Heimsmeistaramót 2023 „Lá nú bara í sófanum seint um kvöld að horfa á sjónvarpið þegar Sigurbjörn hringdi“

  • 27. júlí 2023
  • Fréttir
Daníel Gunnarsson kemur nýr inn í landsliðið

Eins og Eiðfaxi greindi frá fyrr í vikunni drógu þau sig úr landsliðinu Ingibergur Árnason og Sólveig frá Kirkjubæ. Það hefur nú verið staðfest að Daníel Gunnarsson á Einingu frá Einhamri munu keppa í stað þeirra.

„Það eru tveir dagar síðan ég fékk kallið. Lá nú bara í sófanum seint um kvöld að horfa á sjónvarpið þegar Sigurbjörn hringdi og ég fékk 20 mínútur til að hugsa mig um. Þetta var bara klárt, ég er búinn að vera stefna að þessu lengi,“ segir Daníel Gunnarsson nýr knapi í landsliðinu en hann og Eining munu keppa í skeiðgreinum á mótinu en besti tími þeirra í ár er 21,76 sek í 250 m. skeiði.

„Næsta verkefni hjá mér er að fara að huga að sölu á hryssunni og skipuleggja hlutina heima fyrir. Maður hefur rétt svo tíma til að pakka það er svo stutt í þetta,“ segir Daníel en hrossin fljúga út á mánudaginn og munu þau Elvar Þormarsson, Árni Björn Pálsson og Jóhanna Margrét Snorradóttir, landsliðsknapar, fylgja hrossunum út en restin af liðinu fer út á þriðjudag.

„Við erum í roknum gír. Það var lagt upp með þjálfunina í vetur að toppa ekki of snemma, við erum vaxandi. Ég hefði viljað gera betur á Reykjavíkurmótinu, eða fara undir 22 sek. 250 m. en það gekk upp á Íslandsmótinu. Eins og ég segji þá erum við vaxandi og ætlum okkur auðvitað sigur á mótinu í Hollandi, annars værum við ekkert að fara“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar