„Líklega eðlilegt að spyrja sjálfan sig að því eða hvað?“

  • 15. janúar 2023
  • Fréttir
Viðtal við þau Heklu Katharínu Kristinsdóttur og Eirík Vilhelm Sigurðarson, ræktendur í Árbæjarhjáleigu II

Hjónin Hekla Katharína Kristinsdóttir og Eiríkur Vilhelm Sigurðarson tóku við rekstrinum í Árbæjarhjáleigu II af foreldrum hennar Heklu, Kristni Guðnasyni og Marjolijn Tiepen árið 2016. Þau reka þar saman tamningastöð en Hekla Katharína sér um daglegan rekstur búsins með tvo starfsmenn með sér og Eiríkur starfar sem markaðs- og kynningarfulltrúi í Rangárþingi ytra í fullu starfi ásamt því að vera fjármálastjóri fyrirtækis þeirra í kringum hrossareksturinn.

“Við rekum hér tamningastöð en við erum með um 40 hross á húsi. Það er okkar rekstur. Kristinn og Marjolijn eru með um 100 – 150 hross í þeirra umsjón en þar sem Árbæjarhjáleiga er ekki það stór jörð að þá erum við með eitthvað af hrossum upp í Skarði og á leigulandi,” segir Eiríkur sem byrjaði ekki í hestamennsku fyrr en hann og Hekla Katharína fóru að rugla saman reitum þegar þau stunduðu bæði nám við Háskólann á Hólum, Eiríkur í ferðamálafræði og Hekla í hestafræðum. Hekla Katharína er alin upp í Árbæjarhjáleigu og fékk sitt fyrsta hross ansi ung. “Ræktunin mín byrjar eiginlega þá. Ég fékk folald þegar ég var tveggja ára gömul, Snilld frá Skarði, sem var undan Þokka frá Garði. Ég fór að rækta undan henni snemma en hún fór í folaldseign fjögurra vetra gömul. Hún var sýnd fjögurra vetra og fór strax í fyrstu verðlaun og beint í ræktun. Hún er formóðir margra hrossanna minna en síðan höfum við bætt inn í hryssustofninn með tímanum,” segir Hekla Katharína innt eftir því hvenær þau byrja í hrossarækt. “Ef við tölum um okkar sameiginlegu hrossarækt þá fæðast fyrstu folöldin sem við Eiríkur ræktum saman um 2020 og höfum við síðan þá verið að fá fimm til sex folöld á ári,” bætir hún við.

Þau Hekla og Eiríkur leitast við að rækta hross sem nýtast bæði í keppni og á kynbótabrautinni. Í dag eru þau með sex hryssur í ræktun; Jarlsdóttirina, Furu (aðaleinkunn 8.28) frá Árbæjarhjáleigu, sem þau fengu í brúðkaupsgjöf frá foreldrum Heklu, Lukku (aðaleinkunn 8.14 og þar af 9.5 fyrir skeið), Skrýtlu (afkomandi Snilldar) og Dröfn (Andvaradóttir frá Ey móvindótt að lit) og síðan höldum við Heklu frá Hellu Aronsdóttur (aðaleinkunn 8,01) annað hvert ár. “Draumahryssa í ræktun er hryssa sem hefur alla eiginleika góða en kannski einn eða tvo framúrskarandi eiginleika,” segir Eiríkur og Hekla bætir við; “Það verður að vera mikil geðprýði og eftirfylgni líka.”

Farin að leggja meiri áherslu á sköpulagið

Þau hafa verið að horfa mikið á byggingu hrossanna sinna en hún er eitthvað sem þeim langar að bæta í sinni ræktun. “Við héldum þ.a.l. ekki undir neinn stóðhest sem er með undir 8,50 í byggingu í sumar. Hestar sem bera útlitið einnig með sér í reið. Við erum svo heppin að við fáum eitt folald undan Viðari frá Skör á næsta ári en Fura fór undir hann. Dröfn fór undir Þór frá Stóra-Hofi og Lukka fór undir Appollo frá Haukholtum. Við leigðum hryssu af Guðrúnu Lóu vinkonu okkar í Heysholti, Orradótturina Nínu frá Lækjarbotnum, en hún er systir Ljúfs frá Torfunesi og héldum við henni undir Pensil. Skrýtla fór undir Jarl en við höldum alltaf undir hann á hverju ári og síðan hélt Áslaug María dóttir okkar hryssunni sinni í fyrsta skipti, fyrstu verðlauna Vilmundardóttir sem heitir Krafla, hún fór undir Blesa frá Heysholti sem hefur verið í miklu metum hérna hjá okkur,” segir Hekla en í sumar fengu þau undan Hannibal frá Þúfum, Stála frá Kjarri, Blesa og Hilmi frá Árbæjarhjáleigu, sem er sammæðra Jarli.

