Meistaradeild æskunnar í beinni á Eiðfaxa í vetur
Í dag var undirritaður samningur milli Eiðfaxa og Meistaradeildar æskunnar um að Eiðfaxi sjái um beinar útsendingar frá mótaröðinni í vetur.
Í þessari deild koma fram flestir af efnilegustu knöpum landsins og framtíðarfólki greinarinnar, þarna keppa okkar yngstu keppendur hver við annan og sækja sér reynslu og þekkingu í hestaíþróttinni og stjörnunar verða til.
Það er því með miklu stolti sem við hjá Eiðfaxa kynnum það að við munum gera Meistaradeild æksunnar góð skil á streymisveitum okkar og vef á komandi tímabili.
Hilda Karen Garðasdóttir formaður Meistaradeildar æskunnar hafði þetta að segja við það tilefni. “ Þetta tryggir Meistaradeild æskunnar og þeim keppendum sem þar eru frábært svið til þess að koma sér á framfæri í gegnum Eiðfaxa og streymisveiturnar sem hann nær til hér á landi og erlendis. Aðsókn keppenda í deildina er góð og rúmlega það því við höfum átt fullt í fangi við það að taka við keppendum. Knaparnir í deildinni eiga, þrátt fyrir ungan aldur, frábæran keppnisárangur að baki. Ég vil því óska hestaíþróttinni til hamingju með það að búið sé að tryggja þessum knöpum pláss í sviðsljósinu.“
Alls verða keppnisdagarnir í Meistaradeild æskunnar á komandi vetri fimm talsins og keppni hefst á fjórgangi í febrúar.