1. deildin í hestaíþróttum Lið Fornusanda í 1. deildinni

  • 20. febrúar 2025
  • Tilkynning
Liðakynning á liðum í 1. deildinni í hestaíþróttum

Næsta lið sem 1. deidlin kynnir til leiks er lið Fornusanda. Liðið er skipað Davíði Jónssyni, Katrínu Sigurðardóttur, Lea Schell, Sanne Van Hezel og Sigvalda Lárusi Guðmundssyni.

Davíð Jónsson er búsettur á Skeiðvöllum og rekur þar ferðaþjónustu og hrossaræktarbú ásamt fjölskyldu sinni. Hann hefur verið í hestamennsku frá því að hann var krakki og verið öflugur á keppnisbrautinni þá sérstaklega í skeiðgreinum.

Katrín Sigurðardóttir hefur verið á hestbaki síðan hún var barn. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni á Skeiðvöllum, Suðurlandi. Katrín rekur fyrirtækið Icelandic Horseworld ásamt manninum sínum Davíð Jónssyni sem er staðsett á Skeiðvöllum. Hún hefur verið viðloðandi keppni og hestamennsku alla tíð.

Lea Schell er fædd í Þýskalandi og er búin að stunda hestamennsku frá unga aldri. Hún kom til Íslands í fyrsta skipti árið 2014 og fluttist þangað árið 2015. Lea starfar við tamningar og þjálfun hjá Lenu Zielinski á Efra-Hvoli og hefur náð góðum árangri á keppnisbrautinni undanfarin ár.

Sanne van Hezel er fædd og uppalin í Hollandi en flutti til Íslands 2016. Hún hefur unnið á nokkrum hrossaræktarbúum á Íslandi, vann lengi í Skálakoti en rekur nú sína eigin tamningastöð undir Eyjafjöllum. Hún hefur náð góðum árangri með Völund frá Skálakoti í fimmgangi og skeiðgreinum í fyrsta flokki.

Sigvaldi Lárus Guðmundsson er menntaður reiðkennari frá Hólaskóla og hefur sinnt reiðkennslu við góðan orðstír í fjölda mörg ár. Sigvaldi er einnig reiðkennari ársins 2022 hérlendis. Hann hefur starfað sem reiðkennari á Hólum og við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, kenndi Reiðmanninn og er nú yfirreiðkennari Hæfileikamótunar LH fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára ásamt því að hafa tamið og þjálfað víða til margra ára. Í dag stundar Sigvaldi hestamennsku ásamt fjölskyldu sinni á hrossaræktarbúinu Feti.
Þjálfari liðsins er Þorvarður Friðbjörnsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar