„Megum ekki gleyma mikilvægi íslenska móralsins og frjálsræðisins“

Herbert Ólason eða Kóka þekkja allir hestamenn, hann hefur um 40 ára skeið verið einn af ötulustu fulltrúum íslenska hestsins á meginlandinu, rekið þar hrossabú eða hof eins og hestamenn á meginlandinu kalla það, verið ötull í sölu og markaðsmálum íslenska hestsins, stundað ræktun, keppni og í raun allt sem viðkemur hestamennskunni. Síðustu áratugi hefur Kóki byggt upp fyrirtækið Top Reiter og líklega eru ekki mörg hesthús í dag þar sem ekki finnst eitthvað af vörum þess fyrirtækis.
Í byrjun árs var Kóki staddur hér á landi og Eiðfaxi tók við hann spjall um hestamennskuna í Þýskalandi, stöðu hestsins í dag, framtíðarhorfur og ýmislegt fleira. Kóki er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum og segir hlutina hreint út eins og þeir líta út frá hans sjónarhorni. Viðtalið mun birtast á vef Eiðfaxa í nokkrum hlutum á næstunni ég hér kemur fyrsti hluti viðtalsins.
Hvað er að frétta af hestamennskunni í Þýskalandi ?
Það er allt mjög gott að frétta að utan, 2021 var metár í útflutningi frá Íslandi og mest fór náttúrulega til Þýskalands, covid ástandið hjálpaði að mínu mati til með það, fólk var náttúrulega bara heima hjá sér og þurfti afþreyingu. Það seldust allar gerðir af hestum en gallinn er að það er fluttur út alveg hellingur af bykkjum, bara drasli. Mikið af þessu er selt beint í gegnum netið, og ég er ekki að lasta netsöluna sem slíka en hún er erfið og hættuleg í sambandi við hesta. Það er eitt og annað hægt að poppa upp á videoi, bomsa hestinn upp, gera allar hundakúnstir og taka svo út það sem ekki má sjást. Svo virðist einhver gæðingur poppa upp á skjáinn og hann er keyptur. Þetta er náttúrulega ekki rétta leiðin, við breytum ekkert tækninni, social media er að taka yfirhöndina á öllu, þú mátt ekki segja hann er svartur en þú mátt segja hann er hvítur. Það er orðið rosalega vandlifað í þessum heimi en það er gaman að honum samt. Svo lifum við það að árið 2022 er 1000 hestum minna flutt út, mest fór samt til Þýskalands enda er það og verður stæðsti markaðurinn. Það er búið að plægja þann akur, við sem erum búnir að vera þarna úti í 30-40 ár erum búnir að því og það er ekkert hægt að eyðileggja nema það komi einhverjir skemmdarverkamenn á svæðið.
Það eru margir sem eru búnir að vera þarna í gegnum tíðina, hvernig hefur þetta þróast ?
Ég kom þarna með þeim fyrstu en Biggi Gunnars kom þó rétt á undan mér, ég og Nonni (Jón Steinbjörnsson) komum um svipað leyti, ég kem 1983 og Nonni 1984. Þá er útflutningurinn eiginlega dottinn niður, þetta voru kannski 80 hross sem var verið að flytja út á hverju ári á þessum tíma. Þá var búið að vera rosalegur áróður á móti íslenska hestinum vegna sumarexemsins.
Nú en við komum þarna einn af öðrum og nemum land, markaðssetjum hestinn og byrjuðum bara án þess að vita alveg hvað við vorum að gera. Ég man að við fórum til dæmis á fullt af jólamörkuðum og teymdum undir börnum, bara til að sýna okkur og gera hestinn sýnilegan. Svo vorum við duglegir við að keppa og náðum árangri þar.
Reiðhefðin í Þýskalandi er gríðarlega mikil, dressur og military reiðmennska er aldagömul og hestamennska mikil, það eru tvær milljónir hesta í Þýskalandi, mörg hestakyn og mikil ræktun. Hjá mörgum hestakynjum eru stórir ræktunarklúbbar eins og við höfum í kringum íslenska hestinn.
Þegar best lét vorum við ef ég man rétt 18 eða 19 Íslendingar sem vorum með hof í Þýskalandi, alveg frá Kiel og niður til München, nú erum við mikið færri bara nokkrir eftir kannski svona 6-7 Íslendingar sem eru virkir að reka hof. Það er allt of lítið svo ég hvet unga reiðmenn á Íslandi til að nema land í Þýskalandi, við þurfum á því að halda allstaðar, hvernig heldur þú að staðan væri í Danmörku og Svíþjóð ef Íslendingarnir hefðu ekki farið út ?

Hvernig er að koma undir sig fótunum núna í Þýskalandi sem ungur tamningamaður ?
Það fer bara eftir því hvað þú ert duglegur og harður, það er nóg að gera og ekkert mál að hafa nóg að gera. Fasteignamarkaðurinn hefur reyndar breyst aðeins núna eftir að stríðið í Úkraínu skall á, vextir hafa hækkað, það er rosalegur munur að taka lán með 0,8% vöxtum eins og þeir voru eða kannski 3,5 – 4% eins og við erum að sjá núna. Það er töluvert stór biti að kyngja. Land er svakalega dýrt í Þýskalandi og þetta eru dýr hof. En þú getur tekið á leigu, farið inná búgarðinn og orðið hluti af honum. Þeir sem hafa áhuga á þessu mega hafa samband við mig og ég mun verða hverjum og einum hjálpsamur sem hefur áhuga á að koma út og gera eitthvað, við erum að eldast þó við séum helvíti brattir ennþá.
Er þetta áhyggjuefni að íslendingum er að fækka í Þýskalandi ?
Já ekki spurning, mér finnst það áhyggjuefni, það eru 4-500 hof í Þýskalandi með íslenska hesta, þetta er svakalegur iðnaður orðinn og við megum ekki gleyma mikilvægi íslenska móralsins og frjálsræðisins sem honum fylgir og þarf að vera. Við erum til dæmis mikið nær kúnnanum einhvern vegin, og ég held að við gerum miklu meira fyrir kúnnana, til dæmis ef einhverra hluta vegna kemur í ljós að þeir hafa keypt eitthvað sem þeir ráða ekki við, sem maður reynir auðvitað að komast hjá með því að velja saman knapa og hest, en ef það kemur fyrir erum við alltaf opnir og tilbúnir til að skipta og leiðbeina fólki en það er ekki mikið um það hjá Þjóðverjunum, þó það sé til.
Við þessir íslendingar sem vorum þarna þá vorum líka alltaf að akítera fyrir íslenskri ræktun og vorum fyrst og fremst að segja þeim að kaupa merar á Íslandi og á þessum tíma var rosalega mikið að gerast í ræktuninn hér úti, við héldum til dæmis ræktunarlandsmót í Þýskalandi sem komu fleiri þúsund manns á og þar var sko rætt um ræktun alveg fram undir morgunn.
Er áhugi Þjóðverja á hestamennsku að aukast ?
Það er alveg rosalegur áhugi og mikil aukning í Þýskalandi, það hefur verið stöðug aukning og íslenski hesturinn er lang útbreiddastur af þessum smáhestakynjum, og þetta sem við höfum verið að vinna að er komið til að vera. En stöðnun er dauði og við verðum alltaf að hugsa fram á við, hvað getum við gert meira, og við eigum ekkert að hræðast samstarf við hvorn annan, við eigum að leita eftir samstarfi og ekki hræðast breytingar. Við þurfum að vera alltaf opin fyrir því hvað við getum gert til þess að bæta hrossin, reiðmennskuna og umhverfið kringum hestinn. Þetta hefur breyst mikið í Þýskalandi frá því að ég kom þar fyrst, þá voru hestar bara hér og þar í skúrum, hafðir úti í kuldanum og allavegana. Það eimir aðeins af því og það eru erfðir frá Gunnari vini mínum Bjarnasyni sem stóð á sínum tíma með tvo loðna Íslandshesta í Hamburg, fór af stað með þá og byrjaði að markaðssetja hestinn.
Ég gæti haldið áfram að ræða þetta í tvo daga, ég er fullur af fróðleik og það hefur enginn meiri reynslu en ég í því hvað er að ske erlendis. Við sjáum til dæmis að Svíþjóð og Noregur hafa ekki verið í þessum vexti sem við höfum verið í Þýskalandi og í Austurríki er þetta svona að dangla í sama horfi.
Margir sem stunda hestamennsku í Þýskalandi og eiga hest leggja allt í sölurnar fyrir hann, að halda einn hest í stíu á góðum stað kostar svona helmingin af því að leigja góða íbúð, plássið fyrir hestinn kostar um það bil 400 evrur sem eru í kringum 60.000 íslenskar, þú getur fengið íbúð á 800 evrur. Svo bætist við þetta járningar, dýralæknakostnaður, reiðtímar ofl. Þetta fólk sem vinnur venjulega vinnu á venjulegum launum leggur mikið á sig til að eiga íslenskan hest.
En hvað kostar að leigja hof í Þýskalandi, ef ungt fólk ætlar að flytja út, og hvernig mundi það ganga fyrir sig ?
Ég mundi fyrst og fremst fá einhvern til þess að leita að góðu hofi á góðum stað, það er tiltölulega lítið mál að ganga frá því og koma af stað. Það skiptir máli hvað mikið land fylgir en á móti kemur að það fæst styrkur frá ESB útá land sem þú tekur á leigu. Ég mundi halda að það væri hægt að fá mjög gott hof fyrir svona 4.000 evrur á mánuði í leigu. Hiti og rafmagn hefur hækkað töluvert undanfarið en það er kannski ekkert komið til með að vera, en það er miklu ódýrara að lifa í Þýskalandi heldur en hér. Fólk sem kann eitthvað fyrir sér á auðveldlega að geta rekið svona hof með því að temja, þjálfa, selja, kenna fólki og taka hesta í pensjon sem gefur auðvitað líka pening. Hey er ekkert mjög dýrt, fer reyndar svolítið eftir því hvar maður er og við notum til dæmis spæni frá sögunarverksmiðju sem er ekki langt frá okkur. Í þessu er bara sama gamla reglan að það virðast allir hafa það gott sem nenna að vinna, þú þarft að hafa fyrir hlutunum en þá getur þú líka haft það gott.