Jói Skúla gjaldgengur með danska landsliðinu

Jóhann Rúnar Skúlason mun ekki klæðast bláa jakkanum á Heimsmeistaramótinu í sumar en nú stefnir í að hann klæðist landsliðsjakka Dana mynd:Sofie Lahtinen Carlsson
Jóhann Rúnar Skúlason er nú orðinn gjaldgengur í danska landsliðið og stefnir á þátttöku fyrir hönd þeirra á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Sviss á þessu ári.
Jóhann er einn sigursælasti knapi samtímans og hefur hann til að mynda sjö sinnum orðið heimsmeistari í tölti á fimm mismunandi hestum. Alla þá titla, auk fjölda annarra á heimsmeistaramótum, hefur hann unnið í íslenska landsliðsbúningnum en nú stefnir hann á að mæta til leiks í þeim danska.
Hann hefur undanfarinn tímabil unnið fjölda móta á hesti sínum Evert frá Slippen og eru þeir á meðal efstu para á stöðulista FEIF bæði í tölti og fjórgangi. Verði þeir á meðal keppanda á HM í Sviss er ljóst að Jóhann mun gera atlögu að heimsmeistaratitlum í þeim greinum og telst sigurstranglegur.
Jóhann hefur ekki verið valinn í íslenska landsliðið frá árinu 2021 og hafa deilur vegna þess ekki farið framhjá neinum og um þær verið fjallað í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Upphaf málsins á rætur sínar í því að í október árið 2021 var Jóhann ekki valinn í landsliðshóp Íslands. Tveimur árum síðar, árið 2023, krafðist Jóhann þess að ákvörðunin um brottvikningu hans úr landsliðinu yrði afturkölluð og hann tekinn inn í landsliðið að nýju en því var hafnað. Höfðaði Jóhann þá mál gegn Landssambandi hestamanna.
Þann 20. febrúar árið 2024 greindi Eiðfaxi frá því að dæmt hafi verið í máli Jóhanns Rúnars Skúlasonar gegn LH þar sem kom fram að ákvörðun stjórnar LH og landsliðsnefndar að víkja honum úr landsliðshópi myndi standa.
Jóhann áfrýjaði málinu til Áfrýjunardómstóls ÍSÍ sem komast að þeirri niðurstöðu að stjórn og landsliðsnefnd LH hafi verið óheimilt að vísa honum ótímabundið úr landsliðshópi Íslands þann 31. október 2021. Dóminn í heild sinni má lesa HÉR.