Landsmóti frestað!?!

  • 4. apríl 2020
  • Fréttir

Stemningin á landsmóti er engu lík

Djók! Í alvöru, hvernig leið þér að heyra þetta? Er þetta í alvöru það sem við viljum?

Núna eru hestamenn mjög efins með landsmót. „Verður landsmót?“ er mjög algengt umræðuefni. Á þessu máli eru margar hliðar og þeirra, sem eru í forsvari fyrir landsmót, bíður erfið ákvörðun. Sama hver ákvörðunin verður þá mun einhver verða óánægður. Nú eru uppi háværar raddir um að það eigi að fresta landsmóti um ár, hjarðeðlið er sterkt og í dag er hjörðin að hlaupa í eina átt. „Frestum þessu ári, byrjum 2021 með stæl“, er sú skoðun sem er háværust.   Nú eru allir spámenn og spá á sinn hátt hvernig sumarið verður. Ég er ekkert minni spámaður en hinir, ég á bæði svartsýna og bjartsýna spá í mínum huga. Ég ætla hér að rita bjartsýnu spána mína, held við þurfum frekar á henni að halda sem mótvægi.

Segjum sem svo að við Íslendingar sigrumst á þessum vágesti í maí eins og sóttvarnarlæknir spáir fyrir um. Þá verða haldnar úrtökur og kynbótasýningar í lok maí haldnar sem eru jú forvalið. Þær eru forsenda þess að við getum haldið Landsmót. En líklegt er að heimurinn verði enn í heljargreipum og ólíklegt að það munu koma margir erlendir gestir á mótið. En ég ætla að gefa mér að í þessum veruleika sem ég er að spá fyrir verðum við komin í eðlilegt horf nokkurn veginn. Meira atvinnuleysi kannski? Örugglega að mörgu leyti breyttur heimur. En ég gæti samt alveg trúað því að eftir þennan storm gæti verið gaman að fara á landsmót. Hafa eitthvað til að hlakka til. Gæti verið að þetta yrði eitt stærsta landsmót sögunnar? Íslendingar myndu flykkjast þangað. Ekkert varð úr fyrirhugaðri utanlandsferð og fólk óþreyjufullt að gera eitthvað skemmtilegt. Þó það sé ekki ókeypis að fara á landsmót þá er það jú oftast ódýrara en utanlandsferð.

Nú er streymt frá viðburðinum og þeir sem eru í útlöndum gætu horft í gegnum netið og Íslendingar líka.

Er það besta sem við getum gert að fresta þessu ári?  Mitt svar er nei, höldum áfram það er ekki hollt að hanga í svartsýni. Höldum glugganum opnum, þó það komi ekki margir erlendir gestir. Fyrir hvern eru landsmót? Er þetta ekki okkar viðburður? Ef við stöndum saman að gera þennan viðburð flottan og myndum stemningu, þá gæti það verið tækifæri. Viljum við ekki líka fjölga íslenskum áhorfendum? Eru kannski tækifæri á því núna?  Ef okkur tekst að halda flott mót og stemning myndast þá held ég að það myndi spyrjast út og kannski koma ennþá fleiri erlendir gestir næst.  Ég sé bara miklu fleiri kosti við að halda mótið frekar en hitt. En ég er kannski bara  ruglaður, við ættum hugsanlega að eyða sumrinu í Netflix og snakkát.

Samkomubannið er bara til 4. maí, eins og staðan er í dag. Mér finnst við ekki geta tekið ákvörðun strax, hlutirnir breytast fljótt. Einn möguleikinn er sá að við sigrumst á þessu í maí. Sóttvarnalæknir spáir því. Ég spái því líka og þangað til annað kemur í ljós held ég því til streitu að það verði landsmót.

Ég skora á hestamenn alla að lifa í von um landsmót. Svartsýni fylgja vandamál, bjartsýni fylgja lausnir.

Höfundur: Bjarni Sveinsson hestamaður.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<