1. deildin í hestaíþróttum Lið HorseDay í 1. deildinni

  • 7. febrúar 2024
  • Tilkynning
Liðakynning á liðum í 1. deildinni í hestaíþróttum

Undirbúningur fyrir 1. deildina í hestaíþróttum er hafinn en fyrsta mótið verður 23. febrúar og þá verður keppt í fjórgangi. Deildin hefur hafið liðakynningu og annað liðið sem deildin kynnir til leiks er lið HorseDay

Hér fyrir neðan er liðakynningin á liði HorseDay

Í liði HorseDay app eru knapar sem koma úr ólíkum áttum. Einkunnarorð: Samvinna skapar liðsheild. Hafa gaman saman.

Anna Valdimarsdóttir

Anna hefur verið viðloðandi keppni í áratugi en hefur einbeitt sér að uppbyggingu tveggja fyrirtækja síðustu ár, ásamt fjölskyldu sinni, og hefur því minna sést á keppnisbrautinni. Annars vegar reka þau fyrirtækið Fákaland, sem framleiðir reiðtygi, og hins vegar Fákaland Export, sem sér um útflutning á hrossum. Meðfram fyrirtækjarekstri starfar hún á Fákssvæðinu, þar sem hún þjálfar og kennir, auk sem Anna eyðir hluta úr hverju ári í Þýskalandi við sömu störf. Hún hefur verið í íslenska landsliðinu bæði á Norðulandamóti og Heimsmeistaramóti og var í A-úrslitum í F1 2007 í Hollandi Hún vann Þýska meistaramótið í F1, varð Norðurlandameistari í V1 2006 í Danmörku og það sama ár var hún valin Hestaíþróttakona Íslands.

Friðdóra Friðriksdóttir

Friðdóra er menntaður þjálfari og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og er gæðingadómari. Hún starfar hjá fyrirtæki sínu Hestaval, àsamt fjölskyldu sinni, sem er á félagssvæði Sörla í Hafnarfirði. Friðdóra hefur verið viðloðandi keppni frá barnsaldri og keppt mest megnis í meistaraflokki með fínum árangri. Hún hefur meðal annars orðið Íslandsmeistari í 1. flokki, Suðurlands meistari, skeiðmeistari og margfaldur Hafnarfjarðarmeistari, sem og íþróttakona Sörla 2023.

Haukur Tryggvason

Haukur er hestaþjálfari og reiðkennari, útskrifaður frá Háskólanum á Hólum. Hann var búsettur í Þýskalandi í tæp 20 ár þar sem hann starfaði sem reiðkennari, þjálfari og tamningamaður. Haukur er nýlega fluttur aftur heim til Íslands og starfar nú á Hvoli í Ölfusi. Haukur hefur víðtæka reynslu og notið velgengni í keppni í gegnum árin. Helstu titlar Íslandsmeistari, þýskur meistari, Norðurlandameistari og var nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu, sem og þjálfari hjá þýska landsliðinu.

Súsanna Sand Ólafsdóttir

Súsanna er í Hestamannafélaginu Herði í Mosfellsbæ. Hún er menntaður reiðkennari og þjàlfari frá Háskólanum á Hólum, auk þess að vera gæðinga og íþróttadómari. Hún hefur keppt með ágætum árangri í gegnum tíðina, verið knapi fyrir Hörð á nokkrum landsmótum og fleira. Hefur til að mynda margsinnis unnið A-flokk gæðinga í Herði.

Telma L. Tómasson

Telma þjálfari og reiðkennari, útskrifuð frá Háskólanum á Hólum. Hún er liðsstjóri, þjálfar og kennir á félagssvæði Sörla í Hafnarfirði og víðar. Aðalstarf Telmu er í fjölmiðlum, hún er fréttamaður og fréttaþulur á Stöð 2/Bylgjunni og þekkt fyrir umfjöllun um hestaíþróttir og hestatengd málefni. Telma hefur verið í keppni um árabil með ágætis árangri, einkum í 1. flokki, hefur orðið Reykjavíkurmeistari og Suðurlandsmeistari í sínum keppnisflokki, en hefur fært sig yfir í meistaraflokk hin síðari ár og varð Hafnarfjarðarmeistari í F1 árið 2023.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar