Keppni hófst í dag á Skeiðmeistaramótinu í Zachow
Skeiðmeistaramótið í Zachow byrjaði í dag en hægt er að horfa á mótið í beinni á EYJA.TV en dagskrá, ráslista og niðurstöður mótsins er hægt að finna HÉR.
Í dag var keppt í hinum ýmsu greinum forkeppni í slaktaumatölti, tölti og B-flokki og þá var einnig keppt í gæðingaskeiði.
Sigurganga Sigurðar Óla Kristinssonar á Fjalladís frá Fornusöndum heldur áfram en þau unnu gæðingaskeið með einkunnina 8,88. Beggi Eggerts varð annar á Tandra frá Árgerði með 8,33 í einkunn og í því þriðja varð Viktoria Große á Gimla vom Sperlinghof með 8,17 í einkunn.
Í forkeppni í tölti T1 er Jóhann Rúnar Skúlason með töluverða forystu á Evert frá Slippen en einkunn þeirra er 8,50. Næst á eftir honum er Susanne Birgisson á Kára von der Hartmühle með 7,73 í einkunn. Það sama er uppi á teningnum í slaktaumatölti T2 sem Daniel C. Schulz leiðir með nokkrum yfirburðum á Spuna vom Heesberg með 8,20 í einkunn.
Í B-flokki gæðinga er á toppnum að forkeppni lokinni Kjarkur frá Vorsabæ II setinn af Sys Pilegaard með 8,55 í einkunn.
Veislan heldur áfram á morgun þegar keppt verður meðal annars í fjórgangi og fimmgangi auk fyrri tveggja spretta í 250 og 150 metra skeiði. Allt í Beinni á EYJA.TV.