Jóhann Rúnar Skúlason fær ekki að verja sína titla
Nú hefur það legið fyrir um nokkurn tíma að Landssamband hestamannafélaga (LH) mun ekki leyfa Jóhanni Rúnari Skúlasyni að verja þá titla sem hann hefur rétt á að gera samkvæmt lögum FEIF. Gengið hefur verið lengra og gert samkomulag við aðrar þjóðir að taka ekki inn í sín landslið einstaklinga sem hefur verið vikið úr öðrum landsliðum vegna agabrota. Reglur FEIF gera ráð fyrir að sá sem verður heimsmeistari öðlast sjálfkrafa rétt á að keppa á næsta heimsmeistaramóti þó ekki endilega í þeim greinum sem hann verður heimsmeistari í. Skilyrði er þó að viðkomandi sé í landsliði.
Ákvörðunin að vísa Jóhanni úr landsliði Íslands í hestaíþróttum byggir á broti sem Jóhann fær dóm fyrir árið 1993 eða fyrir 30 árum og tók Jóhann út sinn dóm í kjölfarið. Um var að ræða kynferðisbrot á ólögráða stúlku. Ekki var um nauðgun að ræða og fékk Jóhann fjögurra mánaða dóm þar sem þrír voru skilorðsbundnir. Dómurinn byggir á að Jóhann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi um aldur stúlkunnar.
Hvað fær mig til að stíga inn í þessa umræðu?
Það sem fær mig til að skrifa þennan pistil er sú skoðun mín að niðurstaða LH sé ekki rétt og engum til hagsbóta. Ég geri mér grein fyrir að það að stíga inn í þessa umræðu mun væntanlega kalla fram mismunandi viðbrögð en það verður svo að vera. Skoðanaskipti eru af hinu góða ef þau eru framkvæmd á málefnilegum grunni og með kurteisi að leiðarljósi. Meðvirkni og þöggun er mun alvarlegri og verri nálgun. Ég tel það einnig skildu mína að birta þessa nálgun ekki síst þar sem ég var formaður LH frá 2014 til 2020 og var Jóhann í landsliðinu þau ár. Ég hef undanfarna mánuði vonað að LH endurskoðaði sína niðurstöðu og því þyrfti ekki að setja þessi orð á blað en svo er ekki og því stíg ég fram með þessar vangaveltur.
Nokkrir punktar um málið
- Brotið á sér stað árið 1993 eða fyrir 30 árum.
- Refsing er afplánuð eftir að dómur fellur.
- Jóhann Rúnar Skúlason hefur keppt á heimsmeistaramótum fyrir Íslands hönd frá árinu 1997.
- Á mótinu 2019 þegar Jóhann varð þrefaldur heimsmeistari á Finnboga frá Minni- Reykjum var sami landsliðsþjálfari og er núna þegar Jóhanni er vísað úr liðinu.
- Jóhann hefur rétt samkvæmt lögum FEIF að keppa á heimsmeistaramótinu vegna þeirra þriggja heimsmeistaratitla sem hann vann á því móti.
- Jóhann mun ekki fá að nýta þann rétt þar sem honum var vikið úr liðinu vegna brots sem framið var fyrir 30 árum.
- Jóhann er með hreint sakavottorð á Íslandi.
- Jóhann er með hreint sakavottorð í Danmörku.
- Jóhann má keppa á öllum þeim mótum sem hann kýs að keppa á og hefur að undanförnu farið víða að keppa.
Hvet stjórn LH til að endurskoða sína fyrri afstöðu
Að ofangreindu má sjá að margt er sérstakt í nálgun LH sem jafnvel getur varðað lög. Ábyrgðin er ekki síst stjórnarmanna því ekki þarf að velja Jóhann Rúnar Skúlason í landsliðið þar sem hann hefur rétt til að keppa á mótinu heldur einungis gefa honum heimild til að keppa undir íslensku flaggi líkt og frá árinu 1997.
Ef gerð eru mistök þá er það mín skoðun að við eigum öll að fá möguleika á að bæta okkar gjörðir. Samfélagið stendur á stoðum laga og reglna og ekki síður fyrirgefningar, umburðarlyndis, sanngirni og jafnræðis.
Ég hvet því stjórn Landssambands hestamannafélaga til að endurskoða sína ákvörðun að vísa Jóhanni Rúnari Skúlasyni úr landsliði Íslands í hestaíþróttum og gefa honum kost á að keppa á mótinu og nýta þann rétt sem hann vissulega hefur.
Einnig hvet ég okkur hestamenn til að vera óhrædd að taka þess umræðu á málefnalegum nótum greininni okkar til hagsbóta.
Bestu kveðjur úr Stykkishólmi
Lárus Ástmar Hannesson