Kraftur frá Bringu fallinn frá

  • 17. ágúst 2023
  • Fréttir
Minning um gæðing

Kraftur frá Bringu er allur en hann var feldur í gær 28 vetra gamall.

Kraftur var margfaldur Íslandsmeistari og vann tvo heimsmeistaratitla með knapa sínum Þórarni Eymundssyni. Enginn hestur hefur unnið það sama afrek að vinna fimmgang og tölt á Íslandsmóti síðan Kraftur gerði það árið 2007.

Kraftur átti 258 afkvæmi skráð í WorldFeng og ber þar fremstann að nefna Hrannar frá Flugumýri II. Ætla má að Kraftur muni skilja eftir djúp spor í íslenskri hrossarækt um ókomna tíð.

Þórarinn Eymundsson skrifaði falleg minningar orð um gamla vin sinn og fá þau að fylgja hér á eftir:

“Í gær var felldur stórbrotinn hestur sem hefur staðið mér hvað næst hjarta alla tíð. Ég var á leið heim af HM þegar ég frétti að þetta stæði til því sá gamli var orðinn gamall og hrumur enda 28 vetra. Eg var varla búinn að lesa nema nokkrar línur af þessum skilaboðum þegar ryk var komið í augun og röddin brostin. Skrítið hvernig tilfinningarnar geta komið aftan að manni og magnað hversu sterka taug þessi hestur hefur átt og mun alltaf eiga í mér.
Ég kynntist Krafti fyrst fyrir 20 árum eða í mars 2003 og fjórum árum seinna skildu leiðir eftir HM í Hollandi 2007. Ég var samt svo einstaklega heppinn með hvert hann fór en allar götur síðan hefur Malin Bonnevier átt Kraft og ég heimsótt hann og farið með hann sýningar og mót í Evrópu. Malin hefur hugsað vel um hann og ég fengið að fylgjast með.
Kraftur var eins og áður sagði stórbrottinn á margan hátt. Enginn hestur hefur komið eins oft á óvart og gert mig orðlausann og fengið mig til að stíga af baki og hugleiða hvað gerðist eiginlega. Til dæmis þegar ég var búinn að vera að dunda mér að ná betra taumsambandi og geta komist í samband með fæturnar og allt í einu kemur hægt tölt sem var ekki af þessum heimi og eitthvað annað og meira en ég hef nokkur sinni upplifað. Eða þegar við gátum gert brokk á fet hraða og mér fannst við varla snerta jörðina svo mikið var fjaðurmagnið. Eða skeiðspretturinn í svartaþoku þar sem sniðið kom rétt og hesturinn teygði sig fram og niður með hálsinn og lagðist á þetta skeið sem hefði eflaust gert góðan tíma á hvaða kappreiðum sem er. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki alltaf mikla stjórn á Krafti sérstaklega ekki til að byrja með, hugurinn var svo hátt stemmdur, viljinn harður, næmleikinn mikill en alltaf vissi ég hvar ég hafði hann. Geðslagið ekki hlýtt en þó alls ekki kalt nema eftir þessa nokkra daga eftir að ég skammaði hann í fyrsta og eina skiptið.

Eftir því sem við slípuðumst betur saman þá fannst mér koma betur og betur í ljós hversu gæðin og getan var raunverulega mikil. Hann var yfirburðar á hægu tölti og brokki og orkan nánast óbilandi og hreyfiþörfin mikil. Ég þurfti oft mikinn tíma til að ná sambandi við hann því ef það tókst ekki fór gamanið að kárna. Kraftur var svo sannarlega nafn við hæfi. Það eru forréttindi að fá að kynnast svona yfirburðar hesti. Afrekin á vellinum voru mörg og sum verða líklega seint leikin eftir.

Sem ræktunarhestur gaf hann gull og grjót svo ég vitni í Guðmund Sveinsson um Otur frá Sauðárkróki. Mörg voru ekki nógu vel byggð og með þennan mikla vilja og næmleika sem er ekki auðvelt að höndla en svo komu líka yfirburðar snillingar sem munu marka stór spor í ræktun hér á Íslandi og í Svíþjóð.

Takk kærlega fyrir allt elsku Kraftur þú kenndir mér svo mikið og gafst mér svo mikið.”

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar