Kynbótadómar á krossgötum

  • 22. maí 2021
  • Fréttir

Eiðfaxa barst bréf nú á dögunum sem fjallar um kynbótakerfið og ýmislegt tengt því. Það hefur ekki verið til siðs á þessum miðli að birta greinar og pistla þar sem höfundar  eru ekki nafngreindir en í þetta skiptið gerum við undantekningu og birtum greinina án þess að geta höfundsins, en hann vildi ekki að nafn sitt kæmi fram.

 

Dingluðu um á framhlutanum

Á síðasta ári litu dagsins ljós breytingar á ræktunarmarkmiðum íslenska hestsins og nýjar vinnureglur fyrir kynbótadómara. Mikil ólga gerði vart við sig meðal ýmissa ræktenda og sýnenda um hver skellurinn yrði. Þrátt fyrir fjölmarga opna fundi þáverandi hrossaræktarráðunauts víðsvegar um landið í aðdraganda breytinganna, þar sem hugmyndir voru ræddar og tekið var við ábendingum, lýstu valinkunnir ræktendur yfir vonbriðgum með að ekkert samtal hafi verið við þá haft. Má þar lesa milli línanna að einhverjar breytingar hafi verið gerðar sem kæmu illa niður á eigin hrossum. Eflaust hefði þessum ræktendum þótt betur við hæfi ef ræktunarmarkmiðin hefðu verið aðlöguð meira að þeirra hrossum og telja það argasta dónaskap ,,kerfisins” að þeir fái ekki að ráða. Það kom þó á daginn að óttinn var óþarfur. Þegar sýningar vorsins hófust varð það hverjum manni ljóst, sem fylgist með hrossarækt og sýningum, að ekkert var að óttast. Breytingarnar virtust ekki hafa nein teljandi áhrif á niðurstöður dóma, nema þó helst á þá leið að auðveldara virtist um vik að fá góðar tölur á gripinn. Það mátti til dæmis sjá að það var nú mun auðveldara en áður fyrir dómara að gefa stóru tölurnar fyrir tölt. Fjölmargir hestar dingluðust eftir brautinni á lausum taum á framendanum og hlutu að launum níur og ef ekki níu fimmur fyrir þessa verðmestu gangtegund íslenska hestsins.

Glerið hleypir ekki göllunum í gegn

Um áratuga skeið þótti það mikill heiður að eiga hross sem hlaut fyrstu verðlaun á kynbótasýningu. Nú er svo komið að hross sem hljóta allt upp undir 8,50 í aðaleinkunn líða hjá í brautinni án þess að nokkur maður taki eftir því og klukkustund síðar eru allir búnir að gleyma hvernig hesturinn var á litinn, líklega eru þar með taldir dómararnir. Á haustmánuðum duttu inn í WorldFeng myndbönd af hrossum sem mættu til landssýningar. Þar má berja augum mörg af bestu hrossum landsins á síðasta ári, að mati ráðunautanna, og sjá hvernig þau komu fyrir í dómnum. Mörg af þeim hrossum eru hreint stórkostleg og vel hægt að skilja hvers vegna þeim er hampað. Ansi mörg eru þau síðan hrossin þar sem ekki er nokkur leið að skilja hvernig ráðunautarnir komust að þeirri niðurstöðu sem raunin varð og augljóst er að ekki er hægt að treysta tölum þegar velja skal hest á hryssu. Einhverra hluta vegna virðist ráðunautunum vera meira í mun að gleðja vini og vandamenn með fallegum tölum á blaði heldur en að ráðleggja hrossaræktendum um kosti og galla þeirra gripa sem leiddir eru fram. Vel væri hægt að nefna fjölmörg dæmi þessu máli til stuðnings. Þess gerist þó ekki þörf þar sem mér virðist að hver einasti hestamaður sem ég hitti sé með nýtt dæmi, sem ég hafði ekki áður séð. Framþungir jálkar með níu fyrir fegurð í reið, skeiðborið tölt með átta fimmur og níur og svo mætti lengi telja. Svo virðist sem glerið í dómhúsunum hleypi ekki göllunum í gegn, en geri kostina mikilfenglegri. Hefði fyrri konan mín verið með þetta gler í sínum gleraugum hefði hún líklega aldrei farið fram á skilnað. Þó hefði hún líklega þurft að vera einnig með heyrnartæki gætt sömu kostum og þeir hljóðnemar sem eiga að skila taktinum inn í dómpallinn.

,,það þurfti bara aðeins að skamma þá”.

Fjölmörg dæmi eru um að hrossaræktendur og sýnendur hafi ausið úr skálum reiði sinnar yfir að þeirra hrossum hafi ekki verið nægilega ofgefið í dómi. Þannig hafi dómarar verið nauð beygðir til þess að biðjast afsökunar með því að bæta um betur á þeim hrossum sem á eftir komu. Hef ég meira að segja heyrt frægan knapa hreykja sér af því að ,,það þurfti bara aðeins að skamma þá”. Þá er ég loks kominn að tilefni þessa pistils. Þar sem kynbótasýningar eru á næsta leyti og skammir það eina sem virkar, vil ég ekki láta mitt eftir liggja í þeim efnum:

Mig langar til að biðja kynbótadómara um að skammast til að gefa sannar upplýsingar um kosti og galla þeirra gripa sem þeim er ætlað að meta, fremur en að henda út tölum eingöngu til að hafa alla góða. Það er hagur hrossaræktarinnar allrar ef ræktendur, hesteigendur og svo ég tali nú ekki um kaupendur kynbótahrossa og ungviðis, gætu á ný farið að treysta þeim upplýsingum sem birtar eru um gripina og að ráðunautarnir axli ábyrgð á þessum sömu upplýsingum.

Eins langar mig til að biðja ræktendur og sýnendur um að skammast til að sýna störfum dómara virðingu og taka því eins og fullorðnu fólki sæmir ef hesturinn stenst ekki væntingar.

 

Með litla trú á breytingum á þessum efnum fer ég þó inn í vorið fullur tilhlökkunar. Nú get ég fylgst með sýningum sjálfur í beinu streymi og þarf því ekki lengur að hringja í einhvern sem var á staðnum til að forvitnast um það hvort hátt dæmdur hestur hafi verið góður.

Lifið heil

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<