Ekki er enn farið að temja hrossin úr þeirra ræktun en á járnum eru þau með spennandi hryssu sem er í eigu sonar þeirra, Vilhelms Bjarts. Fjögurra vetra hryssa undan Eldingu, móðir Jarls, og Hrafni frá Efri-Rauðalæk. “Hún er ofboðslega flott en við erum mjög hrifin af henni. Það eru mörg fín tryppi á húsi en mér finnst hún standa upp úr í augnablikinu af þessum hrossum sem við eigum,” segir Hekla.

Eldveggur sem er lýti á sýningum

Eiríkur var í framkvæmdastjórn Landsmóts og því var mikið að gera hjá honum á Landsmótinu í sumar. Hekla Katharína tók að sér að aðstoða nokkra krakka sem voru að keppa á mótinu og keppti einnig sjálf og því var í mörgu að snúast hjá þeim hjúum. “Mér finnst alltaf rosalega gaman að fylgjast með yngri kynslóðinni. Það er alltaf að gaman að sjá framfarir hjá þessum krökkum en þetta var frábært Landsmót að mínu mati og gaman að fá íþróttakeppnina með á mótið. Það er framtíðin en ég held að þetta geti styrkt báða vængi,” segir Hekla og bætir hún við að henni hafi líka þótt ótrúlega gaman að sjá úrslitin á Íslandsmóti ungmenna og fullorðna en ungmennin voru að mörgu leyti á pari við þá fullorðnu að hennar mati.

Þau Hekla og Eiríkur náðu lítið að fylgjast með kynbótahrossunum á Landsmótinu vegna anna en Hekla náði þó nokkrum sýningum m.a. sýningu Blesa sem hún hefur þjálfað undanfarin ár en Árni Björn Pálsson sýndi á mótinu. “Það var að mörgu leyti orðið aðeins auðvelt að fá háa dóma hér fyrir nokkrum árum og nú er heldur betur búið að herða á því, sem vissulega mátti gerast en jafnvægið er klárlega ekki komið ennþá. Verð að viðurkenna að ég var með stórkostlegan hest á Landsmóti sem ég hélt að myndi fá hærra. Ég hélt að sýningin hans væri betri en tölurnar sem hann hlaut. Landsmót er uppskeruhátíð og ef hestarnir eru góðir og jafnvel betri en á vorsýningu þá þurfa þeir að fá þær tölur sem þeira eiga skilið,” segir Hekla og vill bæta því við að henni finnist atriðið með það að þurfa losa um tauminn til að fá níu eða hærra fyrir tölt megi taka út. “Ég held það væri farsælast. Við getum treyst dómurunum til þess að sjá hvernig taumsamband knapa er við hestinn án þess að biðja um þetta tiltekna atriði. Þá er nærtækara að sjá betur gangskiptingar á endum vallanna og hvernig hrossin ganga af stað eftir að þeim er snúið við. Þetta atriði (losa um tauminn) er að mínu mati eldveggur sem lýtir sýningar á flestum hestum.”

Grátlegt að missa af Sleipnisbikarnum

Aðspurð útí hvað sé hápunktur ársins fyrir þeim segja þau það vera heiðursverðlaun Jarls frá Árbæjarhjáleigu sem móðir Heklu á. “Við stefndum á að ná heiðursverðlaunum og það fluggekk allt saman enda, auðvitað er ég hlutdræg, eru að koma frábær hross undan hestinum. Hross sem nýtast öllum. Það var grátlegt að missa af Sleipnisbikarnum. Okkar markmið var að ná heiðursverðlaunum og svo þegar maður kemst svona nálægt þessu þá er grátlegt að rétt missa af því. Manni fannst líka skrítið í haust þegar kynbótamat Jarls hækkaði. Hesturinn sem stóð efstur stóð í stað. Ekkert hafði breyst síðan um vorið annað en það að hross undan Jarli sem voru sýnd eftir Landsmót höfðu lækkað lítillega, samt hækkar hann í kynbótamati. Eðlilega spyr maður sig hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis eða vantað inn í myndina þarna fyrir Landsmótið. Líklega eðlilegt að spyrja sjálfan sig að því eða hvað?” segir Hekla.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar