Kveikur frá Stangarlæk 1 seldur til Danmerkur

  • 3. september 2020
  • Fréttir

Samspil Aðalheiðar Önnu og Kveiks verður lengi í minnum haft, hér saman á Landsmóti 2018 mynd: Eiðfaxi

Viðtal við Rögnu og Birgi Leó ræktendur Kveiks

Kveikur frá Stangarlæk 1 er seldur til Danmerkur. Faðir Kveiks er Sjóður frá Kirkjubæ og móðir hans er Raketta frá Kjarnholtum.

Kveikur skaust upp á stjörnuhimininn á Landsmóti árið 2018 þar sem hann varð annar í flokki sex vetra stóðhesta og hlaut m.a. einkunnina 10,0 fyrir tölt og vilja og geðslag. Samspil hans og Aðalheiðar Önnu á því landsmóti verður lengi í minnum  haft og má segja að um tímamótasýningu hafi verið að ræða. Þá gerði Aðalheiður það einnig gott á honum í hans fyrstu töltkeppni utandyra í sumar á Reykjavíkurmeistaramótinu þar sem hann fór í 8,53 í forkeppni.

Kaupverðið trúnaðarmál

Eiðfaxi hafði samband við þau Rögnu og Birgi, ræktendur Kveiks, til þess að fræðast meira um Kveik, söluna á honum og framhaldið. „Kaupverðið er trúnaðarmál og verður ekki gefið upp að svo stöddu“ segja þau einum rómi en hvenær tóku þau ákvörðun um það að Kveikur væri til sölu. „Við byrjuðum að íhuga sölu á Kveik í kjölfar ákvörðunar LH um að fresta Landsmóti á Hellu. Í okkar huga þá átti það mót að vera hans síðasta keppni.  Viðræður um sölu á Kveik fóru á fullan skrið um og eftir Reykjavíkurmeistaramótið í byrjun júlí í sumar.“

Skynsamur og mannelskur í uppeldi

Þau Ragna og Birgir hafa fyllst með hestinum frá því hann kom í heiminn. Hvernig var Kveikur í uppeldi, sáuð þið strax að þarna var gæðingur í uppsiglingu?

„Kveikur varð snemma nokkuð áberandi í uppvexti,forvitinn,mannelskur, prúður og skynsamur.  Einnig vakti það okkar athygli hvað hann var alltaf glaður og lék sé mikið.  Við sáum hann til dæmis aldrei berjast við aðra fola í öðru en leik.  Það var árið sem hann fer á sinn þriðja vetur að við fórum að átta okkur á að við gætum verið með afar sérstakan hest í höndunum.  Þann vetur styrktist hann mikið og stækkaði.  Þá fór hann líka að sýna okkur þessar miklu hreyfingar sem við þekkjum hann af í dag.“

Aðalheiður heldur í Kveik Mynd: Eiðfaxi

Afkvæmi hans búa yfir skynsemi og yfirvegun

Kveikur hefur, eins og gefur að skilja, fengið mikla notkun síðustu ár og er nú þegar búið að sýna undan honum fyrsta afkvæmið í kynbótadómi en hvernig lýst þeim Rögnu og Birgi á afkvæmi hans? „Afkvæmi Kveiks bera mikinn keim af föður sínum.  Hér á Stangarlæk 1 eru til 11 afkvæmi undan Kveik og von á fleirum næsta vor.  Ein hryssa úr fyrsta árgangi, Ísabella frá Stangarlæk 1 var sýnd í sumar af Aðalheiði Önnu og fór hún í fyrstu verðlaun.  Við erum svo með tvær hryssur á fimmta vetur sem verða tamdar í vetur.  Öll tryppin hér á Stangarlæk 1 undan Kveik virðast búa yfir þessari yfirvegun og skynsemi eins og Kveikur og einnig er áberandi þessi í tryppunum,  skrokkmýkt sem einkennir Kveik.

Ekki auðveld ákvörðun

„Það er ekki auðveld ákvörðun að taka að selja Kveik en okkar ræktun hverfist um móðir Kveiks, Rakettu frá Kjarnholtum og okkar hugur stendur auðvitað til að halda áfram að búa til hágæðahross sem henta öllum, með Rakettu sem okkar aðalræktunarhryssu.“ Kveikur var taminn á Margrétarhofi og það var Aðalheiður Anna sem hefur hingað til sýnt hestinn í þau skipti sem hann hefur komið fram.„Það verður aldrei hægt að ræða Kveik og hans frammistöðu án þess að nefna hlut þeirra Aðalheiðar Önnu og Reynis á Margrétarhofi.  Kveikur hefur að okkar mati hlotið besta uppeldi sem nokkur hestur getur óskað sér og í framhaldi bestu þjálfun sem finnst í Íslandshestaheiminum.  Þeirra þáttur í þróun Kveiks í það sem hann er í dag, verður seint fullþakkaður.“

„Við viljum svo að lokum óska nýjum eigendum til hamingju með að hafa eignast hann Kveik okkar, við vitum að það mun verða hugsað vel um hann og hann fær áfram gott atlæti.“

Eiðfaxi þakkar þeim Rögnu og Birgi fyrir spjallið og óskar þeim áframhaldandi velgengni við ræktun íslenska hestsins.

 

Birgir Leó, Ragna, Kveikur og Aðalheiður Anna mynd: Einksafn

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<