Kappar bætast í hóp heiðursverðlaunahesta í haust

Þráinn frá Flagbjarnarholti stendur ákaflega vel í kynbótamatinu og stefnir hraðbyri að heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi.
Nú þegar flestum kynbótasýningum ársins er lokið er ljóst að þrír stóðhestar hafa náð tilskyldum fjölda afkvæma til dóms til að hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi en sá fjöldi er 50 dæmd afkvæmi í fullnaðardómi. Þeir standa allir vel í útreikningum kynbótamatsins frá því í vor. Nýjir útreikningar á kynbótamatinu verða svo keyrðir í haust en ólíklegt verður að teljast að þessi stóðhestar lækki niður fyrir þau lágmörk sem ná þarf til að hljóta heiðursverðlaun. Þau lágmörk eru 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins eða þá 118 stig í aðaleinkunn kynbótamats án skeiðs.
Þeir stóðhestar sem nú sigla hraðbyri að heiðursverðlaunum í haust eru þeir Herkúles frá Ragnheiðarstöðum, Hreyfill frá Vorsabæ II og Þráinn frá Flagbjarnarholti.
Herkúles á nú 51 afkvæmi með fullnaðardóm og er með 123 stig í aðaleinkunn í kynbótamatsins og 131 í aðaleinkunn án skeiðs. Herkúles er 15 vetra gamall undan Álfi frá Selfossi og Hendingu frá Úlfsstöðum. Ræktandi hans er Helgi Jón Harðarson en eigandi er Vordal Islandpferde. Herkúles er staðsettur í Þýskalandi

Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Jakob Svavar Sigurðsson á Landsmóti á Hólum árið 2016
Hreyfill á nú 54 afkvæmi með fullnaðardóm og er með 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og 128 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Hreyfill er 17. vetra gamall og er undan Dug frá Þúfu í Landeyjum og Kolbrúnu frá Vorsabæ II. Ræktandi hans er Björn Jónsson sem er eigandi ásamt Stefaníu Sigurðardóttur.

Hreyfill frá Vorsabæ og Sigurður Óli Kristinsson á Landsmóti árið 2014 á Hellu
Þráinn á nú 58 afkvæmi með fullnaðardóm og er með 136 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og 130 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Þráinn er 13. vetra gamall og er undan Álfi frá Selfossi og Þyrlu frá Ragnheiðarstöðum. Ræktandi hans er Jaap Groven og eigandi er Þráinsskjöldur.

Þráinn frá Flagbjarnarholti og Þórarinn Eymundsson á Landsmóti í Reykjavík árið 2018