„Man vel eftir fyrsta Landsmótinu“

  • 6. júlí 2020
  • Fréttir

Frá setningu Landsmóts árið 2011 en margt hefur breyst frá því árið 1950

Í dag þann 6.júlí eru 70 ár frá því að fyrsta Landsmót hestamanna var haldið á Þingvöllum

Í dag þann 6.júlí eru 70 ár frá því að fyrsta Landsmót hestamanna var haldið á Þingvöllum en talið er að um það bil 10.000 manns hafi sótt mótið heim víðs vegar af á landinu. Á mótinu voru alls sýnd 133 hross bæði í gæðingakeppni, kappreiðum og kynbótasýningum en þá var einungis keppt í einum flokki gæðinga og 250 metra skeiði og 350 metra stökki.

Ólafur Guðjónsson bóndi á Bollastöðum í Flóahreppi, áður Hraungerðishreppi, sótti mótið heim á sunnudegi þá tólf ára gamall en farið var á bíl akandi úr Flóanum og fékk hann að fara með Gunnari heitnum nágranna sínum á Skeggjastöðum.

,,Við fórum akandi á mótsstað til þess að horfa á úrslitin og það má segja að þarna hafi allt verið nýtt fyrir 12 ára krakka. Mér er minnisstætt hversu fallegur og góður hann Hóla-Stjarni var og gleymi ég honum aldrei. Það sama má segja um Sokka frá Vallholti sem er í minningunni gullfallegur, reistur og glæsilegur og þá verð ég einnig að nefna hryssuna Svölu frá Núpi.“ Þarna lýsir Ólafur nokkrum af þeim hrossum sem hann sá á mótinu en það var Stjarni frá Hólum sem stóð efstur gæðinga setinn af Ingólfi Guðmundssyni.
Svala frá Núpi var efsta hryssan á mótinu en hún var fædd á Hamri í Borgarhreppi en eigandi var Jón Jósefsson á Núpi í Dalasýslu.

Í Morgunblaðinu þann 29. júlí árið 1950 segir Gunnar Bjarnason, þáverandi landssráðunautur í hrossarækt um Svölu: „Svala er mjög fjölhæfur gæðingur, heldur smá en þrekin og jafnbyggð, á ágætum fótum, hreyfingar háar, ljettar og rúmar.“ Þá minnist Ólafur á Sokka frá Vallholti, en hann var sýndur í elsta flokki stóðhesta. Gunnar Bjarnason lýsir Sokka á þennan hátt í Morgunblaðinu: ,,Sokki frá Vallholti hreif hugi margra með glæsibrag sínum og stórkostlega yfirsvip, sem bar af. Fegurri hálsbygging og bolhlutföll verður varla á kosið. En því miður vantar þar gæðingshæfileika og getu.“

Efsti gæðingurinn á mótinu 1950, Stjarni frá Hólum. Skyldleikaræktaður af Svaðastaðastofni. Knapi Ingólfur Guðmundsson. Ljm. óþekktur, úr bókinni Í morgun ljóman.

Eins og áður segir í greininni er talið að á Þingvöllum hafi verið um 10.000 manns telur Ólafur að þetta geti staðist? „Já ég tel það. Mannfjöldinn á mótinu var mikill og man ég vel eftir því að þetta vakti athygli mína enda ekki oft komið á fjölmennar hátíðir á þessum tíma. Þarna var mikið af fólki alls staðar af á landinu sem kom ríðandi til Þingvalla og átti þar góða daga.“  En hvað telur hann að hafi helst breyst á 70 ára sögu Landsmóta? ,,Ef við tölum um hrossin að þá er ég viss um allra bestu gripir þessa tíma myndu sóma sér í nútímanum, það er vont að fullyrða en þetta er mín upplifun. Það er þó alveg víst að fjöldi góðra hross hefur aukist svo um munar og nú sést vart dapur hestur. Ég er viss um það að hægt sé að ná aftur upp þeim spenningi fyrir Landsmótum hestamanna sem ríkti hér áður og þá sérstaklega ef það væri hægt að ná upp kappreiðaspenningi að nýju.“

Blaðamaður Eiðfaxa þakkar Ólafi fyrir spjallið sem hefur mætt á öll Landsmót frá árinu 1950 að undanskildum mótunum 1954 á Þveráreyrum og 1990 á Vindheimamelum. ,,Ég hef alla tíð haft gaman af hrossum og mun halda áfram að mæta á samkomur hestamanna svo lengi sem ég hef heilsu.“

Helstu úrslit LM1950

Stóðhestar – 6 vetra og eldri

  1. Hreinn 304 frá Þverá.

10 v. dökkjarpur.

F.: Glaður, Egg.

M.: Valtýs-Grána 1390, Keldudal.

Eig.: Hannes Stefánsson, Þverá.

 

  1. Blakkur 302 frá Úlfsstöðum

10 v. svartur.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Brúnka, Hofsstaðaseli.

Eig.: Hestamannafélagið Faxi.

 

  1. Gáski 317 frá Hrafnkelsstöðum

5 v. svartur.

F.: Skuggi 201, Bjarnarnesi.

M.: Stjarna 564, Hrafnkelsstöðum.

Eig.: Hestamannafélagið Smári.

 

Stóðhestar – 4-5 vetra

  1. Svaði 352 frá Svaðastöðum.

4 v. svartur.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Nös 254468, Svaðastöðum.

Eig.: Eggert Jónsson, Kirkjubæ.

 

  1. Ljúfur 353 frá Blönduósi.

4 v. rauðbl.

F.: Glampi, Blönduósi.

M.: Bleikblesa, Orrastöðum.

Eig.: Eggert Jónsson, Kirkjubæ.

 

  1. Léttir 310 frá Langsstöðum.

4 v. jarpur.

F.: Skuggi 201, Bjarnanesi.

M.: Jörp 1175, Langsstöðum.

Eig.: Hrrf. Hraungerðishrepps.

 

Stóðhestar – 3 vetra

  1. Glókollur 363 frá Svaðastöðum.

Rauðbles.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Nös 254468, Svaðastöðum.

Eig.: Eggert Jónsson, Kirkjubæ.

 

  1. Randver 358 frá Svaðastöðum.

Rauðbles.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Nös 254468, Svaðastöðum.

Eig.: Eggert Jónsson, Kirkjubæ.

 

  1. Sokki 359 frá Reykjavík.

Rauðskj.

F.: Háleggur 235, Auðsholti.

M.: Sóley, Litlu-Skógum.

Eig.: Gísli Benediktsson, Reykjavík.

 

Hryssur

  1. Svala 2381 frá Núpi.

9 v. grá.

F.: Þokki 232, Hamri.

M.: Grána, Arnarholti.

Eig.: Jón Jósefsson, Núpi.

 

  1. Hrönn 2382 frá Hofsstöðum.

8 v. rauð.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Blesa 491, Svaðastöðum.

Eig.: Páll Jónsson, Selfossi.

 

  1. Fluga 2383 frá Grund.

14 v. svört.

F.: Krummi, Grund.

M.: Brúnka 1480, Hólshúsum.

Eig.: Björn Halldórsson, Akureyri.

 

Gæðingar

  1. Stjarni frá Hólum.

9 v. rauðtvístj.

F.: Rauðblesi, Hólum.

M.: Axelsbrúnka, Hólum.

Eig.: Viggó Eyjólfsson, Reykjavík.

 

  1. Blesi frá Hofsstaðaseli.

7 v. rauðbl.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Fagra-Rauðka, Utanverðunesi.

Eig.: Árni Guðmundsson, Sauðárkróki.

 

  1. Gyllir frá Hofsstöðum.

10v. leirljós.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Ljós, Hofsstöðum.

Eig.: Óli M. Ísaksson, Reykjavík.

 

  1. Stormur frá Hofi.

14 v. grár.

F.: Brúnn, Mannskaðahóli.

M.: Svala 499, Hofi.

Eig.: Jón Jónsson, Hofi.

 

  1. Roði frá Hofsstöðum.

10 v. dreyrrauður.

F.: Blakkur 169, Hofsstöðum.

M.: Jónasar-Blesa, Hofsstöðum.

Eig.: Sigurður Arnalds, Reykjavík.

 

Kappreiðar

 

250 m skeið

  1. Nasi frá Gufunesi 25,9

10 v. rauðnösóttur.

Eig. og kn.: Þorgeir Jónsson, Gufunesi.

 

  1. Léttir frá Hofsstöðum 26,4

9 v. svartur.

Eig. og kn.: Jón Jónsson, Varmadal.

 

  1. Svala 2381 frá Núpi 26,6

9 v. grá.

Eig.: Jón Jósefsson, Núpi.

Kn.: Oddur Eysteinsson.

 

350 m stökk

  1. Gnýfari úr Dalasýslu 25,9

9 v. bleikur.

Eig.: Þorgeir Jónsson, Gufunesi.

Kn.: Þóra Þorgeirsdóttir.

 

  1. Stígandi frá Hömrum 26,1

15 v. svartur.

Eig. og kn.: Védís Bjarnadóttir, Laugarvatni.

 

  1. Drottning frá Oddsstöðum 26,4

9 v. brúnskj.

Eig.: Jón Jósefsson, Núpi.

Kn.: Oddur Eysteinsson.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar