Meistaradeild Ölfushallarinnar

  • 26. janúar 2023
  • Fréttir
Lesendabréf

Í dag hefst Meistaradeildin í hestaíþróttum, sem ég vil kalla Meistardeild Ölfushallarinnar. Því það virðist sem að keppni þessi verði að fara fram í Ölfushöllinni þrátt, fyrir að til sé höll eða hallir sem bera þennan viðburð mun betur. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun mína að keppni þessi eigi ávallt að fara fram við bestu aðstæður sem völ er á. Þá tala ég útfrá mínu sjónarhorni sem er áhugasamur áhorfandi sem mætir í höllina til að fygjast með bestu knöpum landsins sem og bestu hestunum. Njóta félagsskapar við aðra áhorfendur og vera saman í samverunni eina kvöldstund og njóta þess besta sem hesturinn og knapar hafa upp á að bjóða.

Að mínu viti eru nokkur atriði sem gera það að verkum að ekki er hægt að bjóða upp á Ölfushöllina sem keppnisstað þegar við erum með Meistaradeildina.

Fyrir það fyrsta þá er aðgengi á á horfendapallana þannig að fólk sem komið er af léttasta skeiði á í erfiðleikum að brölta upp á pallana til að fá sér sæti. Oft hefur maður horft upp á fólk hreinlega setja sig í hættu við að brölta þarna um og reyna að koma sér í sæti.

Í öðru lagi er aðstaðan í hléum og fyrir keppni niðri í veitingasal þannig að sá fjöldi sem höllin tekur kemst engan veginn fyrir. Aðstaðan til að selja veitingar getur engan veginn borið allan þennan fjölda. Fólk stendur saman í einni hrúgu og ekki nokkur leið að hreyfa sig hvað þá að smeygja sér áfram til að versla og njóta veitinga.

Síðan í þriðja lagi sem er nú alvarlegasti hlutinn, þá er ekki nokkur leið að sjá kepnnina nema að hluta. Þegar knapar ríða hestum sínum eftir langhliðinni sem liggur við áhorfendapallana þá hverfa þeir sjónum fólks og enginn getur fylgst með keppninni. Í mínum huga er það ekki í boði að vera með hringvallagreinar eins og tölt, fjórgang, fimmgang og slaktaumatölt í Ölfushöllinni. Ef menn vilja horfa framhjá þeim annmörkum sem ég nefni í fyrstu tveim athugasemdunum þá er hugsanlegt að vera með gæðingafimina sem og skeiðið í þessari höll. Fyrir einhverju síðan tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að kaupa mig inn á viðburð eins og Meistaradeildina og sjá ekki nema hluta af keppninni. Við á mínu heimili höfum í gegnum tíðina keypt tvo ársmiða og verið dugleg að mæta, og mætt snemma til að njóta góðs hestakosts og góðra knapa. Það er með ólíkindum að stjórn Meistaradeildarinnar skuli 2023 fara aftur til upphafsins og vera með alla keppnina á þessum stað. Ég ætla að leyfa mér að benda þeim á að til er höll hjá Spretti þar sem öll þau atriði sem ég minnist á hér fyrir ofan eru í góðu lagi. Góð aðkoma fyrir alla, þeir sem eru komnir af léttasta skeiði þurfa aldrei að stíga í nokkra tröppu, veitingasalurinn fer létt með að taka við öllum gestum bæði fyrir keppni sem og í hléi. Síðan og ekki síst þá sjá allir keppnina. Pæliði í því, keppnin sést og maður getur fylgst með því sem fram fer inn á vellinum. Því er það alveg með ólíkindum að hringvallagreinarnar skuli ekki vera í þessari höll. Hvaða hagsmunir eru það sem stjórnin er að hugsa um þegar hún tekur svona ákvarðanir? Þetta er svo galið að maður trúir eiginlega ekki að fólk skuli fara þessa leið. Ég get lofað þessu ágæta fólki að þessi ákvörðun er ekki að hjálpa til við að kynna hestamennskuna. Engum íþróttahreyfingunni dytti nokkrum tímann í hug að vera með keppni við þær aðstæður að fólkið sem kæmi á viðburðinn gæti ekki horft nema á hluta af því sem fram færi. Af hverju telst þetta í lagi hjá einhverjum hluta hestamanna og af hverju gera menn svona? Oft hef ég lesið greinar og eða athugasemdir hjá hestamönnum þar sem þeir kalla eftir að þeir njóti virðingar í samfélaginu, svona ákvarðanir eru ekki til þess fallnar að auka virðingu meðal fólks, þvert á móti dregur úr henni. Svo má minna á það að maður kallar ekki eftir virðingu heldur vinnur maður sér inn virðingu.

Síðan kom í ljós núna í gær að sjónvarp allra landsmanna, RÚV hafði hug á að sýna frá keppninni. Nei þá tók stjórnin þá ákvörðun að sýna þetta á lokaðri sjónvarpsrás þar sem þú þarft að kaupa þig inn til að horfa. Enn ein ákvörðun sem er galin svo ekki sé nú sterkara tekið til orða. Oftar en ekki koma forystumenn hestamennskunnar fram á sjónarsviðið og tala um að auka þurfi sýnileika greinarinnar og kynna fyrir sem flestum og auka nýliðun í hestamennskunni. Því eru það óskiljanlegt af hverju stjórnin gekk ekki til samninga við RÚV og kom þessu í sjónvarp allra landsmanna. Hvaða hagsmunir voru það sem réðu þar? Ekki allavega viljinn til að kynna hestamennskuna fyrir sem flestum. Nei við skulum hafa þetta inn á lokaðri sjónvarpsrás þar sem eingöngu harðkjarna hestafólk er. Maður er eiginlega orðlaus og þarf nú töluvert til.

Nú skulum við taka höndum saman og stefna á að koma þessari keppni í þær aðstæður sem hún á skilið. Hlakka til að kaupa mér árskort Meistaradeildarinnar 2024 og hitta alla unnendur íslenska hestsins og eiga með þeim skemmtilega og gefandi stund í höll sem ber þennan viðburð.

Með vinsemd
Guðbr. Stígur
frá Stíghúsi

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar