Landsmót 2026 verður á Hólum í Hjaltdal

  • 22. nóvember 2020
  • Fréttir
Skrifað undir samning um landsmót hestamanna 2026

Í gær, laugardaginn 21. nóvember skrifuðu fulltrúar Landsmóts ehf, Hestamannafélagssins Skagfirðings og sveitarfélaganna Skagafjarðarbæjar og Akrahrepps undir samning um að landsmót hestamanna árið 2026 verði haldið á Hólum í Hjaltadal. Undirritunin fór fram í ágætu veðri við keppnisvöllinn á Hólum.
Lansmótið 2026 er það þriðja sem haldið verður á Hólum. Áður hafa verið landsmót á Hólum 1966 og 2016. Það verða því 60 ár frá fyrsta mótinu þegar mótið 2026 verður haldið.
Fulltrúar Landsmóts ehf þeir Sveinn Steinarsson formaður Félags Hrossabænda og Lárus Ástmar Hannesson formaður Landssambands hestamannafélaga báru Skagfirðingum kveðju sinna stjórnarmanna og óskuðu Skagfirðingum til hamingju með samninginn. Þeir sögðust vænta mikils af norðlendingum og að á Hólum 2026 verði glæsilegt landsmót sem yrði Íslandshestaheiminum til vegsauka.

Formaður Skagfirðings, Elvar Einarsson þakkaði, fyrir hönd Skagfirðings, fyrir traustið og sagði hestamenn á svæðinu hlakka til að takast á við þetta spennandi verkefni. Landsmót í Skagafirði væri mikilvægt fyrir allt norðurland og hestamennskuna í landinu.
Sigfús Sigfússon sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjörður talaði fyrir hönd sveitarfélaganna. Sigfús benti á að nú væri mun minni óvissa að halda mótið á Hólum þar sem nýleg og góð reynsla frá 2016 lægi fyrir. Þá hefði átt sér stað mikil uppbygging sem nýttist skólanum og myndi nýtast við mótið 2026. Skagfirðingar myndu ásamt forsvarsmönnum skólans taka höndum saman og yrði svæðið enn glæsilegra 2026 en nú er orðið. Hann benti einnig á að gott og mikilvægt væri fyrir þá aðila sem stæðu að mótinu að vita svona tímanlega að mótið yrði haldið á Hólum 2026 svo undirbúningur gæti hafist.

Auk áðurnefndra voru við undirritunina Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs Skagafjarðar, Hrefna Jóhannesdóttir oddviti Akrahrepps auk Erlu Bjargar Örnólfsdóttur rektors Háskólans á Hólum og Sveins Ragnarssonar deildarstjóra hestafræðideildar skólans.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar