„Meiri breidd og meira að gerast“

Haukur Tryggvason er snúinn aftur til Íslands eftir tæplega 20 ára dvöl í Þýskalandi. Haukur er kominn á Hvol í Ölfusi og mun vera þar í vetur að ríða út. Hann er bóndasonur úr Þingeyjarsýslu og byrjaði þar sína hestmennsku, kannski líkt og flestir krakkar í sveit.
“Ég er frá Mýri í Bárðardal og var mikið á hestbaki sem krakki. Áhuginn jókst alltaf með hverju árinu og fer ég síðan inn á Akureyri og þaðan á Hóla áður en ég fór á Suðurlandið,” segir Haukur aðspurður hvernig hans hestamennska byrjaði. Haukur fór að vinna á Holtsmúla hjá Sigurði Sæmundssyni og fjölskyldu og var þar í tvö ár áður en hann fór á Hvol í Ölfusi þar sem hann starfaði með Þorvaldi Árna Þorvaldssyni. Haukur kynntist þá fyrrum eiginkonu sinni, Jóhönnu Tryggvason, og er það hún sem dregur hann til Þýskalands.

Var nokkrum sinnum í landsliðinu
“Við förum út sumarið 2005 en foreldrar Jóhönnu áttu þar hross og var þetta áhugaverður pakki. Ég hugsaði með mér að þetta yrðu kannski tvö ár en síðan þróast hlutirnir áfram. Hrunið á Íslandi gerði það að verkum að mér fannst ekki áhugavert að koma heim og þegar það var liðið hjá þá vorum við komin með barn og það að flytja til Íslands ekki inn í myndinni,” segir Haukur en hann bjó í Svartaskógi sem er við Freiburg í Þýskalandi.
“Við vorum með tiltölulega mikið af spennandi hrossum á þessum tíma þ.á.m. Baltasar vom Freyelhof sem ég keppti t.d. á Heimsmeistaramóti. Glampasonur sem var flott dæmdur og æðislegur hestur. Við kepptum í fimmgangi, gæðingaskeiði og tölti og enduðum í öðru sæti í samanlögðum fimmgangsgreinum á þessu móti. Það tókst ekki allt alveg eins og ég ætlaði mér en hesturinn vakti mikla eftirtekt,” segir Haukur. Haukur keppti nokkrum sinnum fyrir Íslandshönd á Heimsmeistaramótum en árið 2013 í Berlín var hann í B-úrslitum í fimmgangi á Hettu frá Ketilsstöðum og árið 2018 varð hann Norðurlandameistari á Orku frá Feti í fjórgangi. Haukur og Jóhanna voru lengi staðarhaldarar á Töltmyllunni en þar voru haldin mikið af stórum mótum í Þýskalandi á þeim tíma.

Haukur og Emilía frá Holshúsum
Líkað vel í Hrafnsholti
Haukur og Jóhanna skildu árið 2018 og fer þá Haukur í Hrafnsholt í Þýskalandi en búgarðurinn er í eigu Top Reitermanna, Kóka og Geira Kóka. Haukur er búinn að vera þar þangað til núna en Hvoll er einnig í eigu þeirra að hluta.
“Það var frábært að vera í Hrafnsholti en það er enginn betri vinur en Kóki. Það var gaman að vinna með honum, jákvætt hugarfar og aldrei litið til baka. Þakklátur fyrir tækifærið að koma hingað á Hvol. Ég taldi að það yrði auðveldara fyrir mig að komast inn í landið. Bara að fá mig viðurkenndan í kerfinu tók alveg 2-3 vikur. Ég hélt það væri bara nóg að bjóða góðann daginn þar sem ég er íslendingur og með íslenska kennitölu”
Heimalandið togaði alltaf í hann
Haukur segir hestamennskuna vera ólíka hér heima og í Þýskalandi og var hann farinn að þrá eitthvað meira og fleiri áskoranir.
“Hestamennskan er eiginlega gjörólík hér og úti. Það er erfitt að útskýra það í stuttu máli en ef við tökum sem dæmi þá þessi túra hestamenning á Íslandi, þessar hestaferðir og skemmtiferðir og þetta að leika sér saman. Það er allt öðruvísi menning. Úti eru mikli meiri fjarlægðir og menn einangrast svolítið á sínum búgörðum. Það er frábært fólk í Þýskalandi eins og hér heima. Kannski fyrir mann eins og mig var þetta, þarna í lokin, ekki orðið eins áhugavert. Heimalandið togar líka alltaf í mann,” segir hann og bætir við. “Ég er í hestamennsku fyrir mig. Ég er ekki í henni fyrir aðra þó ég lifi á því að þjónusta fólk. Það er margt gott úti en það voru aðrir hlutir farnir að toga í mig, hlutir sem ég vil hrærast í og voru þeir farnir að vekja meiri áhuga hjá mér að fá að vera með. Maður vill að sjálfsögðu standa sig vel og langaði mig að koma mér í umhverfi sem mun drífa mig meira áfram. Það er það sem er að kveikja í mér, meiri breidd og meira að gerast,” segir Haukur að lokum.

Haukur og Orka frá Feti