Kristján Árni leiðir og Sigursteinn annar í 250 metra skeiði

Sigursteinn og Krókus. Ljósmynd: Henk & Patty
Fyrsta keppnisgrein dagsins var 250 metra skeið. Kappreiðarnar fóru fram í góðum aðstæðum veðurlega séð, 18 stiga hita og logni. Hver keppandi fékk tvo spretti í dag og seinni tveir sprettirnir fara svo fram seinni partinn á morgun, þá kemur í ljós hver stendur uppi sem heimsmeistari í greininni. Íslensku keppendurnir voru fimm talsins þeir Daníel Gunnarsson, Hinrik Bragason og Sigursteinn Sumarliðason í fullorðinsflokki og Kristján Árni Birgisson og Matthías Sigurðsson í ungmennaflokki.
Að loknum þessum tveimur sprettum er það Natalie Fischer frá Danmörku sem leiðir í fullorðinsflokki á tímanum 21,91 sekúndu. Hún keppir á hestinum Ímni fra Egeskov. Kristján Árni og Krafla frá Syðri-Rauðalæk eru í forystu í ungmennaflokki á tímanum 22,38 sekúndum. Virkilega öruggir og flottir sprettir hjá þeim, Kristján virðist vera með hryssuna í hendi sér og nú er bara að klára dæmið á morgun.

Kristján og Krafla. Ljósmynd: Henk & Patty
Matthías keppir á Magneu frá Staðartungu og náðu þau best tímanum 25,10 sekúndum í dag eftir að hafa ekki hlotið tíma í fyrri spretti. Matthías hefur náð betri tímum og mun án vafa leggja allt í sölurnar á morgun. Hinrik sagði það í samtali við Eiðfaxa að loknu gæðingaskeiði að hann væri farinn að leiða hugann að kappreiðaskeiði. Þau Trú standa sig heldur betur vel í þeirri grein í fraumraun sinni og fóru í dag tvo góða spretti og sá betri er 22,64 sekúndur.

Hinrik og Trú. Ljósmynd: Henk & Patty
Daníel og Kló frá Einhamri 2 eru öryggið uppmálað og til alls líkleg þeirra besti tími í dag 22,54 sem er sjötta sætið í fullorðinsflokki sem stendur. Hann náði silfri á síðasta HM og veit hvað þarf til þess að standa á palli í greininni, hann mun nýta þá reynslu á morgun.

Daníel og Kló. Ljósmynd: Henk & Patty
Sigursteinn og Krókus frá Dalbæ áttu góðan dag. Tóku fyrri sprettinn af miklu öryggi og gáfu svo meira í þann seinni, þrátt fyrir að hafa ekki verið í fullkomnu jafnvægi uppskáru þeir tímann 21,97 sekúndur sem er annað sætið sem stendur. Sigursteinn er mikill keppnismaður og mun ekki gefa neitt eftir á morgun.
10 efstu í fullorðinsflokki
# | Knapi | Hestur | Tími |
1 | Natalie Fischer | Ímnir fra Egeskov | 21.91″ |
2 | Sigursteinn Sumarliðason | Krókus frá Dalbæ | 21.97″ |
3 | Helga Hochstöger | Nóri von Oed | 22.00″ |
4 | Sigurður Óli Kristinsson | Fjalladís frá Fornusöndum | 22.21″ |
5 | Lara Balz | Trú från Sundäng | 22.51″ |
6 | Daníel Gunnarsson | Kló frá Einhamri 2 | 22.54″ |
7 | Hinrik Bragason | Trú frá Árbakka | 22.64″ |
8 | Idunn Marie Pedersen | Sólon fra Lysholm | 22.78″ |
9 | Daniel Ingi Smarason | Hrafn frá Hestasýn | 23.23″ |
10 | Iris Maria Haraldsson | Brimar frá Varmadal | 23.48″ |
Staðan í ungmennaflokki
# | Knapi | Hestur | Tími |
1 | Kristján Árni Birgisson | Krafla frá Syðri-Rauðalæk | 22.38″ |
2 | Tova Ivarsson | Tinna från Raudhetta gård | 22.76″ |
3 | Lilli Schneider | Sproti vom Mönchhof | 22.94″ |
4 | Joséphine Williams | Lér frá Valhöll | 23.09″ |
5 | Freja Løvgreen | Fjölvi fra Hedegaard | 23.17″ |
6 | Molly Eriksson | Blikka frá Þóroddsstöðum | 23.24″ |
7 | Alicia Palm | Ljúfa från Ekeholm | 23.80″ |
8 | Matthías Sigurðsson | Magnea frá Staðartungu | 25.10″ |