Lið Hrímnis – Meistaradeild KS

  • 17. janúar 2020
  • Fréttir
Lið Hrímnis hefur unnið liðakeppnina í KS deildinni undanfarin fimm ár

 

Liðsstjóri þessa liðs er sem fyrr Þórarinn Eymundsson sem alls hefur unnið einstaklingskeppnina fjórum sinnum.

³Þórarinn er reiðkennari við Háskólann á Hólum og reiðmeistari FT. Þórarinn er borinn og barnfæddur Skagfirðingur og búsettur á Sauðárkróki þar sem hann stundar tamningar og þjálfun. Þórarinn hefur náð góðum árangri í öllum keppnisgreinum og sýnt fjölda kynbótahrossa í góða dóma meðal annars slegið heimsmet tvisvar sinnum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í hestaíþróttum og árið 2007 vann hann til tveggja gullverðlauna og einna silfurverðlauna á heimsmeistaramóti í Hollandi og hlaut þann heiður að vera valinn knapi ársins. Einnig hlaut hann annað sæti í fimmgangi á Heimsmeistaramótinu í Hollandi tíu árum seinna.

 

Fanney Dögg Indriðadóttir er útskrifaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og kemur ný inn í þetta lið. Hún kemur frá Grafarkoti í Húnavatnssýslu og starfar sem reiðkennari og við þjálfun hrossa. Fanney hefur náð góðum árangri í deildinni en sem dæmi má nefna sigraði hún slaktaumatölt í fyrra og árið 2015 á heimaræktuðum hrossum. Fanney er reiðkennari í hæfileikamótun LH.

 

Finnur Jóhannesson er nemandi á þriðja ári við Háskólann á Hólum. Finnur hefur verið ötull á keppnisvellinum síðustu ár meðal annars með hestana Svipal frá Torfastöðum, Óðinn frá Áskoti og Tinnu-Svört frá Glæsibæ.

 

Líney María Hjálmarsdóttir er reiðkennari við Háskólann á Hólum og starfar við tamningar og þjálfun á Tunguhálsi II. Hún hefur riðið til fjölmargra úrslita á Landsmóti og Íslandsmóti og vakið athygli meðal annars á hestunum Völsungi frá Húsavík og Kunningja frá Varmalæk.

 

Sina Scholz starfar sem reiðkennari við Háskólann á Hólum. Hún hefur gert það gott í keppni en meðal annars reið hún til A-úrslit í A-flokki á Landsmóti Hestamanna 2018 og A-úrslit í fimmgangi á Íslandsmóti sama ár. Einnig reið hún A-úrslit í fimmgangi á Íslandsmóti sl.sumar. Sina var knapi ársins í Skagafirði árið 2018.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar