Meistaradeild Líflands og æskunnar á sunnudaginn

  • 9. febrúar 2024
  • Fréttir
Liðin í deildinni verða kynnt í verslun Líflands að Lynghálsi í dag

Fyrsta mótið í Meistaradeild Líflands og æskunnar verður haldið á sunnudaginn kemur í Lýsishöllinni á Fákssvæðinu í Víðidal og hefst kl. 12:00.

Í ár eru liðin ellefu talsins, hvert með fjórum knöpum og alls eru því keppendurnir 44 talsins í hvert sinn á aldrinum 13-17 ára. Margir eru að stíga sínn fyrstu skref í því keppnisfyrirkomulagi sem er viðhaft í deildinni, þ.e. aðeins er keppt í einstaklingsgreinum og því fá þessir ungu knapar dýrmæta reynslu í því að sýna hestinn sinn ein inná vellinum, þar sem tæknileg útfærsla sýningar skiptir máli eins og gangskiptingar og fleira.

Á mótinu á sunnudaginn verður keppt í fjórgangi og eru það Íslensk verðbréf sem styrkja mótið. Knapar hafa æft sig vel síðustu vikur og mánuði með sínum þjálfurum og liði og eru spenntir að byrja keppnistímabilið.

Liðin í deildinni verða kynnt í verslun Líflands að Lynghálsi í dag laugardaginn 10. febrúar kl. 11:00 en þangað eru allir velkomnir og er verslunin opin milli 10:00-15:00.

„Það eru svo að sjálfsögðu allir velkomnir í Lýsishöllina á sunndaginn að fylgjast með fjórganginum sem verður án efa æsispennandi og glæsileg keppni,“ segir í tilkynningu frá stjórn deildarinnar.

Vefur Meistaradeildar Líflands æskunnar er www.mdeild.is og svo er deildin líka á Facebook.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar