Kveikur frá Stangarlæk fallinn

  • 2. ágúst 2024
  • Fréttir
Hæst dæmdi klárhestur allra tíma allur

Þau hörmulegu tíðindi bárust frá Gitte Fast Lambertsen, eiganda Kveiks frá Stangarlæk, að Kveikur hafi verið felldur í gær, 12 vetra gamall.

Samkvæmt færslu Gitte á Facebook var farið með Kveik á dýraspítala á miðvikudagskvöld vegna einkenna hrossasóttar. Um kvöldið og nóttina voru merki um að honum væri að batna en í gærmorgun fór hann versnandi og eftir frekari rannsóknir var ákveðið að hann þyrfti að fara í aðgerð. Í aðgerðinni kom í ljós að snúið var upp á ristilinn í honum og einhverjar æðarskemmdir voru og blæddi frá þeim. Að lokinni aðgerð var bara að bíða og sjá hvort hann myndi ná sér en því miður gerðist það ekki og drapst hann í gærkvöldi á dýraspítalanum.

Sló í gegn á Landsmóti 2018

Kveikur var sex vetra þegar hann sló í gegn á Landsmótinu 2018 þar sem hann hlaut m.a. 10 fyrir tölt og samstarfsvilja. Þar hlaut hann 8,76 í aðaleinkunn sem er hæsta einkunn sem klárhestur hefur hlotið. Hann var með fyrir sköpulag 8,57 og fyrir hæfileika 8,88 en það var Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir sem sýndi hestinn.

Haustið 2020 bárust fréttir um það að Kveikur væri á leið úr landi en hann hafði verið seldur til Danmerkur. Kaupendur hans voru þau Gitte og Flemming Fast sem eiga og reka búgarðinn Lindholm Hoje sem er staðsettur nálægt Álaborg.

Sannað sig sem kynbótahestur

Kveikur hefur verið mikið notaður og á hann 550 skráð afkvæmi í WorldFeng. Hann var staðsettur í Hollandi á EU sæðingarstöð þegar hann veiktist.

Kveikur var að stimpla sig inn meðal fremstu kynbótahesta og náði í vor lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi. Afkvæmi hans vöktu verðskuldaða athylgi á nýliðnu Landsmóti en afkvæmi hans munu bera hróður hans um ókomna tíð.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar