaði hjálpar FEIF
Í samtali við Eiðfaxi sagði Anna Lisa að niðurstaða lyfjaprófsins hafi komið henni algjörlega í opna skjöldu. „Ég fékk tilkynninguna þann 11. september og las skilaboðin mörgum sinnum, því ég gat ekki trúað þessu. Ég er alltaf mjög varkár með það hvað ég gef hestinum mínum, því maður er alltaf hræddur við að eitthvað svona geti gerst og ólögleg lyf leynist í fóðri eða öðru sem maður notar dags daglega, án þess að maður viti af því. Ég athugaði allar vörurnar sem ég notaði og fóðrið, en fann ekkert sem gæti útskýrt þetta. Fyrsta hugsunin mín var því að einhver mistök hefðu orðið á rannsóknarstofunni.“
Eftir að hún hafði sjálf skoðaði allar vörur sem hún notaði fullviss þess að ekkert væri þar ólöglegt að finna, leitaði Anna Lisa til lögfræðings. Hann lagði til að allt það sem var gefið Glað yrði sent í frekari greiningu. Hún leitaði einnig til sérfræðings sem benti á að í fortíðinni væru til dæmi þess að hestar hefðu mælst jákvæðir í lyfjaprófum vegna hálmundirburðs sem notaðir væri í stíum og gætu innihaldið Cannabidiolicsýru. Anna Lisa notaði hálmundirburð á HM. Samkvæmt þessum sérfræðingi þyrfti hins vegar ósk þess efnis að málið yrði rannsakað frekar að koma frá FEIF en ekki Önnu sjálfri. „Ég spurði FEIF því hvort þeir gætu hjálpað mér að finna rannsóknarstofu sem gæti skoðað þennan undirburð, en fékk enga aðstoð. Ég bað líka um að fá nánari útskýringu á niðurstöðum úr prófinu, hvort gildið væri hátt eða lágt, en fékk engin svör,“
Að hennar mati voru möguleikar hennar því afar takmarkaðir: „Ég hafði tvo kosti: annaðhvort að samþykkja niðurstöðuna, sætta mig við að árangur minn yrði þurrkaður út og greiða sekt, eða að óska eftir að annað sýni yrði prófað. Ef það hins vegar hefði reynst líka jákvætt hefði ég staðið frammi fyrir miklu hærri kostnaði og hugsanlegu keppnisbanni. Í ljósi þess að FEIF var ekki tilbúið að hjálpa mér að rannsaka hvort þessi efni gætu hugsanlega komið úr hálm-undirburðinum fannst mér ég knúinn til að velja fyrri kostinn.
Hjálparlaus og sár
Anna Lisa segist vera mjög sár yfir niðurstöðunni og áhrifunum sem hún hefur haft. „Ég er mjög stolt af hestinum mínum og öllu sem við áorkuðum á Heimsmeistaramótinu. Það er mjög sárt að missa þann árangur á þennan hátt. Mér líður að einhverju leyti eins og ég sé talin glæpamaður. Ég hef aldrei áður fundið fyrir jafn miklu hjálparleysi. Mér fannst skorta á mannúð og samkennd í ferlinu af hendi FEIF, og mér fannst ég ekki fá raunverulegt tækifæri til að skýra málið og hreinsa mig af ásökunum.“
Svar frá FEIF
Blaðamaður hafði í kjölfar viðtalsins við Önnu Lisu samband við skrifstofu FEIF og hafði forseti FEIF, Gundula Sharman, m.a. þetta að segja um málið í skriflegu svari.
FEIF bendir á að þar sem engin ágreiningur er um það að prófið hafi verið jákvætt, sé engin ástæða til að fresta næstu skrefum þ.e niðurfellingu árangurs,. ráðstöfun verðlauna, breytingum í afrekaskrám heimsmeistaramótsins o.s.frv.
Í yfirlýsingu FEIF um niðurstöðu lyfjaprófsins skal tekið fram að engar ásakanir koma þar fram um að þetta hafi verið vísvitandi brot. Það sé eðlilegt að knapinn vilji reyna að finna hugsanlegan uppruna jákvæðrar niðurstöðu og leita skýringa. Verði sýni úr undirburði, sem nefndur er í svari Önnu Lisu sem hugsanlegur valdur að falli á lyfjaprófinu, sendur til frekari greininga er óhætt að segja að niðurstöður þess muni án efa vekja áhuga bæði þeirra sem málið varðar og hestamanna almennt, en þær hafi þó engin áhrif á formlega niðurstöðu ferlisins sem rakið er hér í upphafi fréttarinnar. Það er þó hvorki hlutverk skipuleggjenda mótsins né FEIF að framkvæma slíkar rannsóknir. Vonandi mun það koma í ljós með tímanum hvað það var sem olli jákvæðri svörun á lyfjaprófi.