Landsmót Landsmótið verður í beinni á EiðfaxaTV

  • 31. október 2025
  • Fréttir

Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Eiðfaxa, og Elvar Einarsson, formaður hestamannafélagsins Skagfirðings.

Stærsti viðburður Íslandshestamennskunnar verður í beinni útsendingu á EiðfaxaTV

Það er Eiðfaxa sannur heiður að greina frá því að undirritaður hefur verið samningur við forsvarsmenn Landsmóts hestamanna á Hólum árið 2026 um að mótið verði í beinni útsendingu á streymisveitum EiðfaxaTV. Þannig gefst öllum hestamönnum og áhugafólki um íslenska hestinn, sama hvar þeir eru staddir í heiminum, tækifæri til þess að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu.

“Undirbúningur fyrir Landsmót á Hólum í júlí 2026 er í fullum gangi. Búið er að taka alla velli og mótssvæði í gegn, betrumbæta og stækka og það er mikill hugur í Skagfirðingum að halda frábært Landsmót,” segir Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts.

“Fjöldi reynslubolta í Landsmótshaldi eru þegar komnir til liðs við verkefnið og það er mikill styrkur að fá Eiðfaxa í liðið með okkur til að miðla mótinu í gegnum sína sterku miðla. Nú er áherslan hjá okkur á sérstakt forsölutilboð miðum til áramóta, vikupassi á Landsmót 2026 er jólagjöf hestamannsins þetta árið.”

Landsmót er án efa stærsti viðburður Íslandshestamennskunnar. Þar mæta bestu hross landsins, okkar allra bestu knapar og áhugafólk allsstaðar að úr heiminum til þess að eiga saman frábæra viku og njóta þess besta sem Ísland og íslenski hesturinn hefur uppá að bjóða.

“Við hlökkum til að sjá sem flesta í Hjaltadalnum og hvetjum alla þá sem heimangengt eiga á mótið til þess að tryggja sér miða á viðburðinn hið fyrsta en fyrir þá sem ekki komast verður engu til sparað í að gera útsendinguna sem besta,” segir Magnús Benediktsson framkvæmdastjóri EiðfaxaTV

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar