,,Maður sveigir ekki reglur í Þýskalandi að gamni sínu“

  • 25. maí 2020
  • Fréttir

Þórður Þorgeirsson heldur í Klakann frá Skagaströnd Mynd: Aðsend

Viðtal við Þórð Þorgeirsson

Eins og Eiðfaxi hefur fjallað um að þá fór kynbótasýning fram í Ellringen í Þýskalandi í síðustu viku. Alls voru sýnd í kynbótamóti 73 hross og þar af 70 í fullnaðardómi. Þórður Þorgeirsson sýndi alls 23 hross á sýningunni og þar af 21 í fullnaðardómi.

Á sýningunni var farið í einu og öllu eftir lögum þýskra yfirvalda um sóttvarnir, blaðamaður Eiðfaxa heyrði í Þórði að sýningunni lokinni og spurði hann út í hana og lífið í Þýskalandi í Covid-19.

Það gekk töluvert á til þess að fá þessa sýningu í gegn og við knapar og ræktendur hrossa erum því mjög þakklát að fengist hafi leyfi fyrir því að halda sýninguna. Nú þegar hefur öðrum sýningum í Þýskalandi verið frestað og má þar nefna sýningu í Großholzleute sem fara átti fram 2.-3.júní. Sýningunni var skipt í tvennt til þess að tempra fjölda knapa og aðstoðarmanna á svæðinu. Þannig að það voru í raun tvær yfirlitssýningar. Það var einungis leyfilegt að vera með einn aðstoðarmann í byggingardómnum og andlitssgríma var skilyrði alls staðar þar sem þú varst á gangi og var allt starfsfólk og dómarar einnig með grímur. Allir lögðust á eitt í því að láta dæmið ganga upp og fóru eftir reglum, þú ert nú ekkert að sveigja reglur hér í Þýskalandi að gamni þínu og ef við hefðum ekki staðið okkur hvað sóttvarnir varðar hefði sýningin verið flautuð af með það sama.“ Segir Þórður og er því greinilega feginn að hafa náð að koma þeim hrossum sem búið er að þjálfa í vetur í dóm.

Þessi sýning var þá einnig fyrsta kynbótasýningin þar sem farið er eftir nýjum dómskala kynbótahrossa, hvernig lýst Þórði á þær breytingar.
„Persónulega finnst mér mörg af þessum atriðum sem framkvæma þarf í reiðdómnum hafa lítið með ræktun að gera og ég tel að við eigum það mikið af fagfólki í dómstörfum að þau ættu t.d. að sjá það hvort hesturinn er sjálfberandi eða ekki og eins ef þeir hanga á beislinu í spennu, því tel ég að þessi regla um að slaka taum sé óþörf. En ef þessar breytingar verða íslenska hrossastofninum til tekna í framtíðinni tek ég því og verð fyrsti maðurinn til þess að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér. En varðandi það að slaka taum á tölti að þá er hægt að kenna flestum hestum það nema kannski allra mestu tréhestum sem koma nú sjaldan til dóms hvort sem er.“

En hvernig hefur ástandið í Þýskalandi verið á þessum fordæmalausu tímum. „Þetta hefur bara verið mjög erfitt hér í Þýskalandi og búið er að fresta flestum sýningum og íþróttamótum. Þýska meistaramótið átti til að mynda að vera í byrjun júní í Hrafnsholti hjá Kóka en það er búið að blása það af. Það gæti reyndar eitthvað verið að glæðast í þessum málum en við skulum sjá hvernig það þróast. Sala á hrossum hefur verið steindauð vegna þess að Þjóðverjar eru þannig hugsandi að þegar það herðir að þá spara þeir hverja krónu til mörgum áranna ef þeir skyldu þurfa að nota hana seinna. Sem er skynsamlegt því fólk hefur verið að missa vinnuna og þetta hangir allt saman. Við þurfum því að sýna biðlund og þolinmæði til þess að komast í gegnum þessa erfiðu tíma og margir eiga um sárt að binda. ég finn til með fólki sem hefur misst vinnuna eða þá einhverja nákomna sér úr Covid-19. Ég sjálfur hef verið duglegur við það að ríða út og mun vera það áfram í vor og sumar. Þetta hefði verið tilvalið sumar til þess að plana góðar hestaferðir en það er ekki hægt hér í Þýskalandi og sakna ég þess mjög að geta ekki farið í slíkar ferðir líkt og hægt er heima á Íslandi.“ Segir Þórður að lokum.

Eiðfaxi þakkar honum fyrir spjallið og mun fylgjast með framgangi mála í Þýskalandi sem og öðrum löndum er varðar sýningar og keppnir á þessum skrítnu tímum.

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<