Landsamband hestamanna Landslið Íslands verður kynnt á morgun

  • 8. júlí 2025
  • Fréttir

Landslið Íslands á Heimsmeistaramótinu í Hollandi 2023 Mynd: Jón Björnsson

Landslið Íslands í hestaíþróttum verður kynnt á morgun kl 15:00 og verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu á EiðfaxaTV og á www.eidfaxi.is.

Að venju ríkir mikil eftirvænting og hafa Landsliðsþjálfaranir lagt mikla vinnu í að setja saman liðin, um helgina fór svo fram dýralæknaskoðun, auk þess sem knaparnir mátuðu keppnis- og æfingafatnað.

Þjálfarar landsliðsins verða í viðtali á Rás 2 í fyrramálið klukkan 9:30 og þar munu þau gefa innsýn inn í hvað þarf að hafa í huga þegar landsliðið er valið.

Í morgun voru þjálfarnir aðeins hleraðir í morgun og hafði þá Hekla Katharína Kristinsdóttir, landsliðsþjálfari U21 þetta að segja; ,,Það hefur verið mjög spennandi að fylgjast með hópnum á keppnistímabilinu, það hafa verið miklar framfarir hjá mörgum knöpum á milli móta og árangurinn þannig að margir eigi fullt erindi á mótið, þó einungis fáir fái að fara.“

Sigurbjörn Bárðason landsliðsþjálfari A liðsins tók undir þetta og sagði samkeppnina hérna heima vera mikla og margir frábærir knapar sem þrátt fyrir allt eru ekki í hópnum. ,,Þetta er flókið ferli og margt sem þarf að ganga upp, svo að knapi og hestur fari út og keppi fyrir Íslands hönd.”

Þau segja að samstarfið í kringum valið hafi gengið ákaflega vel og vilja koma á framfæri þakklæti til mótshaldara sem hafa tekið vel á móti þeim, þar sem þau hafa komið og fylgst með knöpunum í sumar.

,,Það er ákaflega gaman að hringja og tilkynna knöpum að þeir séu á leið á Heimsmeistaramót, þetta er auðvitað eitthvað sem flesta dreymir um og er uppskera gífurlegra vinnu. En þau eru að sama skapi erfið hin símtölin, þegar knapi sem var kominn með fingur á farseðilinn fær fregnir um að hann verði eftir heima, þrátt fyrir að eiga í raun fullt erinda á mótið,“ bætir Hekla Katharína við.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar