Landsamband hestamanna Kosning um LH félaga ársins

  • 14. nóvember 2023
  • Fréttir

Stjórn LH óskaði eftir tilnefningum frá aðildarfélögum LH að félaga ársins, ásamt rökstuðningi fyrir valinu.

Eftirfarandi sjálfboðaliðar hafa verið tilnefndir, endilega kynnið ykkur þau og kjósið hér neðst á síðunni.

Hestamannafélagið Fákur – Sæmundur Ólafsson

Hestamannafélagið Fákur tilnefndir til félaga ársins 2023 Sæmund Ólafsson. Sæmundur hefur í mörg ár staðið vaktina við alla helstu viðburði og mót í Fáki. Hann er ávallt boðinn og búinn til að aðstoða, hvort sem það er við undirbúning eða vinnu á viðburðunum sjálfum. Sæmundur er nefndarmaður í mótanefnd Fáks en sú nefnd heldur meðal annars Reykjavíkurmeistaramót sem er stærsti hestaviðburður í Íslandshestamennskunni þau ár sem ekki er Landsmót.

Til marks um hans óeigingjarna og mikla starf má öruggt telja að yfirgnæfandi hluti knapa mótsins þekki til hans þar sem hann stendur vaktina á Reykjavíkurmeistaramóti frá morgni til kvölds. Sæmundur er öðrum félagsmönnum Fáks mikil fyrirmynd og án hans og annarra sjálfboðaliða Fáks gæti félagið ekki haldið mót og viðburði.

Hestamannafélagið Hringur – Christina Niewert

Christina Niewert eða Tína eins og hún er jafnan kölluð er sannur Hringsfélagi. Hún starfar sem reiðkennari hjá Hring en hún er ekki bara venjulegur reiðkennari því hún brennur fyrir að virkja alla sem hafa minnsta snefil af áhuga á hestum og leggur mikla áherslu á að allir sem vilja, geta fengið tækifæri til að kynnast íslenska hestinum, sérstaklega ef aðstæður viðkomandi eru erfiðar. Eins og hjá börnum sem ekki hafa aðgang að hestum og nýbúum. Þannig berst hún með sína reiðhesta í Hringsholt í reiðkennslu til að börn og ungmenni sem ekki hafa aðgang að hestum geti stundað reiðnámekið hjá Hring. Hún vill gera hestamennsku aðgengilega fyrir alla, börn, hræddar konur og nýbúa.

Tína er hugmyndaríkur frumkvöðull og fær oft góðar hugmyndir sem hún er líka dugleg að framkvæma. Sem dæmi má nefna konuhittingar, prikhestanámskeið, allskonar reiðtúrar með hringsfélögum á öllum aldri og öllum getustigum. Þá á hún sennilega metið í ferðum á hestbaki upp að Skeiðsvatn  hér í Svarfaðardal og býður ávallt einhverjum með sér.  Hún lætur fátt aftra sér í sinni hestamennsku og eru útsjónasemi, dugnaður og þrautseiga orð sem lýsa henni Tínu einna best.

Tina er alltaf boðin og búin til að taka þátt í hverju því starfi sem þarf, sérstaklega ef það snýr að börnum og unglingum og hefur hún verið í æskulýðsnefnd Hrings til margra ára og er hún einn traustasti nefndarfulltrúinn þeirrar nefndar, mætir á alla fundi og tekur þátt í öllum viðburðum hjá æskulýðsnefndinni. Auk þess að starfa með æskulýðsnefndinni í Hring er Tína óþreytandi stuðningur við hverja þá konu sem einhverra hluta vegna hefur misst kjarkinn gagnvart hestum eða hestamennsku og hefur hún aðstoðað margar konur við að komast aftur af stað í hestamennsku sinni.

Tína er dýrmætur félagi í Hring vegna hæfileika sinna, dugnaðar og starfsorku.

Hestamannafélagið Neisti – Selma Erludóttir

Hestamannafélagið Neisti tilnefnir Selmu Erludóttir sem LH félaga ársins.

Selma hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins í mörg ár. Hún byrjaði að gera ársreikninga fyrir félagið árið 2000, kom inn í stjórn félagsins árið 2008 sem gjaldkeri og gegnir því hlutverki enn þann dag í dag. Selma hefur séð um heimasíðu félagsins, www.neisti.net í mörg ár.

Einnig var Selma lengi í æskulýðsnefnd og tók þátt í undirbúningi og uppsetningu fjölda sýninga sem hafa verið í reiðhöllinni Arnargerði á Blönduósi

Síðastliðinn vetur fór stjórn Neista af stað með félagshesthús þar sem þátttakendum á námskeiðum á vegum félagsins bauðst að leigja stíur fyrir sína hesta á kostnaðarverði. Einnig buðum við upp á að leigja hesta fyrir þá sem eiga ekki hesta en vildu vera á námskeiðum hjá okkur í vetur. Aðsóknin var vonum framar og færri komust að en vildu. En til að hægt sé að bjóða upp á slíka þjónustu þarf einhver að halda utan um skipulagið og sá Selma alfarið um það. Hún var vakin og sofin yfir þessu verkefni, sá um að setja hestana út og moka og gefa eftir þörfum auk þess sem hún sá um að halda utan um og fá aðra með sér í lið við þessi verk.

Selma er alltaf boðin og búin að hjálpa til og er fyrst af stað þegar eitthvað þarf að gera fyrir félagið.

Hestamannafélagið Skagfirðingur – Heiðrún Ósk Jakóbínudóttir

Hestamannafélagið Skagfirðingur tilnefnir Heiðrúnu Ósk Jakobínudóttir til LH félaga ársins.

Heiðrún Ósk er “JÁ” manneskjan okkar & hefur ekki verið þekkt fyrir að hafa nei í sínum orðaforða. Hún er alltaf boðin og búin til að aðstoða hvar sem þess gerist þörf. Hún er einn af drifkröftum Æskulýðsstarfins í skipulagi og framkvæmd þar sem hún fer fyrir nefndinni og heldur utan um ungana okkar. Einnig er hún mjög dugleg og drífandi við að standa vaktirnar í sjoppunni við fjáröflunar starfið. “Já þetta gerist ekki af sjálfum sér” segir hún stundum. Hún hefur einnig séð um útleigu og þrif á Tjarnabæ, félagshúsinu okkar og hefur gert það með miklum sóma ásamt mörgu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur.

Hún er jákvæð, drífandi og mjög svo óeigingjörn á sinn tíma fyrir félagið.

Ýtið á hlekkinn til að halda áfram í kosningu: Landssamband hestamannafélaga (lhhestar.is)

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar