Líklegir til heiðursverðlauna

Skaginn frá Skipaskaga er líklegur til heiðursverðlauna á næsta Landsmóti
Til að stóðhestur hljóti heiðursverðlaun fyrir afkvæmi verður hann að uppfylla tvö skilyrði; 118 stig í kynbótamati og 50 dæmd afkvæmi. Í framhaldi af því að hross hljóta nú tvær aðaleinkunnir, með og án skeiðs, eru stóðhestum sem hljóta 118 stig eða meira í aðaleinkunn kynbótamats án skeiðs nú líka veitt afkvæmaverðlaun. Áfram verður þó miðað við aðaleinkunn kynbótamatsins þegar hestum er raðað í verðlaunasæti á stórmótum.
Eftirfarandi hestar eru líklegir til að hljóta heiðursverðlaun á Íslandi en þeim er raðað eftir aðaleinkunn kynbótamatsins eins og það stendur nú. Það er þó misjafnt hversu mörg afkvæmi þessara hesta þurfi að koma til dóms til að þeir nái lágmörkum.
Þeir Skaginn frá Skipaskaga og Hringur frá Gunnarsstöðum eru þeir sem næstir eru því að ná til heiðursverðlauna. Þeir standa vel í núverandi kynbótamati og vantar báðum einungis sex afkvæmi til viðbótar til að ná heiðursverðlaunum.
Álfaklettur stendur feykilega vel í kynbótamatinu með 136 stig, honum vantar þó 22 afkvæmi til dóms til að ná lágmörkum um fjölda afkvæma.
Nafn | Uppruni | Dæmd afkvæmi | Kynbótamat |
Álfaklettur | Syðri-Gegnishólum | 28 | 136 |
Skaginn | Skipaskaga | 44 | 126 |
Hringur | Gunnarsstöðum | 44 | 123 |
Hákon | Ragnheiðarstöðum | 31 | 120 |
Lord | Vatnsleysu | 24 | 118 |
Hreyfill | Vorsabæ | 37 | 118 |
Tekið skal fram að stóðhestar í öðrum löndum sem eru að nálgast eða hafa náð lágmörkum til heiðursverðlauna eru ekki með á listanum. Listinn miðast við þá hesta sem gætu komið fram með afkvæmahóp á næsta Landsmóti. Birtur með fyrirvara um mannleg mistök.