Melódía frá Hjarðarholti hlaut 10 fyrir fet!

  • 30. júlí 2020
  • Sjónvarp Fréttir

Þessa vikuna fer fram miðsumarssýning á Hellu en en þegar þetta er ritað hafa alls 84 hross verið sýnd í fullnaðardómi en síðasti dagur forsýninga er í dag og svo er yfirlit á morgun föstudag.

Mörg athyglisverð hross hafa komið til dóms þessa vikuna og eitt þeirra er Melódía frá Hjarðarholti sem hlaut hvorki meira né minna en 10,0 fyrir fet. Melódía er sjö vetra gömul undan Sleipnisbikarshafanum Álfi frá Selfossi og Snót frá Hjarðarholti en sú er undan Orion frá Litla-Bergi og Skjónu frá Hjarðarholti. Ræktandi hennar er Jón Þór Jónasson en eigendur eru Þorvaldur Tómas Jónsson, Axel Örn Ásbergsson og Elín Magnea Björnsdóttir sem einnig er knapi.

Melódía hlaut fyrir sköpulag 8,28, fyrir hæfileika 8,19 og í aðaleinkunn 8,22. Hún hlaut m.a. 9,0 fyrir brokk og samstarfsvilja og 8,5 fyrir tölt, hægt tölt, fegurð í reið og greitt stökk. Eins og áður segir bar hæst einkunnin 10,0 fyrir fet, en fet „sprettinn“ má sjá hér í myndspilaranum fyrir ofan.

Þetta er þriðja tían sem gefin er í ár í hæfileikadómi en áður hafði Fenrir frá Feti hlotið 10,0 fyrir hægt stökk og Sólon frá Þúfum 10,0 fyrir samstarfsvilja. Melódía er hinsvegar tíunda hrossið sem hlýtur einkunnina 10,0 fyrir fet skv Worldfeng.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar